Veraldlegir hluti skipa stóran sess í lífi okkar. Við tengjumst þeim tilfinningaböndum og eigum það til að fylla heimilið okkar af húsgögnum, fötum og smádóti sem við höfum enga þörf fyrir. Að koma inn mínimalískri hugsun og tileinka sér mínimalískan lífsstíl hjálpar til við að ná tökum á þessari óreiðu sem stundum er í kringum okkur.

Gott er að byrja á því að skrifa niður ástæður og hvað gæti komið út úr því að einfalda lífið. Og minnka umfangið í kringum sig. Viltu minnka skuldir þínar? Ertu orðin leið/ur á tímaleysi? Finnst þér tíminn með börnunum lítill? Finnst þér heimilið í óreiðu? Að gerast mínimalisti gæti aðstoðað við margt í lífinu. En það gerist engin/n slíkur á einni nóttu. Það er hægt að framkvæma þetta í litlum skrefum. Mínimalísk hugsun hjálpar þér að átta þig á hvers þú þarfnast og hvers ekki. Þarftu enn eina peysuna í skápinn? Þurfa börnin þín allt þetta dót? Fyrst um sinn er gott að setjast niður og spyrja sig þessara spurninga.

 

Hefur þú áhuga en veist ekki hvar þú átt að byrja? Þá er kjörið að taka lítil skref. Byrjaðu á því að labba um heimilið og skoða í skápa og skúffur. Taktu út hlutina sem þú átt mikið af. Hvað eru til dæmis glösin og bollarnir margir í skápnum? Áttu samansafn af yfirhöfnum á ganginum en notar aðallega bara þrjár? Taktu þá hluti sem þú hefur ekki notað síðustu þrjá til sex mánuði, settu þá í kassa og í geymslu. Ef þú þarft ekki á þeim að halda næstu þrjátíu daga, gefðu þá öðrum eða seldu þá. Smám samana mun plássið í skápunum aukast og hlutirnir sem þú notar njóta sín betur.

 

Viltu læra að ferðast með léttan farangur? Mörgum hættir við að vilja helst taka með sér allt sem ekki er naglfast þegar þeir fara í ferðalag. Hver kannast ekki við það að ferðast með þungar töskur út á land eða á milli landa og nota aðeins helminginn af því sem pakkað var niður? Gott ráð er að pakka aðeins fyrir helminginn af ferðinni. Ef þú ert að fara í fjóra daga, pakkaðu fyrir tvo daga. Að prófa sig svona áfram gerir það að verkum að ferðalögin verða auðveldari. Og jafnvel ódýrari. Því alls staðar er komið töskugjald.

 

Ruslpóstinn strax í ruslið. Stundum tökum við ekki eftir því hvað veldur óreiðunni. Það er svo margt sem okkur þykir eðlilegt að sé á heimilinu okkar. Og má þar nefna óteljandi bæklinga og blöð sem berast inn um lúguna á hverjum degi. Við gluggum í blöðin og bæklingana. Látum sum tilboð heilla okkur, þá oft einhvern óþarfa sem okkur vantar alls ekki. Svo safnast ruslastaflinn. Það er því sniðugt og lítið skref í átt að mínimalískum lífsstíl að hætta að taka þetta inn á heimilið. Um leið og ruslpósturinn berst inn um lúguna þá er kjörið að fara með hann beint í ruslatunnuna. Þá losnar þú við staflana af pappír og eyðir jafnvel ekki peningum í eitthvað sem heillaði í bæklingnum. Því ef það vantar eitthvað á heimilið þá er lítið mál að fara í verðkönnun á viðkomandi hlut, til dæmis í gegnum Internetið.

