received_10154772245404015

GLÆSILEGAR ÚTVARPSKONUR: Vinkonurnar Herdís og Elísabet Eir eru alsælar með þáttinn sinn Elísadís á Trölla FM en hann er á fimmtudagskvöldum kl. 19 til 21.

Elísabet Eir Steinbjörnsdóttir (24) og Herdís Harðardóttir (24) eru útvarpskonur á Hvammstanga og hafa slegið í gegn:

Vinkonurnar Elísabet Eir og Herdís eru saman með útvarpsþáttinn Elísadís á Útvarpsstöðinni Trölla. Útvarpsþátturinn Elísadís er fjölbreyttur þáttur þar sem þær eru meðal annars duglegar að kynna viðburði á staðnum, taka viðtöl við ýmsa aðila, heimamenn og gesti, og leggja upp úr því að vera jákvæðar. Trölli næst á Hvammstanga og í nánasta nágrenni. Útvarpsstöðin Trölli hefur verið starfrækt í um það bil fimm ár á Siglufirði. Hún var fyrst bara starfrækt á sumrin en er núna í gangi allt árið um kring.

fb_img_1477652592728

GLAÐAR: Í draumasveitarfélaginu Hvammstanga, hoppandi glaðar og taka öllum fagnandi.

 

FREISTANDI TÆKIFÆRI ,,Þetta byrjaði allt í sumar á bæjarhátíðinni hér á Hvammstanga, FM Trölli og FM Eldur voru í samstarfi yfir hátíðina Eldur í Húnaþingi nú í ár. Í boði var að vera með útvarpsþátt og við buðum okkur fram til að vera með einn þátt, bara í gríni, en það má segja að við höfum slegið í gegn á FM Eldur því eftir þáttinn hringdi Gunnar útvarpsstjóri strax í okkur og bað okkur um að vera með áframhaldandi þátt,“ segir Elísabet Eir og bættir við að þá hafi farið af stað vinna við að útvega rými sem þær gætu nýtt sem stúdíó. ,,Það tók svolítinn tíma svo að borðstofan hennar Herdísar var fyrsta stúdíóið okkar, en núna erum við komnar með gott rými og þarf því borðstofuborðið ekki að vera þakið snúrum og allskonar tækjum og tólum. Síðan þá höfum við verið með þátt á hverju fimmtudagskvöldi frá sjö til níu,“ segir Elísabet og glottir. Þær vinkonur fóru fyrst í loftið í lok júlí og hafa verið vikulega síðan þá.

received_10154772245549015

Útvarpsstjóri Trölla er Gunnar Smári Helgason, en þess má geta að Trölli er besta útvarpsstöðin á Norðurlandi. Sendar eru staðsettir á Siglufirði, Ólafsfirði og í Hrísey fyrir norðanverðan Eyjafjörð og svo í sumar bættist Hvammstangi í hópinn. Fyrir þá sem ekki búa á Norðurlandi er hægt að hlusta á Trölla í beinni á www.fmtrolli.is og þar er einnig hægt að hlusta á gamla þætti.

Jákvæðar fréttir í forgrunni

„Útvarpsþátturinn Elísadís er svona allskonar þáttur. Við erum duglegar að kynna viðburði hér á staðnum og höfum einnig tekið viðtöl við fólk bæði hér á staðnum og fyrir utan. Við höfum ólíkan tónlistarsmekk og því höldum við því fram að við spilum eitthvað fyrir alla. Við höfum verið með útvarpsleikrit sem er í smápásu núna hjá okkur en hver veit nema það komi aftur upp á borðið seinna meir,“ segir Herdís og brosir. „Við leggjum mikið upp úr því að vera jákvæðar. Við reynum til dæmis alltaf að fjalla um jákvæðar fréttir þótt það sé nú stundum frekar erfitt að finna þær núorðið. En Elísadís er oftast á léttu nótunum til að hafa þetta skemmtilegt og fjölbreytt eins og hjá kollegum okkar í FM95blö en það er einmitt útvarpsþáttur sem við höfum mjög gaman af og hlustum reglulega á,“ segja þær vinkonurnar í kór og brosa út í eitt.

fb_img_1477652660578

GEISLANDI: Vinkonurnar eru ávallt hressar og kátar og njóta þess að vera saman.

