Snyrtispjallið:

 

Tanja Ýr stundar nám í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík og var kjörin ungfrú Ísland árið 2013. Um þessar mundir er hún á fullu að undirbúa sig fyrir keppnina Miss World 2014 sem fram fer í London í desember næstkomandi. Áhugasamir geta fylgst með undirbúningnum og öðru skemmtilegu á heimasíðu hennar www.tanjayr.com.

 

 

Hver er fyrsta snyrtivaran sem þú manst eftir að hafa keypt?

Ætli það hafi ekki verið gloss, ég man eftir því þegar ég var lítil að þá stalst ég alltaf í snyrtidótið hjá systrum mínum og tók það með mér í skólann. Við vinkonurnar fórum svo út í frímínútum og máluðum okkur með því að nota speglana á bílunum á planinu. Okkur fannst þetta alveg rosalega sniðugt en auðvitað tóku allir eftir því að við værum búnar að mála okkur og þá fannst okkur ekki jafngaman.

 

Nefndu fimm snyrtivörur sem þú getur ekki verið án:

Dagkremið frá EGF er uppáhaldsdagkrem mitt og eftir að ég byrjaði að nota það þá hætti ég að fá þurrkbletti, veit ekki hvar ég væri án þess í dag. Baby Lips-varasalvinn frá Maybelline í litnum Peach Kiss er æðislegur. Studio Fix-farðinn frá MAC, ég veit ekki hvar ég væri án hans, besti farði sem ég hef prófað. Hypnose-maskarinn frá Lancôme en hann er einn af mínum uppáhaldsmöskurum og ég kaupi hann aftur og aftur. Síðast en alls ekki síst er það augabrúnapenninn frá Artdeco. Hann er svo auðveldur í notkun og endist allan daginn.

 

Hvaða snyrtivara stendur ávallt undir væntingum?

DayWear frá Estée Lauder er sú snyrtivara sem stendur alltaf fyrir sínu. Það er litað dagkrem með sólarvörn, mjög góðum raka og örlítilli þekju. Það er æði og mæli ég hiklaust með þessari vöru.
Hvaða leyndu snyrtivöruperlu er hægt að finna í apótekinu eða úti í stórmarkaði?
Ég myndi segja að það væri Maybelline Baby Lips-varasalvinn frá Maybelline í litnum Peach Kiss. Ég dýrka hann, hann gefur örlítinn lit fyrir daginn og er líka mjög nærandi.

 

Hvernig viðheldur þú hárinu á þér?
Ég er mjög dugleg að sjá um hárið á mér, ég djúpnæri það tvisvar í viku, set olíu í það eftir hvern þvott og reyni líka að vera dugleg að sofa með hárið í fléttu. Uppáhaldshárolían mín er Moroccanoil og Age Defying Radiance-olían frá Label.m. Mér finnst mjög þægilegt að eiga þurrsjampó til að grípa í ef þess þarf. Það sem er í mesta uppáhaldi hjá mér er Brunette-þurrsjampóið frá Label.m.

 

Hvernig er húðumhirðurútína þín?

Mér finnst ótrúlega fallegt að vera með heilbrigða húð. Þess vegna finnst mér mikilvægt að hreinsa og næra hana vel þar sem húðin er undirstaðan að fallegri förðun. Þegar ég þvæ af mér farðann eftir daginn þá nota ég Lancôme-hreinsimjólk yfir allt andlitið og tek svo rakan þvottapoka og strýk yfir. Ef það er eitthvað eftir þá nota ég Lancôme Bi-Facil-augnhreinsinn til að taka restina og set andlitsvatn yfir. Mér finnst mjög mikilvægt að nota andlitsvatn til að taka filmuna af sem hreinsirinn skilur eftir sig og að auki lokar andlitsvatnið húðholunum, frískar og gefur ljóma. Einu sinni í viku skrúbba ég andlit mitt og set Blue Lagoon Silica Mud-maskann á húðina og leyfi honum að vera á í um 10 mínútur. Þar á eftir set ég Algae-maskann frá Blue Lagoon og að lokum nota ég andlitsvatn og EGF-dagkremið. Ég passa að gleyma ekki hálsinum. Ég hreinsa, skrúbba og set maska á hálsinn líka í hvert skipti.

 

Hver er helsta fyrirmynd þín þegar kemur að tísku og förðun?
Ég á kannski enga sérstaka fyrirmynd í tísku og förðun en ég fylgist með rosalega mörgum heimasíðum og YouTube-bloggurum. Camila Coelho er þar í uppáhaldi, mér finnst stíllinn hennar svo fallegur og fágaður.

 

Hvaða snyrtimistök sérðu konur oftast gera?

Ætli það séu ekki of dökkar augabrúnir, of dökkur farði eða of mikið af farða. Mér finnst mjög mikilvægt að andlitið fái að njóta sín.

 

Hver er besta ráðleggingin sem þú hefur fengið varðandi hár, förðun eða húðumhirðu?
Ég sé mikið eftir því að hafa ekki hlustað á móður mína þegar hún sagði mér að byrja ekki að lita á mér hárið því að náttúrulegi litur minn væri svo flottur. Auðvitað þurfti ég að lita á mér hárið eins og allir hinir voru að gera en loksins núna, 7 árum seinna, er ég að fá minn náttúrulega háralit aftur. Einnig er gott ráð að gleyma ekki hálsinum þegar maður ber á sig krem, aldrei að sofna með farða og muna að nota sólarvörn til að vernda húðina. Falleg húð er undirstaða að fallegri förðun.

 

Uppáhaldsilmvatn?
Ég er frekar vanaföst þegar kemur að ilmvötnum og finnst mér erfitt að finna ilm sem hentar mér. Í augnablikinu eru samt í uppáhaldi Guess Seductive-ilmurinn og nýja ilmvatnið frá Heiðari Jónssyni, ILMUR Nr.1, en það var að koma út og ég féll fyrir því strax. Því miður er hætt að framleiða Guess Seductive en ég náði mér í nokkur stykki áður en þau hættu í sölu.

 

Að lokum, lumarðu á góðum snyrtiráðum fyrir lesendur?

Mér finnst mjög mikilvægt að drekka nóg af vatni og ná góðum svefni. Sömuleiðis að prófa sig áfram í snyrtivörum og sjá hvað hentar manni og hvað ekki. Ágætt að hafa líka í huga að minna er meira.

 

Related Posts