 

Fjarlægðu tíu hluti úr fataskápnum. Fjarlægðu þá strax í dag! Það er staðreynd að í öllum skápum eru tíu hlutir sem ekki eru í notkun. Þeir taka bara pláss og gefa fallegu flíkunum, sem við notum, minna rými. Skáparnir okkar eru oft fullir af óþarfa. En með mínimalískri hugsun væri sniðugt að fækka töluvert í þeim. Setja sér markmið. Tíu flíkur í dag og tíu á morgun. Eða ein flík allan mánuðinn. Ef þú ert ekki tilbúin að gefa þær, gerðu þá það sama og með litlu hlutina. Geymdu í þrjátíu daga. Ef þú saknar þeirra ekki, gefðu þær þá.

 

Viltu skipulagðari innkaup? Með þjálfaðri hugsunarhætti um hvað á að eyða peningum í og hvað ekki. Hvað er óþarfi og hvað ekki. Þá er sniðugt að fara líka yfir matarinnkaupin og komast til botns í hvað er að fara til spillis þar. Það eru oft stór mistök að kaupa til dæmis inn í magninnkaupum. Þá vill það oft verða að óopnaðar vörur enda í ruslinu, komnar fram yfir síðasta söludag. Það gæti því verið sniðugt að fara ekki í búðina nema hafa búið til matseðil fyrir vikuna. Þá fyrir allan daginn og líka hvað borða á í morgunmat þá vikuna. Gott skipulag gerir það að verkum að við hættum að gleyma þessum eina hlut. Sem alltaf þarf að skjótast eftir í dýrari búðir. Gott er líka að fara alltaf yfir skápana áður en farið er í búðina. Því við gleymum því oft hvað er til og hvað ekki. Einnig er sniðugt að setja á matseðilinn einn dag í viku þar sem klárað er úr skápnum. Þá líka prófar þú þig áfram með allskonar samsetningar.

Aðalmarkmiðið er að finna leiðir til að matarinnkaupin verði ódýrari og minna af mat fari í ruslið.

 

Gefðu gjafir sem eyðast. Það er líka einn annar hausverkur í lífi mínimalistans. Það eru gjafir. Hvað á að gefa og hvað á að þiggja? Ef við byrjum á því sem sniðugt er að gefa, þá er þumalputtareglan gjafir sem eyðast. Þú kannski furðar þig á því hvað það er. En það eru gjafir eins og gjafabréf í bíó, sund, leikhús, á veitingastað og á allskonar viðburði. Matarkarfa, vín, góðir ostar, sápur, krem, nuddolíur og margt fleira. Markmiðið er að gjöfin sé ekki hlutur sem tekur skápapláss eða annað slíkt. Einnig ef þú ert að reyna að minnka umfangið heima hjá þér. Þá væri gott ráð að benda fólki á að þessi leið til gefa þér og börnum þínu gjafir sé frábær. Sumir taka vel í það, aðrir ekki.

 

Kostir þess að vera mínimalisti

 

Þú eyðir minna af peningum.

Það er auðveldara að þrífa heimilið.

Þú kemur fleiru í verk.

Ert góð fyrirmynd barnanna.

Átt auðveldara með að finna hluti.

Ræktar ástríðu þína frekar.

Lærir að dvelja í núinu.

Þú upplifir frelsi frá veraldlegum hlutum.

 

minis 

 

Hvað er að vera mínimalisti?

Sá misskilningur er oft á kreiki að það að vera mínimalisti geri það að verkum að þú megir ekki eiga neitt. Þurfir jafnvel að lifa með minna en hundrað hluti í kringum þig, megir ekki eiga bíl, ekkert heimili og alls ekki sjónvarp! Það er bara ekki satt. Það er í raun engin ein uppskrift að mínimalisma. Því draumar, þarfir og þrár allra eru ekki sömu. Undirstaðan er samt sú að læra að fjarlægja sig frá gerviþörfinni á því veraldlega. Hætta að tengjast tilfinningalega húsgögnum, flíkum eða hlutum. Og átta sig á að það sem við héldum að væri nauðsynlegt í þeim efnum er það ekki. Það er í raun frelsi sem felst í þessum hugsunar- og lifnaðarhætti.

 

Related Posts