Anna Lára Orlowska (22) ætlar sér titilinn Miss World:

Anna Lára Orlowska er nýkrýnd Ungfrú Ísland og keppir fyrir Íslands hönd í Miss World í desember. Keppnin verður haldin í Washington DC og er í fyrsta skipti haldin í Bandaríkjunum. Anna Lára starfar í félagsmiðstöðinni Miðbergi, hún er hálf-pólsk, mikil keppnismanneskja og elskar að vinna með ungum krökkum.

SH1610273015-3

UNGFRÚ ÍSLAND: Anna Lára kom, sá og sigraði í keppninni Ungfrú Ísland. Hún tók þátt því hana langaði til að leyfa fólki að kynnast sér. Það velkist enginn í vafa um það að Anna Lára verður frábær fulltrúi Íslands í Miss World.

Ungfrú „Mér finnst mjög fyndið þegar fólk spyr mig hvort líf mitt hafi breyst mikið eftir að fékk titilinn Ungfrú Ísland. Í rauninni hefur líf mitt ekkert breyst fyrir utan það að ég fer í fleiri viðtöl og myndatökur en ég geri það sama og áður. Ég vinn enn í félagsmiðstöð og er enn í sömu rútínunni. Ef líf mitt hefur eitthvað breyst þá er það bara til hins betra þar sem þessi titill færir manni fjölmörg tækifæri sem hefðu kannski ekki annars boðist,“ segir Anna Lára.

Hlustar ekki á neikvæðni

Fjölmörg þekkt andlit í samfélaginu þurfa að láta sig hafa það að margir hafi skoðun á þeim og sú skoðun, hvort sem hún er góð eða slæm, er oftast látin í ljós á Internetinu. Anna Lára segist ekki láta leiðindaraddir á sig fá.

„Ég er bara þannig gerð að ég hlusta voðalega lítið á það sem fólk segir um mig og leitast ekki eftir því að fá eitthvert álit á mér. Ég sleppi því bara að skoða hvað fólk hefur að segja á Internetinu,“ segir Anna sem er þó vel meðvituð um að fólk hefur skoðun á henni.

„Ég veit alveg að það er fólk þarna úti sem hefur einhverja skoðun á mér en ég er ekkert að lesa það. Ég nenni ekki að eyða tíma mínum að lesa einhver leiðindaummæli.“

Hér er ég

Anna Lára segist fyrst og fremst hafa tekið þátt í Ungfrú Ísland til að leyfa fólki að kynnast sér.

„Ég tók þátt í Ungfrú Ísland því ég vildi að fólk vissi hver ég væri. Bæði kærastinn minn og besta vinkona eru nokkuð þekkt andlit hér á landi fyrir það sem þau eru að gera og mjög margir vissu hver ég væri vegna þeirra en ekki vegna þess hver ég er þannig að mig langaði rosalega að koma fram og segja: „Hér er ég, ég er Anna Lára og þetta er það sem ég er að gera,““ segir Anna Lára en hana dreymdi þó aldrei að taka þátt í fegurðarsamkeppni.

„Það var aldrei draumurinn og mér hefði aldrei dottið í hug að ég myndi taka þátt en þetta hefur verið alveg ótrúlega skemmtilegt.“

SH1610273015-4

SKEMMTILEG STELPA: Anna Lára vinnur í frístundamiðstöðinni Miðbergi og þar er nóg að gera. Hún elskar að vinna með krökkum og finnst frábært að geta hjálpað þeim að blómstra.

Ætlar alla leið

Anna Lára er mikil keppnismanneskja og ætlar ekki að mæta í Miss World bara til að vera með. „Fólk veit það ekki en þegar ég er þarna úti þá keppi ég í mörgum litlum keppnum og fæ stig fyrir hverja þeirra. Sú stúlka sem er stigahæst eftir þessar keppnir hreppir titilinn. Þarna eru alls konar keppnir, eins og til dæmis íþróttakeppni og fyrirsætukeppni. Ég mun þurfa að vera á tánum allan tímann því þarna er alltaf verið að fylgjast með,“ segir Anna Lára.

