VI1501268464-5

METNAÐARFULL: Hödd stofnaði nýverið almannatengslafyrirtækið KVIS með vinkonu sinni.

Hödd Vilhjálmsdóttir lögfræðingur, sem við þekkjum úr fréttunum á Stöð 2, stofnaði nýverið almannatengslafyrirtækið KVIS með vinkonu sinni. Við fengum Hödd til að pjattast með okkur þessa vikuna og mæla með snyrtivörunum sem virka fyrir hana.

Hver er fyrsta snyrtivaran sem þú manst eftir að hafa keypt?

Ætli það hafi ekki verið kremið frá Clarins sem hafði það hlutverk að gera brjóstin stinnari. Mögulega dúndurkaup ef brjóstin hefðu verið mætt á kassann á mér en ég bar kremið þó samviskusamlega á það sem koma skyldi. Í sömu búðarferð bað ég líka afgreiðslukonuna um krem fyrir gæsahúð. Hafði þá séð auglýsingu fyrir krem sem átti að láta appelsínuhúð hverfa og meiningin var að biðja um það. Húð mín hafði þó ekki kynnst appelsínuhúð á þessum tíma né þjáðist ég af mikilli gæsahúð.

Hvaða snyrtivöru keyptirðu þér síðast? Hvernig líkar þér?

Á síðasta snyrtivöruflippi keypti ég meðal annars O-GLOSS frá Smashbox, sem er glært í túbunni en gerir varirnar fallega bleikar. Get ekki útskýrt efnafræðina á bak við þá snilld en hún virkar og ég er alveg ljómandi kát með kaupin.

Hvaða snyrtivara er á óskalistanum?

La Mer-krem. Mikið held ég að það myndi sóma sér vel á andlitinu á mér.

Hvaða fimm snyrtivara gætirðu ekki verið án?

Ég myndi að öllum líkindum lifa ágætislífi án allra snyrtivaranna minna en Hypnose Star-VI1501268464-4maskarinn frá Lancôme, Trilliance sjampóið og næringin frá Sebastian, Bobbi Brown augnahárabrettarinn og Luxe-hárolían frá Wella gera mig öllu boðlegri.

Hvaða margumtalaða snyrtivara stendur undir væntingum?

Clarisonic-hreinsiburstinn er alveg frábær. Ég fékk Plus-tækið um jólin og húðin á mér er svo sannarlega betri fyrir vikið. Fyrir utan betri húð er líka bara svo notalegt að bursta sig með tækinu.

Hvaða snyrtivöru kaupirðu alltaf þegar þú ert í útlöndum?

Rosebud Perfume Co.-varasalvana. Mér þykir ósköp vænt um allar dollurnar mínar og maka varasalva full oft á lúðurinn.VI1501268464-3

Hvaða leyndu snyrtivöruperlu er hægt að finna úti í stórmarkaði?

Lyktarlaus kókosolía er í uppáhaldi. Ég nota hana á líkamann og skelli líka í mig einni matskeið á dag.

Hver er þín helsta fegurðarfyrirmynd?

Mér finnst fyrirsætan Chrissy Teigen alveg löðrandi í sjarma. Heilbrigðið og gleðin skín af henni og einna fallegast er að hún tekur sig ekki of hátíðlega. Svo virðist hún líka borða vel sem ég tel mjög gott fyrir útlitið og geðheilsuna.

Hver eru þín stærstu fegurðar/förðunarmistök?

Öll þau skipti sem ég hef hlammað mér í stólinn hjá mömmu minni á Hár Class og heimtað að hún klippti á mig topp. Þau atriði hafa alltað endað eins, ég grenjandi í stólnum. Kona með mjög þykkt og liðað hár, sem á góðum degi nennir einungis að snöggblása á sér hárið, er ekki góður kandídat fyrir topp. Aldrei aftur.

Hvað ertu ánægðust með í eigin útliti?VI1501268464-2

Að ég er enn þá fulltennt, með hár á höfðinu og í þokkalega ásættanlegum hlutföllum.

Hver er besta ráðleggingin sem þú hefur fengið varðandi hár og förðun eða húðumhirðu?

Að fara aldrei í rúmið (til að sofa) með málningu á andlitinu. Því hlýði ég.

Hvert er nafnið á uppáhaldsvaralitnum þínum?

Ég er afar sjaldan með varalit en nota varagloss mikið. Ég á þó eitt stykki Rouge Zinnia frá Christian Dior og smyr honum á stútinn þegar mikið liggur við.

Hver er besta ilmvatnslykt sem þú hefur fundið?

Fresh-ilmvötnin mín sem ég er búin að nota í mörg, mörg ár. Er með nokkrar týpur af þeim í gangi og er farin að sprauta tveimur á mig í einu og tel þá sjálfri mér trú um að ég sé nú aldeilis að breyta til.

Hvaða vörur notarðu á húðina og hvað finnst þér hafa gert gæfumuninn?VI1501268464-1

Clarisonic-hreinsiburstann og Gentle Hydro-hreinsimjólkina frá sama merki. Svo er ég núna að nota kremin frá Skyn Iceland en þau virðast henta minni húð mjög vel og get ég til dæmis ekki dásamað Pure Cloud-dagkremið og Arctic Elixir nóg.

Skærar varir eða smokey?

Smokey-augnmálning er meira ég og ég er einmitt búin að vera að prófa mig áfram í þeim efnum með Punk Couture-pallettunni frá MAC.

Áttu þér uppáhaldsaugnskuggapallettu?

Warm Neutral-pallettan frá MAC er að gera virkilega gott mót hjá mér þessa dagana. Í henni eru fimmtán fallegir litir þannig að ég hef úr miklu að moða.

Áttu uppáhaldsvefsíðu tengda förðun og tísku?

Ég get hangið inni á Bobbi Brown-síðunni tímunum saman og líður á meðan eins og ég sé að gera eitthvað stórkostlega merkilegt.

Áttu einhver góð förðunarráð í lokin?

Að setja hvítan augnblýant á rauða svæðið hjá neðri augnhárunum en það hressir upp á útlitið á núll einni. Meiri visku á ég bara ekki til í þessum efnum.

Umsjón: Helga Kristjáns
Myndir: Aldís Pálsdóttir

 

Related Posts