Þegar sumar gengur í garð léttist brún. Eins og langþráðu takmarki sé náð sem allir vissu þó fyrir að myndi verða.

Stóra veðurspáin er þó ekki góð. Fyrrum veðurstofustjóri, sem veit hvernig vindarnir blása, spáir 30 ára kuldaskeiði og fer þá um miðaldra fólk sem sér ekki fram á góða tíð fyrir dauðann.

Annars er sumarið ekki annað en hugtak um árstíma sem getur tekið á sig ýmsar myndir. Steikjandi sumarsól í Nauthólsvík um miðjan júlí þarf ekki að vera betri en nístandi frost í logni undir stjörnubjörtum himni á hvítri fönn sem brestur undan fótum með tónspili sem hvergi heyrist annars staðar.

Gott veður er hugarástand; hitamælirinn á sundlaugarbakkanum er merkingarlaus ef kuldi er í sálinni.

Allir kannast við minningar um að alltaf hafi verið gott veður í æsku og ástæðan er einföld. Þegar fólk er tíu ára er alltaf gott veður því hugur tíu ára barna er hreinn og tær, óspilltur, ómengaður af reynslu sem óhjákvæmilega setur mark sitt síðar.

Samt er full ástæða til að fagna sumrinu ár hvert. Mannlífið tekur á sig aðra mynd þegar krakkarnir þurfa ekki lengur að mæta í skóla og foreldrarnir fá sumarfrí og fara jafnvel í ferðalag.

Svo kemur haustið með sínum fögru litum og þá kætist mannfólkið á ný og býr sig undir enn einn veturinn með tilhlökkun því svo eiríkur jónssonkemur lóan að kveða burt snjóinn og kveða burt leiðindin því það getur hún.

Lífið er skemmtilegt; sumar, vetur, vor og haust.

Sem betur fer.

Eiríkur Jónsson

Related Posts