„Það er kannski skrítið að segja þetta en ég hugsa ekki út í það að ég sé einhver fegurðardrottning og sé að fara þarna út til að vera fallegust. Þetta er svo miklu meira en það og þarna er talað um „Beauty with a purpose“ eða fegurð með tilgang. Við munum til dæmis taka mikinn þátt í góðgerðarstarfi og það heillar mig mikið.

Það eru margir sem halda að við séum bara þarna að dilla okkur í bikiní en það er alls ekki það sem keppnin snýst um. Það er meira að segja búið að taka bikiníhlutann úr keppninni þannig að hún hefur mikið breyst.

Ég er mikil keppnismanneskja og ætla að gera mitt besta til að sigra keppnina. Eins og ég sagði áðan, er þetta stigakeppni og ef ég legg mig alla fram í keppnunum get ég unnið og það er markmiðið. Ég fer ekki þangað án þess að reyna við aðalverðlaunin. Ég ætla bara að gera mitt besta en hlakka einnig mikið til að upplifa þetta, kynnast nýju fólki og ég er ótrúlega þakklát fyrir að fá þetta tækifæri,“ segir Anna Lára en hreppi hún titilinn tekur við viðburðaríkt ár.

„Sú sem vinnur Miss World tekur ekki þátt í fleiri keppnum. Þetta er stærsta keppnin og sigurvegarinn heldur titlinum í ár og vinnur með keppninni. Það yrði auðvitað frábært og það væri nóg að gera, fullt af skemmtilegum verkefnum sem myndu bíða mín.

Ég hef verið að undirbúa mig andlega og líkamlega. Það er mikilvægt að hafa hausinn í lagi og ég hef til dæmis talað við Örnu Ýri, fyrrum Ungfrú Ísland, og hún hefur verið dugleg að hjálpa mér,“ segir Anna Lára.

SH1610273015-2

FEGURÐARDROTTNING: Anna Lára mun taka þátt í Miss World fyrir Íslands hönd en hún segist lítið pæla í því að hún sé fegurðardrottning. Miss World-keppnin snýst mikið um góðgerðarstörf og það heillar Önnu Láru.

Mikilvægt að velja rétt

Arna Ýr Jónsdóttir, Ungfrú Ísland 2015, lenti, eins og margir vita, í kröppum dansi í fegurðarsamkeppni sem haldin var í Las Vegas. Eigandi keppninnar kom þeim skilaboðum áleiðis til Örnu að hún væri of feit og þyrfti að grenna sig. Anna Lára segir sitt viðhorf til fegurðarsamkeppna ekki hafa breyst eftir þessa reynslu Örnu.

„Viðhorf mitt hefur ekkert breyst því ég held að maður þurfi bara að velja réttu keppnirnar. Þessi keppni sem hún tók þátt í er ný og það hefur engin stelpa frá Íslandi keppt í henni áður. Maður veit alveg af því að keppnirnar eru mismunandi en ég hélt þó að meira hefði breyst. Það er oft uppi orðrómur um að fegurðarsamkeppnir séu svona,“ segir Anna Lára en sú er þó ekki raunin í Ungfrú Ísland.

„Í Ungfrú Ísland var tekið fast á því að við myndum mæta til leiks eins og við erum og að okkur myndi líða vel. Það var aldrei pressað á mann að líta einhvern veginn út, það var enginn samningur um að maður þyrfti að vera ákveðið stór eða mjór.”

Pólska tengingin sterk

Móðir Önnu Láru er pólsk og Anna segir pólsku tengingina sterka og að hún sé stolt af upprunanum.

