Forræktun sumarblóma:

Veturinn er alls ekki dauður tími hjá áhugafólki um garðrækt. Á haustin fara niður laukar og í janúar hefst forræktun sumarblóma og fleiri jurta sem ætlunin er að sá úti í garðinn þegar vorar. Þótt nú sé komið fram í mars er alls ekki of seint að byrja því fljótsprottnari tegundir verða búnar að ná fullum vexti í vor.

Það sem þarf til eru sáningarbakkar eða grunnir blómapottar, góð mold, plastfilma og volgur staður, ekki of heitur, þar sem birtu nýtur. Margir velja bílskúrsgluggann eða garðskálann ef hann er til staðar en margar tegundir má líka forrækta í eldhúsglugganum.VI-dreamstime_xl_49632421

1. Byrjið á því að þrífa pottana eða sáningarbakkana ef þeir hafa verið notaðir áður. Nýja þarf ekki að þrífa. Flest sumarblóm þurfa 4-8 vikna forræktun fyrir útplöntun. Fræin geymast í þrjú til fimm ár ef pokarnir eru geymdir á köldum dimmum stað. Það er ágætt að geyma þá í ísskáp eða í köldum bílskúr. Best er að kaupa sáðmold. Hún á að vera laus við alla sjúkdóma og sníkjudýr og í henni er ekki mikill áburður en það þarf að fara varlega við áburðargjöf meðan jurtirnar eru að ná vexti.

2. Þegar sáningarílátið er tilbúið er moldin sett í það, þjappað létt og vökvað efst í moldina. Fræjunum er stráð yfir og passið að þau lendi ekki of þétt saman. Ef um stærri fræ er að ræða er gott að gera grunna holu, koma fræinu fyrir í henni og setja síðan mold yfir.

3. Fræin spíra best við um það bil 18-23°C. Ef verið er rækta í eldhúsinu er því ágætt að gæta þess að þau séu ekki beint yfir heitum ofni. Flest fræ þurfa ekki birtu meðan þau eru að spíra en ef bakkinn stendur á björtum stað má leggja pappírsblað eða þunna tusku yfir hann.

4. Fræ þurfa jafnan raka og mega alls ekki þorna alveg. Þess vegna er gott að strengja plastfilmu yfir ílátið og spreyja með ylvolgu vatni yfir moldina til að halda henni rakri. SumarblómÞað má alls ekki rennbleyta hana. En munið að lyfta plastinu öðru hverju til að hreint loft komist að bakkanum.

5. Þegar fræin hafa náð að spíra og litlir angar komnir upp úr moldinni hefst hið eiginlega plöntuuppeldi. Þá þurfa jurtirnar góða birtu og gott að stilla þeim út í glugga eða hvar sem dagsbirtu nýtur. Það er ekki gott að sól skíni á þær því þetta eru viðkvæmir angar og sólarljósið getur brennt þá. Nú má hitastigið einnig vera heldur lægra en meðan á spíruninni stendur og ágætt að það fari ekki yfir 18°C. Gott er að vökva oft en ekki mikið í einu. Spreykanna dugar hér ágætlega og gott að úða yfir bakkann annan hvern dag.

6. Leyfið litlu plöntunum að ná svolítilli hæð. Þegar hver þeirra hefur fengið þrjú til fjögur laufblöð er gott að planta þeim út í hólfaða bakka eða potta. Nú má nota úrvalsgróðurmold með áburði í. Þetta kallast priklun og við þessa vinnu er gott að nota priklpinna eða blýant. Pinnanum er stungið niður með litlu plöntunni, ýtt varlega undir rótina og plantan þannig losuð frá hinum. Honum er svo stungið í hólfið eða pottinn, plantan sett þar niður, mold þrýst að henni og vökvað örlítið yfir. Ágætt er að miða við að plantan hafi vaxtarrými þannig að um það bil 2-2,5 cm séu frá henni út að brún pottsins, á alla vegu.

7. Í vor þegar tekur að hlýna og birta er gott að flytja plönturnar á svalari stað til að venja þær við áður en þeim er plantað út. Ef fólk á garðskála eða kaldan bjartan bílskúr hentar það ágætlega eða einfaldlega setja þær út á daginn en taka þær inn um nætur því lengi má eiga von á næturfrosti á Íslandi. Plönturnar eru hertar með þessu móti og búnar undir veruna utandyra í um það bil 10 daga.Sumarblóm

8. Um miðjan maí má fara að huga að útplöntun. Það fer þó alfarið eftir veðri og hitastigi. Ef enn er kalt má breiða akrýldúk yfir beðin eða kerin. Eftir útplöntun þarf að vökva daglega í nokkra daga og gott að muna að rennbleyta ekki plönturnar, betra að halda góðum raka og jöfnum. Eftir útplöntun er einnig óhætt að gefa áburð því það hraðar vexti og gefur plöntunni aukna grósku.

Sumarblóm eru einærar plöntur, flestar ákaflega litríkar og blómfallegar. Þær blómstra yfirleitt allt sumarið og njóta sín vel á sólríkum stöðum í garðinum. Af þeim er mikið skraut á svölum og við inngang húsa. Sumarblómafræ fást í öllum blómabúðum og í flestum tilfellum eru góðar leiðbeiningar á pökkunum um hvernig best er að rækta upp af þeim. En auk sumarblóma má forrækta í eldhúsglugganum kryddjurtir og salat og planta út í beð þegar hlýna tekur í veðri. Sú aðferð sem að ofan er lýst nýtist vel við slíka ræktun líka en upplýsingar um ræktunartíma og hvenær best er að byrja að sá slíkum jurtum er að finna á fræpökkunum.

Texti: Steingerður Steinarsdóttir

Related Posts