Fegurðarsamkeppnir hafa verið mikið á milli tannanna á fólki undanfarið. Annaðhvort ertu með eða á móti fegurðarkeppnum – punktur! Undirrituð er fyrrum keppandi í Ungfrú Ísland, fékk reyndar ekki einn einasta borða en tölum ekki meira um það.

Forsendur ungs fólks sem ákveður að taka þátt í svona keppni eru eins margar og keppendurnir eru. Einn aðili ákveður að taka þátt til að læra að koma fram annar til að kynnast fólki og sá þriðji til að fá fullt af athygli. Þegar ég ákvað að taka þátt á sínum tíma þá var ástæðan sú að ég hafði meira og minna verið alin upp á hestbaki og hafði því voða lítið vit á þeim hlutum sem skilgreina hina almennu stelpuskvísu. Þannig að ég ákvað að taka þátt í fegurðarsamkeppni til að læra að mála mig „basically“! Asnaleg ástæða en ástæða engu að síður. Ástæða sem fékk mig til að ganga um á nærfötum fyrir framan alþjóð með öllu tilheyrandi.

Er rétt að dæma alla aðila sem ákveða að taka þátt í fyrirsætukeppnum eða fegurðarsamkeppnum með neikvæðum einfeldningslegum skýringum? Systir mín er núna þessa dagana að keppa í keppni sem er kennd við Elite. Ástæðan á bak við þátttöku hennar er sú að hún lenti í hræðilegu slysi fyrir tæpum tveimur árum þar sem einstaklingur keyrði á hana og tvær skólasystur hennar með þeim afleiðingum að önnur þeirra, besta vinkona hennar, lést. Þetta slys gerði það að verkum að systir mín varð ákveðnari í því að láta drauma sína rætast, hvað sem það myndi kosta. Ég tel það ekki vera mitt né annarra að dæma hvort hennar draumar séu réttir eða ekki. Að sjálfsögðu getur þátttaka í svona keppnum hafa neikvæð áhrif á einstakling en ég held að það sé eitthvað sem lýsir frekar manngerð einstaklingsins heldur en keppninni sjálfri.

Ég sem útbrunnin fegurðardrottning get sagt með mikilli vissu að ég styð öll mín átta systkini í hverju sem þau ákveða að taka sér fyrir hendur hvort sem það er fegurðarsamkeppni eða upplestrarkeppni. Ég vonast innilega til þess að fólk fari að fagna fjölbreytileika ástæðna sem liggja að baki atferli fólks frekar en að búa til í hausnum á sér ímyndaðar ástæður og dæma síðan.

 

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts