Þórunn Högna (45) eignaðist dóttur komin á fimmtugsaldur:

Fagurkerann Þórunni Högna tengja flestir við falleg heimili, tísku og förðun, enda hefur atvinna hennar og áhugi legið á því sviði síðan hún var unglingur. Hún varð ung móðir í fyrsta sinn og eignaðist frumburð sinn 17 ára gömul. Seinna bættu hún og eiginmaður hennar, Brandur Gunnarsson, tveimur börnum í hópinn og þrátt fyrir að hafa rætt frekari barneignir fyrir nokkrum árum gerðist ekkert og var Þórunn næst farin að bíða eftir ömmubörnum. Lífið kom henni og fjölskyldu hennar þó skemmtilega á óvart í fyrra þegar Þórunn eignaðist sitt fjórða barn, orðin 44 ára gömul.

Yndisleg „Mér finnst þetta bara dásamlegt. Ég var orðin sátt við mitt og börnin orðin stór. Þetta var eiginlega það síðasta sem mér datt í hug og ég fékk eiginlega pínulítið áfall,“ segir Þórunn um fyrstu viðbrögð hennar þegar hún vissi að hún var orðin ófrísk enn á ný. „Ég var búin að vera í einkaþjálfun í langan tíma, búin að æfa eins og brjálæðingur og ég hélt ég væri bara búin að æfa of mikið af því að allt í einu fór mér að líða svo furðulega.“ Þórunn velti því þó fyrir sér hvort það gæti verið að hún væri ófrísk og tók þungunarpróf sem var neikvætt og hugsaði hjúkk.

Beið eftir ömmubörnum frekar en sínu eigin
Vanlíðan Þórunnar hélt þó áfram og lagði einkaþjálfarinn eindregið til að Þórunn léti skoða sig. Hún ákvað að taka annað þungunarpróf og í þetta sinn var það jákvætt. „Ég hugsaði bara guð minn almáttugur og það næsta sem ég gerði var að hringja í manninn minn.

„Guð, en dásamlegt“, voru viðbrögð mannsins míns og ég sagði bara ertu að grínast? er þetta dásamlegt?“ segir Þórunn. „Af því að mér leið svo illa, ég var bara fárveik.“ En ljóst var að lítil stúlka var á leið í heiminn. Þórunn var veik alla meðgönguna og segir að hún hafi verið fegin að hafa unnið heima. „Ég hefði ekki getað verið í vinnu, það hefði bara verið búið að reka mig, það var alltaf eitthvað að hrjá mig.“ Hún vissi allan tímann að hún væri með stelpu af því að henni leið eins á meðgöngunni og með eldri dótturina.

Þórunn og eiginmaður hennar, Brandur Gunnarsson, áttu saman tvö börn, soninn Tristan Þór, sem er 18 ára í dag, og dótturina Birgittu Líf, sem er 16 ára. Fyrir átti Þórunn soninn Aron Högna, sem er 27 ára.

Eldri systkinin voru sátt við að lítið systkini væri á leiðinni. „Birgitta var löngu búin að suða um systkini þannig að hún var rosalega ánægð og bræðurnir sögðu bara já!,“ segir Þórunn, sem var löngu farin að spyrja eldri son sinn um ömmubörn og hvenær væri von á þeim. „Það skemmtilega er svo að ég er að verða amma, þau eru að koma með barn núna í desember,“ segir Þórunn og brosir.

14424959_10154261839424584_2268649239371413164_o

MEÐ EIGINMANNINUM OG ÖRVERPINU Eiginmaður Þórunnar, Brandur Gunnarsson, er löggiltur fasteignasali og hefur unnið við fasteignasölu í rúman áratug og starfar í dag á fasteignasölunni Borg og er einn af eigendum hennar. Brandur er lærður ljósmyndari og hefur því gott auga fyrir hlutunum og deilir líka áhuganum á fallegum heimilum og hönnun með Þórunni og ber heimili þeirra í Fossvoginum því gott vitni. Nóg er að gera í fasteignabransanum og segir Þórunn að hann þurfi til útlanda ef að hann ætli að taka sér frí.

Hún átti bara að koma
„Mér finnst þetta æðislegt í dag,“ segir Þórunn, „hún Leah Mist er bara svo dásamleg. Hún átti bara að koma, þetta var eitthvað sem átti að gerast.“ Fyrir fimm, sex árum síðan ræddu þau hjónin frekari barneignir en þá gerðist ekkert. „Ég vil meina að það að ég fór í einkaþjálfun og tók mataræði í gegn hafi haft þau áhrif að þetta gerðist. Allt fer á fullt í líkamanum, hormónin breytast og þess vegna hefur Leah Mist komið. Ég var þyngri fyrir einhverjum árum og hugsaði ekki eins vel um mig og ég geri í dag,“ segir Þórunn.

