Yana Irena Ragnarsson (39) er glæsileg heimskona:

Hún vekur eftirtekt hvar sem hún kemur. Yana Irena ber það með sér að vera heimsborgari og minnir helst á gríska gyðju, enda á hún meðal annars ættir að rekja þangað og víðar. Hún elti ástina til Íslands örlagaárið 2008 og hefur fundið hjarta sínu stað hér á landi. Yana er sérmenntuð sem húðaðgerðarfræðingur hún starfar aðallega erlendis, mest í Þýskalandi þar sem hún er með sitt annað heimili.

Rómantískt „Ég hitti manninn minn fyrir algjöra tilviljun, ég var stödd á flugvelli á Alicante og var í miklu uppnámi þar sem farangurinn minn hafði týnst og svo brotnaði hællinn undan skónum mínum. Ég var eitthvað að vandræðast þarna þegar hann gengur til mín hávaxinn og ljóshærður og segist hafa verið að fylgjast með mér og bauð mér upp á kampavín, því ég þyrfti augljóslega á því að halda,“ segir Yana um þeirra fyrsta fund.

Þrátt fyrir að höf og lönd skildu Yana og Kristin B. Ragnarsson að, þá hafði ástarfræi verið sáð yfir kampavínsglasinu og eldheitt bál kviknað.

 

yana6

SEIÐANDI FÖGUR: Yana Irena er einstaklega heillandi.

„Ég vissi ekkert um Ísland áður en ég kom hingað fyrst. Við Kristinn skiptumst á símanúmerum á flugvellinum og vorum í símasambandi eftir það en ég fluttist ekki hingað fyrr en árið 2008. Við vorum bæði í öðrum samböndum þegar við hittumst árinu áður og því var þetta ekki einfalt. En við ástina fæst ekkert ráðið. Ég er alin upp í Rússlandi, niðri við Svartahaf, og því voru það mikil viðbrigði að koma hingað í myrkrið og kuldann. Mér brá þegar ég kom til Reykjavíkur, fannst borgin ekki heillandi við fyrstu kynni en er mjög sátt í dag. En mér líkar samt vel við Ísland og þið Íslendingar hafið svo mikið frelsi, það er svo dýrmætt. Konurnar hér eru fallegar, þær kunna að mála sig og eru með smekklegan norrænan stíl.“

Var litin hornauga
„Ég opnaði snyrtistofu hér en fann fljótt hve markaðurinn var lítill og ekki reiðubúinn fyrir þær meðferðir sem ég bauð upp á. Þær aðferðir sem ég nota eru margreyndar og ég nota þær á viðskiptavinum mínum erlendis en markaðurinn hér var ekki tilbúinn, þannig að ég lokaði.
Ég viðurkenni alveg að ég fann að það truflaði suma að ég er ekki íslensk og ég er með öðruvísi stíl. Sumir héldu að ég væri að nota botox en ég vil ekki sjá það. Það geta verið stórhættulegar aukaverkanir af því og svo verða konur ekki fallegar af þessu. Botox lamar vöðva ég vinn með húð og nota allt aðra tækni til að ná árangri. Ég er með mína viðskiptavini erlendis, bæði í Rússlandi og í Þýskalandi, ég er með annan fótinn í Frankfurt, þar er ég með minn kúnnahóp.“

yana2

ÍSLENSKA KIM: Þeim Kim Kardashian er oft líkt saman, dæmi hver fyrir sig.

 

 

Líkt við Kim Kardashian
„Ég hef fengið að heyra ýmislegt um minn stíl, að ég sé eins og Kim Kardashian og að ég sé ekki smart. En það verður hver og einn að móta sinn persónulega stíl. Ég er ákafur skósafnari og á heilt herbergi bara með skóm, svona Sex and the City-herbergi. Ég hreinlega elska falleg föt og skó, ég starfaði lengi sem fyrirsæta og þá kynntist ég mörgum úr tískubransanum og hef enn mjög góð sambönd erlendis og nýti mér það hiklaust þegar mig langar í fallega merkjavöru.“

Kristinn og Yana ferðast víða og hafa gaman af því að skoða framandi slóðir, sérstaklega þar sem sólin skín og hitastigið er örlítið hærra en á Íslandi.

„Við ferðumst mikið, og njótum þess að vera saman erlendis. Ég finn að það er mér nauðsynlegt að komast í stórborg reglulega, ég er alin upp í Rússlandi og hef búið mest allt mitt fullorðinslíf í Þýskalandi og er því vön margmenni, ég finn stundum fyrir fámenninu hér. Evrópa togar í mig, Rússland ól mig upp en rætur mínar liggja víðs vegar um álfuna, ég á bæði norska og gríska forfeður. Ég er vel hristur kokteill eins og margir aðrir Evrópubúar. Ég á íslenskan mann, er með rússneskt og þýskt ríkisfang og stefni að því að búa á Ítalíu í ellinni. Svona bland í poka.“

Ástin sigrar allt
„Það var ekki auðveld ákvörðun að flytja hingað til landsins, ég var með fyrirtæki í Þýskalandi og átti auðvitað fjölskyldu og vini erlendis sem skildu ekki hvað ég var að spá að flytja hingað, næstum því á norðurpólinn. Það getur tekið á að vera svo fjarri heimahögum en ég veit að ákvörðunin um að koma hingað var rétt. Kristinn er lífsfélagi minn og ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast sannri ást.“

yana8

ELDUR OG ÍS: Yana og Kristinn eru innilega ástfangin.

Related Posts