Guðbjörg Hermannsdóttir (36) er kattakonan í fegurstu mynd:

Guðbjörg Hermannsdóttir var valin fegursta kona Íslands 1998. Hún er fædd og uppalin í Grindavík og býr þar enn í dag ásamt unnusta, þremur börnum og tíu köttum. Kattaáhugann fékk hún strax í barnæsku en áhuginn á að rækta ketti kom á fullorðinsárunum. Guðbjörg er „all-in“ í því sem hún gerir, er virk í starfi Kynjakatta, Kattaræktarfélags Íslands og tók við formannsembætti félagsins í fyrra og nýlega fór hún ásamt vinkonu sinni, Kristínu Holm, til Spánar þangað sem þær sóttu kött sem þær höfðu keypt.

Mjááááá „Ég veit ekki alveg hvaðan þessi kattaáhugi kemur, ég hef alltaf átt ketti alveg síðan ég var barn. Og ef ég átti ekki ketti þá „stal“ ég þeim,“ segir Guðbjörg og hlær. „Ég er bara sveitabarn alveg út í gegn og við kettirnir erum „like one.“

En af hverju að rækta ketti, er ekki nóg að eiga bara ketti? „Ég eiginlega datt inn á það að rækta þá, ég er svo hrifin af norska skógarkettinum. Það er enginn karakter eins og þessi tegund hefur þróast með árunum,“ segir Guðbjörg. „Ég á til dæmis eina tíu ára læðu sem er akkúrat öfug við aðra ketti sem ég á. Kattaræktunin er áhugamál, þetta er ekki eitthvað sem ég græði á. Ég veit ekkert skemmtilegra en þegar það kemur ný tegund til landsins, sú nýjasta er russian blue. Það er alveg hellingur af tegundum til.“ Auk þess að rækta ketti þá á Guðbjörg sjálf tíu stykki, þar af fimm kettlinga.

Kattaeigendur og áhugamenn reka saman félagið Kynjaketti, Kattaræktarfélag Íslands og tók Guðbjörg við embætti formanns í fyrra og mun gegna því til tveggja ára. Finna má félagið og allar helstu upplýsingar á kynjakettir.is.

14305313_10154237690629584_1948835329492206792_o

KATTADROTTNING Guðbjörg var fegurðardrottning Íslands fyrir nokkrum árum síðan, í dag er hún ótvíræð kattadrottning. Hún á samtals 10 ketti og heimili hennar ber þess merki, þar sem vel er hugsað um þessa heimilismeðlimi.

Mælir með að tryggja dýrin
Got hjá köttum Guðbjargar eru á svona þriggja ára fresti, fyrsta got var 2008, síðan einu sinni á ári 2010-2013 og svo núna síðast 2016. „Gotin eru alveg frá því að vera hefðbundin og þá koma 4-5 kettlingar og veit ég um einn ræktanda sem fékk níu kettlinga úr einu goti.“

Gotið í ár eiga þær Guðbjörg og Kristín saman. „Þá komu fimm kettlingar og ákváðum við að halda þremur sjálfar,“ segir Guðbjörg.

Allir kettir sem Guðbjörg lætur fara frá sér eru með ættarbók, örmerktir, bólusettir, geldir, heilsársskoðaðir og tryggðir. „Ég mæli með að fólk tryggi dýrin sín, það kostar ekki mikið á ári, á móti því að aðgerð ef til hennar kemur kostar oft helling,“ segir Guðbjörg. Sjálf hefur Guðbjörg lent í því að köttur hafi þurft í bráðaaðgerð af því að hann gleypti aðskotahlut.

Sótti kött til Spánar
Guðbjörg og vinkona hennar, Kristín Holm, fóru saman til Spánar í ár og sóttu eina læðu þangað. Kristín býr í Keflavík og deilir kattaáhuganum með Guðbjörgu, á sjö ketti sjálf og er ritari Kattaræktarfélags Íslands. En af hverju að sækja kött alla leið til Spánar?

„Málið er að við erum ekki að para saman skylda einstaklinga og þegar maður er komin út í horn og vantar nýtt blóð í ræktunina þá fara svona vitleysingar eins og ég af stað og þetta er heilmikið ferli,“ segir Guðbjörg. Hún er með í huga hverju hún er að leita að og finnur ræktanda en þó að hann sé fundinn þá er hann kannski ekki tilbúinn til að selja kött til Íslands. „Margir stoppa við það að Ísland er svo einangrað.

Það þekkist alveg að Íslendingar hafi farið út og sótt dýr, við vorum búnar að kaupa læðuna og þá var spurningin hvort við vildum fá hana senda eina heim eða fara og sækja hana,“ segir Guðbjörg. Þannig að þær skelltu sér til Spánar, voru þar í sex daga og fengu þannig að strjúka henni, klappa og kynnast henni aðeins áður en haldið var með hana af stað til nýrra heimkynna.

