Heiða Kristín (31) og Elísabet Margeirs (30):

Ísland í dag hefur verið á dagskrá Stöðvar 2 í fjölda ára. Núna er breytinga að vænta í þessum lífseiga þætti en hann hefur fengið til liðs við sig afrekshlauparann Elísabetu Margeirsdóttur og pólitíkusinn Heiðu Kristínu.

Heiða Kristín, Elísabet Margeirsdóttir

FLOTTAR: Elísabet og Heiða Kristín verða góð viðbót við Ísland í dag. Stelpurnar koma úr ólíkum áttum og hafa margt og mikið til málanna að leggja.

Spennandi „Mér líst mjög vel á þetta og er mjög áhugasöm,“ segir Heiða Kristín en hún ásamt Elísabetu Margeirsdóttur tilheyra nýja fólkinu sem gengur til liðs við Ísland í dag.
Heiða segir að hún, eins og flestir Íslendingar, hafi horft á þáttinn og viti því hverju hún sé að ganga að. „Það er gaman að taka þátt í að breyta einhverju sem hefur gengið jafnlengi og Ísland í dag.“
Yngri kynslóðin hefur fengið að spreyta sig í þættinum til þessa og segir Heiða það hafa verið gaman að fylgjast með því. „Það þarf að vera jafnvægi í fjölmiðlum. Það var kominn tími á kynslóðaskipti. Það er flott og frambærilegt fólk sem hefur verið á bak við þættina sem hefur mikið til málanna að leggja.“

Pólitík skemmtileg

Það ætti ekki að koma á óvart að Heiða Kristín verður með stjórnmálalegan umræðulið þar sem hún segist ætla reyna koma stjórnmálum fram á skemmtilegan hátt.
„Stjórnmál eru skemmtileg. Það fer allt eftir því hvernig þú talar um þau. Þú þarft að koma málunum fram á skiljanlegan máta en ekki tala í endalausum hugtökum sem einungis afmarkaður hópur fólks skilur. Ég ætla ekki að tapa mér í hugtökum og leiðindum og gera mitt besta til að fjalla um pólitík á auðskiljanlegan og skemmtilegan hátt. Pólitík er mjög skemmtileg enda er hún bara um samskipti manna á milli. Það er ekki að ástæðulausu að margir sjónvarpsþættir fjalla um pólitík.“

Hlaupadrottning

Elísabet Margeirsdóttir kemur einnig ný inn í Ísland í dag. Hún er þjóðinni kunn eftir að hafa flutt veðurfréttir fyrir landann í sjö ár. „Ég verð með innslög vikulega um útivist og áskoranir. Þemað hjá mér verður að tala við fólk sem skarar fram úr í sinni íþrótt og fá að vita hvað liggur á bak við góðan árangur og hver sé galdurinn. Ég ætla einnig að athuga hvernig fólk nær að samtvinna daglegt líf við íþróttir sem taka oft mikinn tíma úr deginum.“

Sjálf er Elísabet afrekskona í hlaupi og boðar fagnaðarerindi hlaupsins oft og víða. „Ég byrjaði að hlaupa fyrir 12 árum síðan. Ég byrjaði að hlaupa sem áhugamanneskja en þetta hefur síðan orðið alltaf meira og meira. Ég hef mikla ástríðu fyrir hlaupum og kem því alltaf að í dagsins amstri með miklu skipulagi. Ég er líka með góða æfingafélaga sem drífa mig áfram.“

Bæ, bæ, veður!

Elísabetu, ásamt öðrum veðurfréttakonum Stöðvar 2, var sagt upp störfum í byrjun mars. Uppsagnirnar vöktu mikla athygli enda eru veðurfréttirnar vinsæll liður á sjónvarpsstöðum landsins. Sjálf er Elísabet næringarfræðingur sem hefur gaman af veðri.
„Ég einhvern veginn datt inn í veðrið fyrir sjö árum. Sá þetta starf auglýst og þetta hentaði vel á sínum tíma samhliða námi. Einnig hafði ég mikinn áhuga á veðurfræði en ég hef sagt skilið við veðrið í bili.“

Related Posts