SH-1438-85-20887-200x300Haft er eftir þeim ágæta manni, Oscar Wilde, að tískan sé svo skelfilegt fyrirbæri að nauðsynlegt sé að breyta henni á sex mánaða fresti. Mikið til í þessu og það er endalaus höfuðverkur að tolla í tískunni. Sjálfsagt kannast allir við það að hafa séð 10-20 ára gamla ljósmynd af sér og að hafa fengið flog yfir þeirri hryggðarmynd sem þar blasti við. Þau eru skelfileg tískuslysin.

Fólk af minni kynslóð þekkir þetta vel enda erum við illa brennd af því að hafa verið unglingar á því annars dásamlega tímabili sem kennt er við „eitís“. Þær eru til dæmis ófáar fermingarmyndirnar frá þeim tíma sem hefur verið fargað eða verið látnar hverfa vandlega. Tónlistin var góð en við vorum öll eins og fífl. Líka fyrirmyndirnar og átrúnaðargoðin.

Einhverra hluta vegna virðist tískan almennt valda konum meiri vandræðum og heilabrotum en körlum. Kannski vegna þess að karlar eru einfaldar skepnur, umhverfisblindir, smekklausir og hafa þannig komist upp með einfaldar lausnir. Jakkaföt eru samt líka háð straumum og stefnum og verða með tímanum hallærisleg og ljót.

Lausnin á okkar vandræðum eru þó, eins og við, einföld. Með því að ganga alltaf og eingöngu í gallabuxum, svartri skyrtu, með tvær efstu tölur fráhnepptar, og svörtum leðurjakka förum við aldrei úr tísku. Svart leður blífur og þolir allt. Maður getur meira að segja dottið af mótorhjóli á ferð án þess að fá skrámu. Ef maður er í almennilegum tudda. Marlon Brando var fáránlega töff upp úr 1950 í hinum sígilda „biker“-leddara og myndir af honum í múnderingunni í The Wild One eru sko engar fermingarmyndir. Jafnsvalar í dag.

Þegar við viljum vera virkilega fínir kemur ekkert til greina anað en kjólföt. Þau eru sígild, alltaf eins og standast allar sveiflur. Smókingar geta verið skelfilega ljótir enda ganga smekklausar Hollywood-stjörnur í þannig fötum á Óskarnum á meðan konungbornir menn láta ekki sjá sig í öðru en kjól og hvítu.

Einfaldara verður þetta ekki. Leður á mánudögum, kjólföt á gamlárskvöld!

 

Þórarinn Þórarinsson

Related Posts