„Brjálað“ óveður lamaði landið um daginn eins og þekkt er. Fjölskyldur komu saman og annaðhvort hjúfraði fólk sig hvert upp að öðru í sófanum yfir mynd eða þurfti að binda öll trampólínin sín niður svo þau fykju ekki burt. Frábær fjölskyldustund ef þú spyrð mig.

Ég bý einn. Kannski ekki alveg einn þar sem ég á kött en það getur stunduð verið erfitt að ná sambandi við hann. Ég sagði við sjálfan mig að ef stormurinn yrði svo mikill að mér yrði bannað að fara út, og ég kæmist þar af leiðandi ekki á æfingu, ætlaði ég að taka til í íbúðinni.

Það tók mig um það bil 3-4 klukkutíma að byrja á þessum herlegheitum og nú er ég hreinskilinn maður og ætla bara að koma hreint fram. Það er enn þá drasl hjá mér.

Ég kom þó einhverju í verk – ég vaskaði upp. Aðalástæðan fyrir því að ég vaskaði upp var sú að þegar ég var búinn að setja tvær kjúklingabringur á Jamie Oliver-grillið mitt, sem er einhver besta uppfinning mannkynssögunnar, komst ég að því að ég átti ekki hreinan disk og þurfti því að nota eldfast mót undir kjúklinginn og piri piri-sósuna.

Setjum heita vatnið í gang, tappann í og neglum sápunni í vaskinn svo það freyði nú ágætlega. Núna hefst orrustan. Hver diskurinn á fætur öðrum, glösin og hnífapörin baða sig í sápuvatninu og ég skrúbba og þurrka af eins og enginn sé morgundagurinn. Ég geri mér grein fyrir því að sá sem les þetta gæti hugsað, „Þvílíkur aumingi að geta ekki bara vaskað strax upp eftir sig,“ en ef ég myndi nú vaska upp eftir mig í hvert skipti þá þyrfti ég ekki nema einn disk, glas, hníf og gaffal og það er miklu flottara að eiga nokkur sett uppi í skáp.

Annað sem ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir er hversu stór sigur þetta er fyrir mig. Þegar ég er búinn að brenna mig tvisvar til þrisvar á vatninu, því hitastillingarnar eru í rugli, allir diskar eru komnir upp í skáp, glösin eru komin á sinn stað og hnífapör mætt í skúffu, stend ég fyrir framan vaskinn, lít í kringum mig til að vera alveg viss um að enginn sé að horfa (kötturinn meðtalinn), klappa ég sjálfum mér á öxlina og segi, „Vel gert Garðar.“

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts