Eitt af því skemmtilegasta við lífið er hvernig það heldur áfram að koma manni á óvart. Mér finnst ekki bara ótrúlegt að hugsa til þess, heldur í raun og veru stórfurðulegt, að vera núna í raun og veru að skrifa móment-pistil í Séð og Heyrt. Þegar ég hætti hjá blaðinu fyrir rúmum sjö árum var það ekki alveg í kortunum að ég settist aftur við lyklaborðið hjá Birtíngi.

Það var reyndar ekki heldur í kortunum að ég ynni á Séð og Heyrt í 11 ár þegar ég byrjaði fyrst á blaðinu árið 1997. Eins og nú, var aðalumfjöllunarefnið fræga fólkið í leik og starfi, og ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki trú á að blaðið yrði mjög langlíft, enda ekki það mikið til af frægu fólki á Íslandi. Líkt og svo oft reyndist ég ekki mikill spámaður og blaðið hefur nú vaxið með þjóðinni í 19 ár.

Kombakkið mitt er reyndar tvöfalt því nú er Séð og Heyrt til húsa í sömu götu og áður var Gagnfræðaskóli Garðahrepps þar sem ég þreytti landspróf fyrir fjórum áratugum. Þá hafði ég búið í hreppnum í um áratug en þegar ég fluttist í hreppinn var víða í honum að finna blómlegan sauðfjárbúskap og hross í haga. Garðahreppur er flestum gleymdur og þegar ég segist vera þaðan hváir fólk gjarnan og hefur ekki hugmynd um hvaða hrepp ég er að tala um og hvar hann var að finna.

Þegar ég horfi út um gluggana á ritstjórnarskrifstofu Séð og Heyrt gefur að líta leiksvið minninganna nema sviðsmyndin er gjörbreytt. Þar sem áður voru móar og hraun eru komin byggingar og akbrautir og það sést ekki tangur né tetur af stærstu byggingunni sem var í gamla Garðahreppi. Skipasmiðastöðin Stálvík var einn af leikvöllum æskunnar og Garðahreppur var mesti skipaframleiðandi landsins.

Það var gott að alast upp í Garðahreppi og njóta þeirra forréttinda að fá að vera í nánum tengslum við náttúruna. Það var líka gaman að vinna á Séð og Heyrt á gullöld blaðsins þegar það kom eins og týndi sonurinn inn í íslenskt samfélag.  Tilfinningin núna er líka líkt og að koma heim í tvöföldum skilningi og ég hlakka til að halda áfram að gera lífið skemmtilegra.

Loftur Atli Eiríksson

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

 

Related Posts