„Pólska tengingin hjá mér er mjög sterk og mamma hefur til dæmis verið mjög hörð á því að ég tali pólsku,“ segir Anna Lára en hún er kaþólsk og pólsku jólin hjá henni eru einstaklega skemmtileg.

„Það er hefð á jólunum að vera með þrettán rétti á borðinu. Það er alltaf mikill matur og við skiptumst á brauði sem á að tákna líkama Krists. Þetta er ótrúlega fallega skreytt brauð og allir brjóta einn bita af því, skiptast á bitum við sessunautinn og segja eitthvað fallegt við hann. Þetta er rosalega falleg og skemmtileg hefð.“

Anna Lára segir sigur sinn í keppninni hafa opnað fleiri dyr fyrir hálf-íslenskt fólk hér á landi.

„Ég er fyrsta hálf-íslenska stelpan sem vinnur Ungfrú Ísland og það hefur klárlega opnað dyr fyrir fleirum. Mér finnst það bara sýna líka að sú mýta um að það sé ekki hægt að taka þátt í svona keppnum nema maður sé alíslenskur sé röng. Það eru alveg ótrúlega margir hér á landi sem eru hálf eitthvað eða þá bara útlendingar sem hafa búið hér lengi, jafnvel allt sitt líf, og þetta sýnir að það skiptir engu máli. Það geta allir tekið þátt.“

SH1610273015-1

VILL STYRKJA UNGA KRAKKA: Anna Lára segist hafa verið lítil í sér og lokuð þegar hún var yngri og hafi alltaf verið að leita að einhvers konar styrkingarnámskeiði fyrir ungar stúlkur. Önnu dreymir um að vera með sín eigin námskeið og hjálpa ungum stúlkum og drengjum að brjótast út úr skelinni, auka sjálfstraustið og blómstra.

Vill styrkja unga krakka

Önnu Láru dreymir ekki um frægð og frama. Hún elskar að vinna með ungum krökkum og unglingum og vill hjálpa þeim að styrkja sjálfstraustið, opna sig meira og hafa meiri trú á sjálfum sér.

„Ég reyni að hafa raunsæja framtíðarsýn og sé fyrir mér að innan árs verði ég búin að stofna mitt eigið litla fyrirtæki utan um styrkingarnámskeið fyrir unga krakka,“ segir Anna Lára en hún hefði sjálf þurft á slíku að halda þegar hún var ung.

„Þegar ég var yngri var ég alltaf að leita að einhvers konar styrkingarnámskeiði því ég var eitthvað svo lítil og lokuð og átti bara erfitt. Það var Dale Carnegie-námskeið en ég vissi ekki af því og mér fannst vanta svona styrkingarnámskeið fyrir ungar stelpur. Ég vil vera með námskeið sem hjálpa ungum krökkum að styrkja sjálfstraustið sitt, hafa meiri trú á sjálfum sér og vera opnari fyrir nýjum tækifærum,“ segir Anna Lára sem hefur sjálf haldið svokallaða stelpuklúbba í félagsmiðstöðinni þar sem hún vinnur.

„Ég hef verið með stelpuklúbba og hef fundið svo mikið fyrir því hvað þetta gerir mikið fyrir stelpurnar og það er svo ótrúlega gefandi og gaman að sjá hvað þær blómstra mikið í þessum klúbbum. Ég elska að vinna með krökkum og mér finnst alveg frábært að ná að hjálpa þeim við að brjótast út úr skelinni.“

SH1610273015-5

TILBÚIN Í SLAGINN: Anna Lára hefur verið dugleg að rækta bæði líkama og sál fyrir komandi átök í Miss World enda löng og ströng keppni sem getur tekið á. Anna Lára á þó góða að og hefur fengið mikinn stuðning frá sínum nánustu ásamt því að geta leitað til Örnu Ýrar Jónsdóttur, Ungfrú Ísland 2015.

Séð og Heyrt fílar öflugar ungar konur.

 

Related Posts