Guðmundur H. Garðarsson (87) og Bryndís Jónsdóttur (79) kynntust óvart upp á nýtt í Nóatúni:

Guðmundur H. Garðarsson, fyrrverandi alþingismaður, naut lífsins með Bryndísi Jónsdóttur á sýningu Nínu Tryggvadóttur í Listasafni Íslands.

Sæl saman „Ég missti konuna mína fyrir sjö árum eftir gott hjónaband og lokaði mig af eftir það, ef það má orða það þannig. Ég hætti að mæta á fundi í flokknum og skrifaði engar blaðagreinar,“ segir Guðmundur H. Garðarsson, fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, sem ef til vill er þekktastur fyrir að hafa lagt fram frumvarp um frjálsa fjölmiðlun á Íslandi.

Lítið hefur borið á Guðmundi í opinberu lífi síðustu ár en hann var hamingjusamlega kvæntur Ragnheiði Guðrúnu Ásgeirsdóttur í meira en hálfa öld uns hún lést árið 2008. Guðmundur var þá 79 ára að aldri og átti ekki von á að hann ætti eftir að rugla saman reytum við aðra konu í lífinu.

Rekkinn í Nóatúni

„Svo ég segi söguna eins og hún er þá versla ég stundum í Nóatúni,“ segir hann, þegar hann er spurður hvernig fundum hans og Bryndísar hafi borið saman. „Það er síðan fyrir ári sem ég var að versla og er litið yfir einn rekkann og sé þá konu sem er að tína eitthvað til í körfuna sína. Hún segir við mig „Ert þetta þú, Guðmundur?“ og ég játaði því. Ég gekk síðan kurteislega til hennar og gerði mér þá grein fyrir að þetta var stúlka sem hafði unnið á símanum í Alþingi í gamla daga. Hún hafði misst manninn sinn fyrir fjórum árum og við fórum að spjalla saman en ég hafði þekkt manninn hennar í gamla daga, og hana úr fjarlægð.“

Sendi frumsamið ljóð

Guðmundur heillaðist strax af Bryndísi og hringdi í hana daginn eftir og spurði hvort hann mætti senda henni smáljóð sem hann hefði samið til hennar. „Í framhaldinu fór ég að hringja í hana og svo bauð hún mér í Borgarleikhúsið að sjá leikritið Beint í æð því bróðir hennar sem ætlaði með henni forfallaðist. Ég var hikandi við að þekkjast boðið en fór og leikritið var sprenghlægilegt. Síðan höfum þekkst sem vinir og erum mikið saman. Bryndís er sérstaklega góð kona og einstaklega væn manneskja. Við förum talsvert í leikhús og á listsýningar en mér finnst líka gaman að mála sjálfum.“
Eruð þið ástfangin?
„Við gætum verið það en mér finnst ekki rétt að setja það í blaðið,“ segir Guðmundur, sem ljómaði af lífsgleði í Listasafni Íslands líkt og Bryndís, vinkona hans.

Guðmundur Garðarsson

STÓRGLÆSILEG: Guðmundur H. Garðarsson og Bryndís Jónsdóttir eru stórglæsileg saman og lífsgleðin skein af þeim á opnuninni í Listasafni Íslands.

Related Posts