Jaroslava Davíðsson (42) var konan á bak við súlukónginn:

 

Jaroslava Davíðsson, ekkja súlukóngsins Geira á Goldfinger, tók við rekstri nektardansstaðarins þegar Geiri féll frá. Hún sá fram á að þurfa að loka staðnum fyrir nokkrum vikum en hefur gert Landsbankanum kauptilboð í húsnæðið við Smiðjuveg og freistar þess að halda staðnum opnum um ókomna tíð. Hún segir ekkert vændi á Goldfinger, það sé niðri í bæ og á Facebook.

 

Djörf Jaroslava Davíðsson tók við rekstri nektarstaðarins Goldfinger eftir að eiginmaður hennar, Geiri á Goldfinger, féll frá fyrir rúmum tveimur árum. Hún var þó öllum hnútum kunnug enda var hún á fullu í rekstrinum með Geira. Á bak við tjöldin. Tvísýnt hefur verið með reksturinn undanfarið og fyrir nokkrum vikum lét Jaroslava þau boð út ganga að hún væri að loka staðnum. Staðan hefur breyst síðan þá og hún hefur gert Landsbankanum kauptilboð í húsnæði Goldfinger við Smiðjuveg í Kópavogi.

„Goldfinger gengur mjög vel. Nógu vel til þess að ég treysti mér til þess að leggja allt undir, kaupa húsið og halda áfram,“ segir Jaroslava. „Ég er vongóð um að bankinn taki tilboði mínu enda hefur húsið verið á sölu síðan í janúar og enginn hefur sýnt því áhuga. Það er því full ástæða til bjartsýni.“

KÓNGURINN: Geiri á Goldfinger var óumdeildur súlukóngur Íslands og líkaði athyglin vel, líka sú neikvæða.

Þetta var leikrit

Þegar Jaroslava er spurð hvort hún haldi að Geiri myndi vilja halda Goldfinger opnum er hún á báðum áttum. „Jaaa, ég veit það ekki. Hann hafði talað um að selja eða loka ári áður en hann dó. Hann var orðinn þreyttur en hefði annars pottþétt viljað halda þessu áfram. Fyrir honum var þetta leikrit. Hann hafði gaman af athyglinni og að allir væru að tala um hann. Ég var alltaf á bak við súlukónginn og vil fá að vera í friði.“

Þótt Jaroslava vilji endilega halda áfram með staðinn segir hún það síður en svo neinn heimsendi ef hann lokar. „Er það ekki þannig að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og ég tek bara því sem að höndum ber. Við erum búin að vera með þennan rekstur í sextán ár. Maxim´s byrjaði í Hafnarstrætinu 13. desember 1998, þannig að þetta eru orðin sextán ár í desember og ég get vel hugsað mér að halda áfram.“

GÓÐAR STUNDIR: Geiri og Jaroslava áttu saman mörg góð ár eftir að þau feldu hugi saman og Jaroslava flutti með Geira til Íslands.

Erfiðir tíma

Jaroslava kom til Íslands 1998 þegar Geiri rak Hafnarkrána. „Hafnarkráin lokaði í nóvember 1998 og þá opnuðum við Maxim´s sem lokaði eftir ár. Við vorum beinlínis flæmd úr miðbænum. Samt fengu Óðal og Vegas að vera þar áfram en við fluttum hingað í Kópavoginn og opnuðum Goldfinger. Þá fóru femínistarnir að æsa sig. Það var gert veður út af einkadansklefunum og það var alls konar vesen. Þetta var endalaust og einhvern veginn minnir ástandið mig núna á hvernig þetta var 1998. Það virðist vera alveg sama hvernig fyrirtæki þú stofnar eða átt. Það virðist alltaf vera hægt að henda þér út eða loka hjá þér. Alveg óháð því hvort þú eigir peninga eða ekki. Aðstæðurnar bjóða bara upp á þetta. Það er einhver pirringur í gangi en ég er með allt mitt á hreinu og lögreglan hefur gefið mér leyfi til fjögurra ára. Lögreglan er góð við mig.“

Þegar Geiri lést skildi hann eftir sig umtalsverðar skuldir en Jaroslava hefur haldið sjó. „Þetta er fyrirtæki sem gengur og er með allt í skilum. Ég skulda ekki neinum neitt og er búin að hreinsa upp miklar skuldir. Allt er eins og það á að vera. Ef ég held ekki áfram með staðinn finnst mér eins og öll mín barátta sé til einskis. Mannorð mitt er hreint og ég þurfti ekki að gera þetta mín vegna. Ég gerði þetta fyrir fyrirtækið og langar að halda þessu gangandi.“

Stelpurnar vilja ekki fara

Stúlkurnar sem dansa á Goldfinger koma víða að og sumar þeirra hafa starfað þar árum saman. „Margar stelpurnar vilja vinna áfram og ég er með biðlista af stelpum sem vilja koma. Ég vil hafa þetta fjölbreytt og hér eru stelpur frá öllum heimshornum, ekki bara frá Íslandi og Rúmeníu. Hér eru stelpur frá Tékklandi og Ungverjalandi og víðar. Sumar eru vinkonur mínar og hafa verið hérna lengi. Við erum eins og lítil fjölskylda eins og vill verða þegar fólk er búið að vinna saman í svona mörg ár.“

Ekkert vændi

Súlustaðir koma reglulega við sögu í umræðunni um vændi og mansal en Jaroslava segir ekkert slíkt tíðkast á Goldfinger.  „Hér er ekkert vændi. Vændið er niðri í bæ. Það er auglýst á Facebook og alls staðar. Ég læt þessa umræðu ekki pirra mig og er alveg sama.

Fólk sem segir þetta um stelpurnar ber enga virðingu fyrir þeim og varla sjálfu sér heldur. Fólkið sem kemur hérna er kurteist, ber virðingu fyrir stelpunum og sjálfu sér. Þeir sem blaðara mest hafa aldrei stigið fæti hér inn og vita ekkert um staðinn. Hér er ekkert vændi og hefur aldrei verið. Hér gerist ekkert á bak við tjöldin.

Mega ekki sýna brjóstin

Strákarnir sem koma hingað eru mest útlendingar og eru að sækja í ákveðna stemningu. Þeir eru bara ekki ánægðir með að hér sé ekkert stripp lengur. Þeir spyrja af hverju það sé allt bannað á Íslandi. Ég er með skemmtanaleyfi og Goldfinger er eini staðurinn þar sem stelpurnar mega fara á súluna en þær mega ekki fara úr öllu. Þær þurfa að vera fullklæddar eins og það er orðað. Mega ekki fara úr nærbuxunum og ekki heldur sýna brjóstin en þær geta dansað í undirfötum. Þetta finnst útlendingunum skrýtið og þeir rífast yfir þessu. Nýlega lenti ég í rosalegum vandræðum með Norðmenn sem vildu fá allt endurgreitt og voru alveg brjálaðir.“

Jaroslava segir útlendinga í meirihluta gesta Goldfinger og þeim finnst að súlustaðir eigi að vera í hverri borg enda hafa þeir vanist því. „Hingað komu Norðmenn og héldu steggjapartí fyrir þrettán árum. Þeir voru að koma aftur. Giftir menn sem vildu bara koma í heimsókn. Það var mjög gaman að fá þá. Útlendingar vilja geta komist á svona stað og það á að vera til svona staður. Fólk á að hafa val. Það er enginn að pína fólk til að koma hingað.“

Related Posts