Einar Dagur Jónsson (18) er ný óperustjarna:

 

Ein vinsælasta ópera sögunnar, La traviata, var sýnd á dögunum í Hörpu. Sýningin þótti heppnast vel en það var mál manna að ungur tenór, Einar Dagur, hefði stolið senunni.

Spurning um skilning „Mamma er söngvari þannig að ég hef alist upp við söng,“ segir tenórinn Einar Dagur og nýjasta stjarnan í óperuheiminum. Áhuginn hjá Einari kviknaði þegar hann hóf nám í Söngskólanum í Reykjavík.

„Þegar ég byrjaði í skólanum þá kom í ljós að ég hafði röddina sem þurfti og hafði gaman af þessu. Þar lærði ég að meta klassíska tónlist, galdurinn er að hlusta nógu oft og þá öðlastu skilning. Þegar hann er kominn þá byrjarðu fyrst að heillast af tónlistinni.“

 

MEÐ MÖMMU: Einar Dagur ásamt móður sinni Erlu Berglindi Einarsdóttur. Erla er sjálf söngkona og segist hafa séð möguleika í syni sínum snemma.

MEÐ MÖMMU:
Einar Dagur ásamt móður sinni Erlu Berglindi Einarsdóttur. Erla er sjálf söngkona og segist hafa séð möguleika í syni sínum snemma.

Í ættinni

Móðir Einars, söngkonan Erla Berglind, segist fljótt hafa séð möguleika í syni sínum. „Ég tók eftir þessu þegar hann var ungur strákur. Það er mikið af góðum söngvurum í föðurætt minni og greinilegt að hann hefur erft sönghæfileikana, móður sinnar til mikillar gleði,“ segir Erla og brosir.

Einar Dagur sló í gegn eins og fyrr sagði í óperunni La traviata þar sem hann fór á kostum sem Gastone.

 

Djúpa laugin

„Þetta er það fyrsta sem ég geri opinberlega, ég hef ekki einu sinni farið í kór þannig að ég henti mér svo sannarlega í djúpu laugina. Garðar Cortes hafði heyrt í mér í Söngskólanum og spurði mig hvort ég væri ekki til í að taka þátt í þessu ævintýri með þeim. Ég var ekki lengi að segja já við því. Þetta er dýrmæt reynsla og flott að hafa þetta á ferilskránni þegar maður byrjar að sækja um skóla úti.“

Fyrir utan að stunda nám í Söngskólanum í Reykjavík er Einar á þriðja ári í Menntaskólanum í Hamrahlíð og vinnur á pizzustaðnum Castello í Hafnarfirði. „Það er nóg að gera hjá mér en þetta smellur allt ótrúlega vel saman.“

TÖFF SÖNGVARAR: Einar og helstu tenórar landsins eftir vel heppnaða sýningu.

TÖFF SÖNGVARAR:
Einar og helstu tenórar landsins eftir vel heppnaða sýningu.

 

Óvenjulegt áhugamál

Að sögn Einars hafa vinir hans tekið vel í óperusönginn og mættu nokkrir þeirra á sýninguna. „Já, það voru nokkrir sem mættu og skemmtu sér vel. Ég hef samt oft fengið skrýtin viðbrögð frá fólki sem heyrir að ég sé að læra óperusöng, þetta er ekki þetta venjulega áhugamál,“ segir Einar og brosir. Aðspurður hvort hann finni fyrir mikilli athygli frá stelpum vegna söngsins, segir Einar svo ekki vera. „Ætli það séu ekki frekar poppararnir sem fá alla athyglina,“ segir hann og hlær.

 

Þýskaland heillar

Aðspurður hvað komi í framhaldinu á þessum flotta flutningi segist Einar ætla að taka öllu með stóískri ró. „Ég ætla bara að klára skólann hérna heima og fer síðan að skoða skóla úti. Það er mjög vinsælt að fara til Þýskalands. Það eru ströng inntökupróf inn í góðu skólana þannig að þetta verður krefjandi.“

Related Posts