Árið 2014 flutti Guðbjörg inn högna sem kom frá Svíþjóð og þá kom ræktandinn með köttinn til hennar og gisti hjá henni í tvær nætur. „Stundum vilja ræktendurnir koma sjálfir með köttinn og er það í raun þægilegra,“ segir Guðbjörg. „Það er líka gaman að þegar erlendi ræktandinn kemur hingað þá sér hann hvert kötturinn er að fara.“

14372064_10154237690684584_4079329704577913242_o

KOMNAR Í KETTINA Vinkonurnar Guðbjörg og Kristín deila áhugamálinu á köttum algjörlega saman. Þær sitja saman í stjórn Kynjakatta, kattaræktarfélags Íslands, eiga samtals 17 ketti, þar af einn saman sem þær sóttu til Spánar. Kattalíf er þeirra líf og yndi.

 

Leitar logandi ljósi að húsnæði á hverju ári
Guðbjörg er sem fyrr sagði formaður Kynjakatta, Kattaræktarfélags Íslands og er öllum sem áhuga hafa velkomið að ganga í félagið. Félagið heldur einnig fjórar sýningar á ári, vor og haust, þar sem allir eru velkomnir að koma og kynnast köttunum og eigendum þeirra. „Það hefur orðið mikil aukning á köttum á sýningunum og það er mikil aukning á húsköttum og við erum komin með sérflokk fyrir þá,“ segir Guðbjörg.

Erlendir dómarar koma til að dæma kettina og næsta sýning er í október. „Vandamálið er að finna húsnæði og fá það leigt, helst húsnæði sem kostar ekki hálfan handlegg,“ segir Guðbjörg. „Við erum lítið áhugamannafélag og höfum hreinlega ekki efni á að greiða háar fjárhæðir í leigu fyrir örfáa daga. Við lendum í þessu sama á hverju ári að eiga í vandræðum með að finna húsnæði til leigu. Þannig að ef það er einhver þarna úti sem á stórt húsnæði með klósettaðstöðu, sem er til í að leigja okkur, þá má viðkomandi endilega hafa samband við mig.

Erlendis eru kattasýningar haldnar í íþróttahöllum og virðist það vera lítið mál,“ segir Guðbjörg. „Þetta er landkynning þar sem erlendir dómarar eru að koma og því skiptir máli að allt sé tipptopp.“ Guðbjörg fór 2014 til Osló í Noregi á Scandinavian Show og mættu þar einstaklingar frá öllum skandinavísku löndunum. „Þarna sá maður hvað þetta er allt öðruvísi úti og þetta var skemmtileg upplifun. Og það var ekki bara kattasýning í höllinni heldur mátti þar meðal annars finna dverghesta, kakkalakka og kanínur. Bara öll gæludýr komin saman í einni höll og ekkert vesen,“ segir Guðbjörg og brosir.

14324589_10154237690719584_4982164136993939601_o

GÆGIST OFT INN UM GLUGGA Þessi krúttlegi kettlingur lét heimsókn ljósmyndara ekkert trufla sig við að stökkva inn og út um gluggann og kíkja til veðurs.

Kettir Guðbjargar keppa
Guðbjörg fer stundum með eigin ketti og keppir á kattasýningum hér heima. „Ég fer með mína ketti og þeir fá sína dóma og ef þeir komast áfram í „Best In Show“ þá er það bara frábært. Ég hef samt mest gaman af félagsstarfinu, að hitta aðra „kreisí“ kattaáhugamenn sem deila áhugamálinu með mér.“

14258375_10154237690929584_5379168058692752021_o

KOMDU KISA MÍN, KLÓ ER FALLEG ÞÍN Kettlingar Guðbjargar eru glaðir og gáskafullir eins og kettlinga er vandi. Hér bregður Guðbjörg á leik með einum þeirra.

14305488_10154237690869584_7299815812799889958_o

ÞÚ ERT SNIÐUG LÉTT OG LIÐUG LEIKUR BÆÐI SNÖR OG FÚS Hér má sjá nokkra af köttum Guðbjargar, en á heimilinu er allt sem þeir þarfnast. Þar á meðal tvær stórar klifurgrindur fyrir þá að klifra og leika sér í.

14305313_10154237690629584_1948835329492206792_o

MIKIÐ MALAR ÞÚ, MÉR ÞAÐ LÍKAR NÚ Guðbjörg með einum af mörgum gullfallegra katta sem hún á.

Séð og Heyrt elskar ketti.

Related Posts