Fyrstu kynni mín af Chicago voru frábær í alla staði. Ég hef unun af því að fara að heimsækja nýja og skemmtilega staði, hvort sem það eru borgir, þorp, bæir eða jafnvel veitingastaðir. Gaman að prófa nýja staði, kynna sér menninguna, mannlífið, veitingahúsaflóruna, byggingastílinn og taka út verslunarsvæðið. Í þetta skipti var Chicago heimsótt og með í för var eiginmaðurinn og góðir vinir.

Við tókum þetta alla leið og ákváðum að vera túristar fyrsta daginn. Fórum í skoðunarferð með leiðsögumanni sem var tryllingslega gaman, ekki bara að fá að sjá og kynnast borginni, heldur var hann svo fyndinn og skemmtilegur að við fengum harðsperrur í magann og vel það. Hann hræddi líka úr okkur líftóruna með því að standa á sama tíma og hann sagði okkur að setjast til að tryggja að engin slys yrðu á fólki þegar við færum undir frægu pallanna um alla Chicago-borg. Til útskýringar þá vorum við í tveggja hæða strætisvagni sem var án þaks og þessir pallar eru alls ekki svo háir og höfuð hans nánast snerti loftið.

chicago_bean

Við fórum víða, ákváðum að troða í okkur fróðleik og afreka sem mest á sem skemmstum tíma. Við tókum Michigan Avenue sem liggur frá Lake Michigam og inn í gamla hverfi borgarinnar þar sem við fundum allar aðalverslanirnar með allt sem hugurinn girnist. Við skoðuðum háhýsin, en skýjakljúfar eiga uppruna sinn í Chicago, og við skoðuðum Willis Tower sem er með hæstu byggingum í Norður-Ameríku. Toppurinn hjá okkur var að heimsækja Skýjahliðið, sem er betur þekkt sem Baunin, og við mynduðum okkur í bak og fyrir.

Aðalatriðið var auðvitað maturinn og meðlætið en við fórum í The Magnificent Mile þar sem er sannkölluð flóra af kaffihúsum, veitingastöðum og börum og trylltum bragðlaukana meira en góðu hófi gegnir. Þvílík dásemd að njóta. Alla dagana fórum við að sjálfsögðu í amerískan morgunverð, árbít, eða lunch eins og sagt er á ensku, síðdegishressingu og að lokum kvöldverð. Chicago var alveg með þetta allt við höndina og næst verður það leikur í NBA-deildinni, sinfónía og leikhús sem komst ekki að í þetta skiptið. 

En af hverju var fyrsta upplifunin af Chicago svona frábær? Jú, upplifunin var svo margfalt betri af því að við vorum í svo frábærum félagsskap, með gleðigjöfum þar sem var hlegið, spjallað og hlegið aftur. Lífið er svo miklu skemmtilegra þegar við eigum góða vini og fjölskyldu sem við getum notið lífsins með. Maður er manns gaman og matur er manns gaman.

13043567_10208042488118088_1581773494136159612_n

Sjöfn Þórðardóttir

 

 

Related Posts