Tóti tönn (78) slær aldrei af:

Tannlæknirinn Þórarinn Sigþórsson er tvímælalaust frægasti laxveiðimaður landsins en flestir þekkja hann undir nafninu Tóti tönn. Tóti varð 78 ára á dögunum en hann slær ekkert af í veiðinni þrátt fyrir aldurinn.
Léttlyndur laxveiðimaður Í sumar veiddi Tóti tæplega 300 laxa en segist hafa veitt meira þegar hann veiddi fyrir budduna, þ.e. seldi aflann til að greiða fyrir veiðileyfin. Tóti býr í Kringluhverfinu og hjólar á tannlæknastofuna sína sem er í miðbænum á hverjum degi kl 8. ef færðin er í lagi. Að loknum vinnudegi skokkar Tóti síðan heim.

Tóti er líka mikil rjúpnaskytta. „Ég hleyp öll fjöll eins og ekkert sé en ég er með aðstöðu í Skagafirði þar sem ég leigi veiðilendur,“ segir hann. „Ég er við flotta heilsu og rúmlega það þó að einhverntíma komi að leiðarlokum.“ Tóti er þegar farinn að bóka veiðina í sumar og verður í meira en mánuð við veiðar.

„Maður þyrfti nú að fara að skoða sinn gang ef maður væri ekki meira en 30 daga í veiði,“ segir hann.
Hverju þakkar Tóti heilsuna? „Ég hef lifað mátulega heilbrigðu líferni og drukkið mitt rauðvínsglas þegar svo ber undir. Ég hef hreyft mig mjög mikið alla tíð og aldrei reykt. Síðan hef ég sofið nóg og borðað holla fæðu. Þá hef verið í ræktinni um árabil og tek tarnir þar sem ég fer þrjá daga í viku. Ég æfði helst til of mikið um tíma þannig að ég var hættur að passa í veiðigallann. Þá sló ég aðeins af.“

Kjarrá í Borgarfirði er ein af eftirlætis laxveiðiám Tóta þó að mörgum finnist hún erfið yfirferðar
„Ég tölti upp í Svartastokk í Kjarrá eins og ekkert sé en það tekur um 4 ½ klukkustund að gera það,“ segir hann. „Svo þarf maður að veiða sig niður ána og það tekur alveg heila vakt. Ég legg af stað kl. 4.30 um morguninn og er kominn aftur í hús um kl 10 á kvöldin.

Mér finnst miklu skemmtilegra að ganga þetta en að fara á hestum. Svo þvældist ég einu sinni þarna uppeftir á þyrlu en það eyðilagði alveg ánægjuna af ferðinni. Þetta var náttúrlega meiri mannraun í gamla daga því þá þurfti maður að bera aflann til byggða. Núna er þetta bara næs og notalegt því maður veiðir og sleppir löxunum jafn óðum.“

Tóti Tönn, Þórarinn Sigþórsson

VEIÐIR UM 300 LAXA Á ÁRI: Þeir eru margir laxarnir sem hafa endað í klóm Tóta en nú sleppir hann þeim glaður út í frelsið aftur. Hér er hann á veiðistaðnum Breiðunni í Blöndu.

Related Posts