Viðbrögð fram úr björtustu vonum og fylgjendur eru margir

„Fólk tekur mjög vel í þetta. Við fáum oft hrós frá fólki út í bæ sem hefur gaman af því að hlusta á bullið í okkur. Við erum líka búnar að opna Snapchat, elisadisfm, og erum með like-síðu á Facebook þannig að ef fólk vill hafa samband við okkur er best að gera það í gegnum Facebook. Við vorum mjög hissa á því hversu margir fóru að fylgjast með okkur á þessum samfélagsmiðlum en það er bara mjög skemmtilegt og við hlökkum til framhaldsins.“

 

Skemmtilegur og gefandi vinkonutími

Þær stöllur segja þó að þetta sé ekki endilega draumastarfið en engu að síður kærkomið tækifæri til að láta gott af sér leiða. „Það var kannski ekki draumurinn að verða þáttarstjórnandi en þetta er mjög skemmtilegt tækifæri fyrir okkur, bæði til að kynna fallega heimabæinn okkar og okkur sjálfar. Við lítum líka á þetta sem okkar vinkonutíma og við eigum alltaf þessa tvo tíma í viku bókaða saman. Við erum í raun bara að spjalla okkar á milli og stundum kannski gleymum við að fólk sé að hlusta og þurfum að hugsa aðeins um hvað við erum að segja og segjum ekki. Við höfum báðar komið fram hér á Hvammstanga við allskonar viðburði og höfum gaman af því,“ segja þær Elísabet Eir og Herdís.

received_10154772304174015

HRESS: Herdís er ávallt glöð bak við míkrafóninn og nýtur þess í botn að spjalla við hlustendur. Herdís vinnur einnig í Kaupfélagi Vestur Húnvetninga og á unnusta á Hvammstanga, Ævar Smára Marteinsson, og níu ára gamlan stjúpson.

Við búum til tækifærin sjálf hvar sem við erum

Herdís og Elísabet kynntust þegar þær voru í 10. bekk í Varmárskóla í Mosfellsbæ. „Við smullum strax saman og urðum góðar vinkonur.“ Elísabet fluttist svo aftur heim til Hvammstanga og Herdís kom reglulega í heimsókn til Elísabetar. Herdís endaði síðan með því að ná sér í mann á Hvammstanga og er búin að vera þar síðan. ,,Við erum bestu vinkonur og búnar að vera það allan þennan tíma. Okkur finnst frábært að fá þetta tækifæri og hlökkum til að sjá hvert það leiðir okkur. Við viljum endilega koma því á framfæri að tækifærin eru ekki bara í Reykjavík eða á Akureyri. Tækifærin eru þar sem við búum þau til og við erum að gera það. Áfram landsbyggðin,“ segja vinkonurnar ákveðnar á svip.

received_10154772244789015

GLEÐIGJAFI: Elísabet Eir nýtur sín til fulls bak við míkrafóninn sem og í hinni vinnunni. Hún vinnur einnig við aðhlynningu á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga og stundar nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Hún er gift Birki Þór Þorbjörnssyni og á hundinn Töru sem hún dýrkar.

Draumur að búa á Hvammstanga

„Að búa á Hvammstanga er algjör draumur. Þetta er fallegt lítið sjávarþorp sem stendur aðeins nokkra kílómetra frá þjóðvegi eitt. Hér þekkja allir alla og eru tengslanetin hér mjög stór og þétt. Hér eru allir nágrannar. Það er margt hæfileikaríkt fólk hér á svæðinu, bæði í tónlist og handverki og ýmsu öðru,“ segir Elísabet Eir og Herdís tekur í sama streng. ,,Þrátt fyrir að Hvammstangi sé lítill staður er alltaf eitthvað um að vera. Við erum með fallegan veitingastað og bar sem er alltaf þéttsetinn ef eitthvað er um að vera. Það er í rauninni allt sem þarf. Þó að auðvitað komi tímar sem maður vildi óska sér að þjónustan væri eins og í Reykjavík þar sem matvörubúðir eru opnar eftir klukkan sex á daginn eða geta skroppið í bíó. En það er mikið frelsi að búa á svona litlum stað. Við höfum báðar búið á Reykjavíkursvæðinu og komum alltaf aftur heim á Hvammstanga.“

Séð og heyrt fílar gott útvarp.

 

 

Related Posts