Eftir fáu hef ég beðið með jafnmikilli óþreyju eins og vorinu. Þessi vetur ætlaði engan enda að taka. Vorboðinn ljúfi, almennileg rigning og rok, hefur loksins tekist að reka veturinn í burtu. Í bili að minnsta kosti. Það getur verið að mörgum þyki umræðan um veðrið leiðigjörn en það er nú einu sinni svo að hjá henni verður vart komist sérstaklega ef menn eiga erindi í heita potta.

Veðrið er svo góð afsökun til spjalls, fínn ísbrjótur. „Jæja, hann fer kannski að snúa sér“ með þessum orðum er maður ávarpaður í heita pottinum af bláókunnugu fólki og maður spjallar við það af heilum hug um vindáttir og skýjafar. Eðlilegasti hlutur í heimi að sitja saman með bláókunnugu fólki í baði og tala saman sem helstu sérfræðingar þjóðarinnar um veðurfar.

Annars finn ég vorfiðringinn brjótast um í mér, skrokkurinn er staðráðinn í því að það sé komið vor. Ég reimaði á mig hlaupaskóna og rauk af stað út í rokið, guðslifandi fegin að þurfa ekki að vera með mannbrodda undir skónum enn eitt sumarið. Ég gerðist meira að segja svo djörf að sleppa vettlingum, en ég er ekki viss um að ég geri það aftur fyrr en í júlí.

Vorfjörið ólgar í blóðinu, þrátt fyrir leiðindatíð. Ég er eins og kýrnar í fjósinu, þrái að fara út að leika mér, enda er ég fædd að vori, er í Nautsmerkinu og því kannski ekki skrýtið að ég finni til samkenndar með kúm.

Æskuhetja mín, Ronja ræningjadóttir, rak upp voróp á hverju vori áður en hún flutti sig út í skóg. Ég finn hjá mér óseðjandi löngun til að reka upp mitt voróp og hvet alla til að gera það sama, öskrum vorið inn þá hlýtur það að koma.
Góðar stundir.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir.

Related Posts