Soffía Kristín Jónsdóttir (25) á fullu í tónlistinni í Los Angeles:

ROKK: Soffía er á stöðugum þönum innan um tónlistarfólk. Hér er hún með Robert Trujillo úr Metallica.

ROKK:
Soffía er á stöðugum þönum innan um tónlistarfólk. Hér er hún með Robert Trujillo úr Metallica.

Soffía Kristín Jónsdóttir hefur haft brennandi áhuga á tónlist frá því hún var krakki. Hún segist þó fljótt hafa áttað sig á því að hún yrði ekki góður tónlistarmaður og ákveðið að leggja fyrir sig umboðsmennsku. Hún er nú komin á fleygiferð í Los Angeles þar sem hún er á fullu alla daga við að koma tónlistarfólki á framfæri.

Dugleg Soffía Kristín Jónsdóttir notar allar sínar stundir til þess að kynnast tónlistarfólki og koma því á framfæri. Hún hefur náð langt á skömmum tíma en boltinn byrjaði að rúlla þegar hún fór í starfskynningu til Einars Bárðarsonar sem þá var umboðsmaður Íslands.

„Þetta er eitthvað sem ég hef stefnt að alveg síðan ég var þrettán ára. Ég kem úr mjög músíkalskri fjölskyldu en áttaði mig fljótt á því að ég yrði aldrei góður tónlistarmaður,“ segir Soffía. „Ég kann ekki að syngja og spila ekki vel á hljóðfæri, þótt ég hafi reynt. Þannig að ég ákvað bara að þá yrði ég að vera sú sem hjálpaði tónlistarfólki að komast áfram. Það hefur líka alltaf farið illa í mig hversu erfitt er fyrir tónlistarfólk að lifa af list sinni á Íslandi. Ég fór í starfskynningu til Einars Bárðarsonar og hann var þá meðal annars með Nylon og nú er ég að reyna að hjálpa þeim hérna úti í LA sem The Charlies. Þannig að ég tók við af Einari, eða það er brandarinn.

Soffía er með BS-gráðu í Music Business frá Flórída, þaðan sem hún útskrifaðist með tíu viðurkenningar, dúxaði og var valin sá nemandi sem talinn var ná bestum árangri í starfi.

EFNILEGUST: Dúxinn sem þótti líklegastur til að ná bestum árangri í starfi ávarpaði að sjálfsögðu útskriftarnemendurna.

EFNILEGUST:
Dúxinn sem þótti líklegastur til að ná bestum árangri í starfi ávarpaði að sjálfsögðu útskriftarnemendurna.

LÖGGAN: Soffía með trommaranum Stewart Copeland úr hinni goðsagnarkenndu hljómsveit The Police.

Soffía hafði ekki verið nema þrjá daga í Los Angeles þegar hún fékk fulla vinnu hjá TAXI Independent A&R.

„Ég var ekki lengi að sýna hvað í mér býr og ég fékk stöðuhækkun þar eftir um það bil þrjár vikur.

Ég starfa enn þá með einu fyrirtækinu í Flórída við að bóka tónlistarfólk á klúbbum en núna í júní komst ég í samband við nýtt fyrirtæki, 360 Studios, sem er bæði plötufyrirtæki og kvikmyndaframleiðandi.“

Þar er Soffía í stjórnendastöðu og fyrirtækinu er svo í mun að halda henni að það gengur hart fram við að tryggja henni áframhaldandi atvinnuleyfi í Bandaríkjunum.

„Ástæðan fyrir því að ég hef lagt svona mikla vinnu á mig er til þess eins að afla mér sem mestrar reynslu svo að ég geti einn daginn stofnað mitt eigið fyrirtæki sem mun sérhæfa sig í að flytja út íslenska tónlist. Ég hef verið að vinna með StopWaitGo og The Charlies á meðan ég er hérna úti og er byrjuð að koma mér í samband við fleira íslenskt tónlistarfólk sem er nú þegar í Los Angeles. Ég hef vakið athygli á bæði Dimmu og Eivöru Pálsdóttur hjá Atlantic Records. Svo erum við Steinunn Camilla að hefja samstarf og við munum vonandi opinbera það sem við ætlum að taka okkur fyrir hendur í næsta mánuði.“

Related Posts