Hún sat tíguleg við morgunverðarborð í slopp, afslöppuð í risastórum sal sem á kóngamáli heitir herbergi.

Vigdís Finnbogadóttir í sinni fyrstu opinberu heimsókn, sem forseti, til Danmerkur haustið 1980 og að sjálfsögðu bjó hún í Amalíuborgarhöll í hjarta Kaupmannahafnar.

Tveir íslenskir fjölmiðlamenn, annar fréttamaður, búsettur í borginni, hinn ljósmyndari sem flogið hafði yfir hafið til að mynda, höfðu fengið leyfi til að heimsækja forsetann í konungshöllina og var vísað til aðseturs hennar á efri hæð af prúðbúnum þjóni. Gott ef Vigdís var ekki reykjandi með morgunkaffinu þegar þeir gengu í salinn en reykingar þóttu þá sjálfsagðar og þá sérstaklega í konungshöllinni því Margrét Danadrottning keðjureykti þá og gerir enn.

„Mér finnst gott að sjá ykkur í þessu ferðalagi. Það veitir mér öryggi, ég er dálítið ein,“ sagði Vigdís við fréttamennina tvo sem fylgt höfðu henni hvert fótmál í ferðinni.

Þá kom þjónninn og bauð upp á kaffi og sætabrauð sem fréttamennirnir afþökkuðu, enda nýbúnir að deila pizzu úti á Amager. Þá kom þjónninn með bjór sem einnig var kurteislega afþakkaður, þá kom hann með viskí og loks með banana sem ljósmyndarinn þáði til að fá frið.

Forsetaspjallið í konungshöllinni var vinsamlegt og frjálslegt og sjálfri þótti Vigdísi jafnmikið koma til glæsileikans þarna inni og fjölmiðlamönnunum. Þó var eitt sem henni þótti undarlegt. Stóra rúmið sem hún svaf í, einskonar lokrekkja, var gamalt, svo mjög að í stað fjórða rúmfótar var ölkassi frá Tuborg sem hélt öllu uppi.

„Það er víst verið að spara hér, eins og annars staðar,“ sagði Vigdís og brosti þessu einstaka brosi sem á næstu árum átti eftir að bræða þjóðarleiðtoga víða um heim.

Svo voru reyktar nokkrar sígarettur til viðbótar áður en prúðbúni þjónninn kom aftur og vísað gestunum

eir’kur j—nsson

út á torgið sem þökkuðu pent fyrir sig.

Það eru svona augnablik sem gera lífið skemmtilegra – eins og Séð og Heyrt í hverri viku.

Eiríkur Jónsson

Related Posts