Baðvigt, notaður kaffibrúsi og innistæðulaus ávísun:

Þegar boðið er til brúðkaups þykir sjálfsagt að færa hinum nýgiftu gjöf. Pyngjan leyfir ekki alltaf dýrar gjafir en sumir sýna reyndar hvers vegna þeir eru ríkir með því að gefa nískulegustu gjafirnar. Svo eru líka til þeir sem reyna að vera fyndnir í gjafavali og enn aðrir sem eiga ekki til snefil af smekkvísi. Hér má lesa nokkrar sögur af brúðkaupsgjöfum.

Vera Wang

FALLEG: Mynd af brúði í Veru Wang er ekki vinsæl gjöf.

 

Mynd af brúði í Veru Wang-kjól:

„Foreldar mínir keyptu og gáfu mér brúðarkjólinn minn með góðum fyrirvara, glæsilegan Veru Wang-kjól. Með honum fylgdu peningar og svohljóðandi kort:

Elsku Katie. Þú ert falleg núna. Við vitum að þú verður falleg brúður. Til að tryggja fjárfestingu okkar í kjólnum viljum við biðja þig um að kaupa baðvog að eigin vali fyrir peningana og vigta þig vikulega. Við elskum þig og viljum að þú njótir stóra dagsins. Þessi gjöf gæti forðað þér frá streitu.

Mamma og pabbi“

 

„Vinur okkar sagði okkur í brúðkaupinu að hann hefði gleymt að merkja gjöfina en hún væri „öðruvísi“ og þannig gætum við þekkt hana. Hann gaf okkur ósútað úlfsskinn. Við vorum orðlaus af undrun. Hvað áttum við að gera við þetta? Maðurinn minn er reyndar mjög hrifinn af því og vildi halda því, hann fær að hafa það á skrifstofunni.“

 

„Ég var gestur í brúðkaupi þar sem hjónin fengu kassa með grjóti að gjöf. Þau voru ringluð og hissa þar til kom í ljós að grjótið var tákn um sérdeilis veglega gjöf. Í kortinu sem brúðhjónunum yfirsást, enda neðst í kassanum, kom fram að kassinn hefði ekki rúmað 10 tonn af grjóti … þau tonn kæmu síðar, til að nota í innkeyrsluna að húsi þeirra.“

 

„Við giftum okkur 10.10.10. Ein af frænkum mannsins míns færði okkur tíu hvíta plastpoka með ýmsum varningi í. Það var sætt af henni að taka þátt í 10.10.10-þemanu okkar en þessir pokar litu út eins og ruslapokar á gjafaborðinu rétt hjá brúðartertunni. Ekki kannski það allra smartasta. Megnið af innihaldi pokanna var matarkyns og kom sér vel.“

 

„Ég gaf eflaust verstu gjöfina eitt árið. Á þessum tíma átti ég varla fyrir mat og keypti fjögur ódýr glös sem ég mætti með í fokdýru og flottu veisluna. Ég efast um að brúðguminn hafi vitað hversu blönk ég var og ég hafði aldrei kynnst brúðinni svo ég fór eflaust á listann sem nískasti gesturinn.“

 

„Yndisleg eldri kona úr söfnuðinum okkar föndrar mikið og endurskapar ýmsa viðburði úr föndrinu sínu, m.a. úr Biblíunni. Hún gaf okkur hjónunum Jesúbarnið í jötunni, Maríu og Jósep, já, og líka úlfalda sem hún hafði föndrað úr skrúbbum. Það er kannski óþarfi að taka það fram en við vorum orðlaus …“

 

„Við hjónin erum trúlaus. Kaþólskir ættingjar mínir gáfu okkur risastóran járnkross sem hafði það hlutverk að halda matreiðslubókum opnum. Ættingjarnir höfðu röflað stöðugt í okkur fyrir að giftast ekki í kirkju svo þetta var líklega þeirra leið til að koma einhverjum boðskap á framfæri.“

 

„Við fengum innrömmuð biblíukvót frá einni frænku minni sem er ekki vitund trúuð frekar en við. Hún þekkir okkur ekkert og hefur lítið gert til að kynnast okkur en sagði samt við aðra gesti að hún væri mjög náin okkur.“

Verstu brúðargjafirnar

UPPÞORNAÐ KAFFI: Notaður kaffibrúsi er ekki góð gjöf

 

 

„Ríki frændi mannsins míns gaf okkur notaðan kaffibrúsa og gult baðhandklæði. Hann gaf mági mínum og konu hans það sama í brúðkaupsgjöf hálfu ári seinna. Við héldum jafnvel að eitthvað leyndist í brúsanum svo við tókum hann í sundur. Þannig komumst við að því að ekkert leyndist í honum nema uppþornaðar kaffileifar.“

 

„Þegar ég gifti mig fyrir um 15 árum var algengt, og er kannski enn, að gera óskalista og hafa hann í einhverri verslun. Okkur langaði í matar- og bollastell úr ákveðinni búð og gestir okkar gátu keypt inn í stellið því verslunin merkti við það sem búið var að kaupa. Forrík frænka mín fór í þessa verslun og keypti það langódýrasta af listanum; salt- og piparstauka.“

 

„Versta gjöfin sem við fengum var eins konar rómantískt sett sem við áttuðum okkur á að hafði verið gefið áfram. Settið samanstóð af 20 ára gamalli flösku af kampavíni, ísfötu úr plasti, kertastjökum og tveimur brotnum kertum, einnig fylgdu eldspýtur og tvö kampavínsglös. Kampavínið var flatt og bragðvont og þetta endaði allt saman í ruslinu.“

 

„Ættingi minn færði okkur hitaeinangrandi plast-matarfat með loki. Í fatinu leyndist jólaskraut, meira jólaskraut og jólakort skrifað til ættingjans. Við flissum enn að þessu.“

 

„Mágkona mín keypti stóra og glæsilega púnsskál úr kristal handa okkur. Nema …  hún skipti á þeirri upphaflegu og sinni eigin notuðu plastskál og gaf okkur í staðinn. Það mátti sjá uppþornaðar leifar af púnsi á botninum. Fínasta skál reyndar.“

 

„Versta gjöfin? Líklega skeiðin sem kostaði í kringum 300 krónur á þeim tíma og var gjöf frá forríkum ættingja mínum. Okkur tókst að skila skeiðinni og fá innleggsnótu, við gátum ekki hugsað okkur að halda henni.“

 

„Við fengum innistæðulausa ávísun frá mági mínum og þurftum svo að borga bankakostnaðinn vegna hennar.“

Verstu brúðargjafirnar

FYNDIÐ: Bók um skilnað er ekki góð brúðargjöf.

 

„Föðurbróðir minn gaf okkur bók um hvernig ætti að takast á við skilnað. Engum fannst þetta fyndið nema honum.“

 

„Vinur okkar gaf okkur 100 dollara – í smámynt.“

 

„Vinur minn færði konunni minni sérstaka brúðargjöf; handjárn og lítinn víbrator í kassa sem á stóð Notist í neyð. Honum fannst þetta brjálæðislega fyndið en konunni minni hefur ekki liðið vel í návist hans síðan.“

 

 

„Við urðum vægast sagt undrandi þegar frænka konunnar minnar, eldri kona, gaf okkur tvö kampavínsglös, sérstök brúðhjónaglös, til að nota í veislunni. Þegar við undirbjuggum brúðkaupið keyptum við að sjálfsögðu slík glös svo gjöfin var algjörlega ónothæf. Mig langaði að taka gyðingasiðinn á þetta; brjóta glösin og stappa á þeim, en konan mín var ekki til í það.“

 

„Vinur konunnar minnar færði okkur öskubakka í brúðkaupsgjöf. Hvorugt okkar hefur nokkurn tíma reykt.“

 

„Ég sá tvo innkaupapoka merkta matvöruverslun, úttroðna af fötum, á gjafaborði í brúðkaupsveislu sem ég fór í. Seinna frétti ég að þetta hefðu verið notuð barnaföt því gefandinn hafði heyrt að brúðurin væri ófrísk. Röng brúður, önnur vinkona var ólétt.“

 

„Ég valdi sem brúðargjöf fyrir bróður mannsins míns og konuna hans bók sem fjallar um að meira en bara ást þurfi til að halda saman hjónabandi. Mér finnst þetta dásamleg bók og hef lært heilmikið af henni.Miðað við framkomu mágs míns við mig held ég að bókin hafi ekki fallið í góðan jarðveg.“

 

„Við fengum rafmagnssteikarhníf sem vantaði rafmagnsklóna á.“

 

„Við hjónin fengum heklað hulstur undir klósettpappírsrúllu. Það var einhverra hluta vegna brúnt á litinn og sá sem heklaði það ákvað að skreyta það með skyggni, eins og á derhúfu. Maðurinn minn hélt fyrst að þetta væri húfa og setti það á höfuðið á sér. Við grétum úr hlátri yfir þessari gjöf.“

Related Posts