Birna Kristín Ásbjörnsdóttir (23) vill efla konur:

Stöllurnar Birna Kristín og Helga Lilja eru ungar og öflugar konur sem báðar eru með geðsjúkdómsgreiningu. Þeim fannst vanta stuðningsnet fyrir ungar konur í þeirra stöðu og tóku því af skarið og stofnuðu félag í sumar, Stuðningshópinn Freyju.

Umhyggja „Stuðningshópurinn var stofnaður með það að markmiði að beita sér fyrir valdeflingu ungra kvenna með geðsjúkdóma og alvarlega vanlíðan og að vera stuðningsnet og staður umburðarlyndis fyrir þessar konur,“ segir Birna Kristín.

Félagið heitir Stuðningshópurinn Freyja og var stofnað af Birnu Kristínu fyrr í sumar. Birna Kristín Ásbjörnsdóttir er nuddari, nemandi í djasspíanóleik og píanókennari og hennar hægri hönd er Helga Lilja Óskarsdóttir sem er leikhúsförðunarfræðingur að mennt. Báðar eru þær með geðsjúkdómsgreiningu.

„Því miður er lítið pláss fyrir geðsjúkdóma í þessum norm-kassa sem allir eiga að passa í og því eru fordómar í samfélaginu töluverðir gagnvart þeim sem þurfa að leita sér hjálpar við geðsjúkdómum. Lyf og samtalsmeðferðir eru bara eins og að nota gleraugu, það ætti ekki að vera litið hornauga,“ segir Birna Kristín. „Hjá okkur geta konur komið á fundi, deilt reynslu sinni þar og á Facebook-hópnum og fundið að það er engin þörf á því að passa inn í þennan kassa, hér getum við verið eins og við erum án þess að setja upp einhverja grímu. Það er ekki okkur að kenna að við erum eins og við erum og við ættum ekki að þurfa að réttlæta það eða skammast okkar á neinn hátt fyrir það.

Hver sem kemur og deilir sinni reynslu eða styður við aðrar á alveg jafnmikið í þessu og við. Þetta er jafningjafræðsla fyrst og fremst og því enginn sem talar niður til okkar. Mín hugsjón er sú að þær geti farið út með aðeins meiri kjark en þær komu inn með. Það er ekki auðvelt að berjast við sjálfan sig og þarf mikla þrautseigju til og stundum þarf maður bara smávegis áminningu um að maður er sterkari en mann grunar,“ segir Birna Kristín.

14409677_10154261840164584_7053676695330478261_o

KÆRLEIKUR ER ALLTAF GÓÐUR „Maður tapar aldrei á því að koma á stað og finna kærleik og styrk frá jafningjum sínum,“ segir Birna Kristín.

 

Viðhorfsbreytingar er þörf
„Viðhorfsbreyting er lykilatriði, bæði hvað varðar samfélagið og okkur sjálf. Það er fullkomlega eðlilegt að vera öðruvísi, það eru allir eitthvað öðruvísi og alveg óþarfi að vera hræddur við það,“ segir Birna Kristín. „Ég vorkenni frekar fólki sem býr við þá hugsanaskekkju að halda að það sé eitthvað tabú við það að vera með geðsjúkdóma. Við erum ekki annars flokks borgarar þó að við glímum við andleg veikindi. Það segir enginn neitt um mig nema ég sjálf og alveg ótækt að láta samfélagið setja á mig einhvern stimpil sem ég vil ekki hafa.“

 

Fyrsti fundur næstu helgi
„Fyrsti fundurinn verður haldinn 18. september og við hlökkum til að sjá sem flestar,“ segir Birna Kristín. „Nánari upplýsingar um Stuðningshópinn Freyju og um fundinn má finna á Facebook-hópnum okkar, Stuðningshópurinn Freyja.“

Séð og Heyrt – nýtt tölublað á næsta sölustað.

Related Posts