Leah Mist er fædd lítil og var Þórunn með litla kúlu og sást varla á henni að hún væri ófrísk. „Mér fannst frábært hvað mæðraverndin hugsaði vel um mig. Ég fór fimm eða sex sinnum í vaxtarsónar og fór í allar mælingar og próf sem boðið var upp á, allt kom vel út, en maður er kominn í ákveðinn áhættuhóp eftir 35 ára aldurinn. Ég var með hana á fæðingardeildinni í þrjá sólarhringa af því að hún var fædd svo lítil og blóðþrýstingurinn hjá mér var í hærra lagi. Það var stundum sagt við mig: „Þú ert náttúrlega orðin þetta gömul“,“ segir Þórunn, „og ég finn alveg að líkaminn er ekki eins og þegar ég var 18 ára.“

14361190_10154261839334584_6341225369474613010_o

LEAH MIST ER LÍTILL GORMUR EN OFBOÐSLEGA GÓÐ „Hún er bara lítill gormur en ofboðslega góð,“, segir Þórunn og hossar litlu Leuh Mist. „Ég segi bara við alla sem eru í sömu hugleiðingum í dag: „Go for it!“ Við erum löngu hætt að vera að tjútta allar nætur og finnst æðislegt að vakna með henni á morgnana og hún er ekkert að stoppa okkur í neinu sem við gerum, við erum til dæmis búin að fara tvisvar með hana til útlanda, hún er bara svo þægileg.“

Áhuginn og atvinnan hefur alltaf tengst því að hafa fallegt í kringum sig
Þórunn byrjaði í sjónvarpsþáttunum Innlit-útlit 2003 en upphafið má rekja til þess að Vala Matt heimsótti Þórunni. „Við smullum bara saman,“ segir Þórunn. Vala hafði svo samband stuttu seinna og bauð Þórunni að verða aðstoðarþáttastjórnandi. „Henni fannst ég koma vel út í sjónvarpi, vera brosmild og æi, hún er bara svo yndisleg.“ Á þeim tíma var Þórunn að vinna við útstillingar hjá Svövu í 17 og gat sameinað þessi tvö störf.

Þórunn var byrjuð að sminka þegar hún var í Réttarholtsskóla, vann í snyrtivörudeildinni í Hagkaup sem unglingur, 19 ára fór hún til Parísar að læra förðun og þegar hún kom heim byrjaði hún að vinna hjá Svövu. Síðan byrjaði hún með förðunarskóla, opnaði verslun og flutti inn eigin merki. „Ég held ég hafi bara farðað yfir mig,“ segir Þórunn aðspurð hvort hún sé að farða í dag. „Ég var úti um allt á sínum tíma, var í Ungfrú Ísland keppnunum, öllum myndböndum og það var bara brjálað að gera hjá mér.“

Þórunn hefur verið að dúlla sér við að raða og stilla upp hlutum og gera fallegt í kringum sig frá því að hún var barn. „Ég er alveg svakaleg þegar ég byrja“, segir Þórunn. „Í alvörunni mamma,“ segja börnin hennar stundum þegar Þórunn er byrjuð að taka frá þeim hlutina og raða þeim og koma fyrir á sinn stað. Sem unglingur var hún stundum spurð hvort mamma hennar væri með tuskuæði. „Mér finnst bara gaman að hafa fínt í kringum mig og hef bara ótrúlega mikinn áhuga á þessu,“ segir Þórunn. „Þetta er bara áhugamál mitt, ég hef mikinn áhuga á hönnun, tísku, fötum, töskum, skóm, þú ættir að sjá skósafnið mitt.“

Þórunn er með tímarit, Home Magazine, en lítill tími hefur gefist fyrir tímaritið eftir að Leah Mist litla kom í heiminn. „Ég setti tímaritið í frost en mig langar rosalega að halda áfram, mig langar ekki að hætta með blaðið,“ segir Þórunn. Home Magazine hefur komið út í fjögur ár en alls hafa komið út 11 blöð.

 

14379626_10154261839119584_4455777524816040880_o

FÖNDURSJÚKUR FAGURKERI Þórunn á uppáhaldsstaðnum sínum í eldhúsinu. „Mér finnst ofsalega gaman að föndra og gera hluti sjálf,“ segir Þórunn. „Ég get legið á Pinterest alveg tímunum saman. Ég er skipulagsfrík og er til dæmis búin að gera jólakortin í ár. Ég geri þau í tölvu og svo fórum við fjölskyldan alltaf í jólamyndatöku og ég á þá bara eftir að henda myndunum í kortin.“

 

14468586_10154261839364584_2524625410697357817_o

FLOGIN AFTUR HEIM Í FOSSVOGINN Þórunn er alin upp í Fossvoginum og er komin heim aftur en fjölskyldan flutti í Fossvoginn fyrir fjórum árum. „Við gerðum mikið án þess að rústa húsinu, stækkuðum öll hurðargöt og settum hurðir upp í loft, máluðum, lökkuðum parket og flotuðum gólf. Við höldum stílnum á húsinu fyrir utan að við lökkum og málum. Mig langaði ekki að mála hvítt,“ segir Þórunn. „Ég fékk Rut Káradóttur til að aðstoða okkur með litaval og fá svona utanaðkomandi auga,“ segir Þórunn. „Hún kom með þá hugmynd að dekkja bitana í loftinu og loftið og mála innréttingarnar í sama lit. Og ég er svo fegin að við gerðum það í stað þess að rífa allt út eins og mér datt fyrst í hug þegar við komum hér inn.“

 

14372442_10154261839129584_8787210522980253341_o

FEGRAR ÖNNUR HEIMILI EN SITT EIGIÐ Þórunn hefur líka gefið einstaklingum ráð varðandi heimili þeirra. „Fyrir svona tveimur árum síðan var ég að fara inn á heimili og veita ráðleggingar, versla húsgögn og svo framvegis, mér finnst þetta mjög skemmtilegt og það getur vel verið að ég fari aftur í það.“

Séð og Heyrt elskar að kynnast nýju fólki.

Related Posts