Amelia Rose kostaði hálfan milljarð þegar hún var smíðuð:

 

Amelia Rose er komin til landsins og liggur nú í Reykjavíkurhöfn og bíður verkefna sem öll verða í stærri og dýrari kantinum.

STOLTUR: Svanur Þór stendur stoltur í brúnni á Ameliu Rose og lítur björtum augum til framtíðar í ferðaþjónustu fyrir hina ríku.

Fljótandi lúxus Þeir eru stórhuga Íslendingarnir sem festu kaup á lúxussnekkjunni Amelia Rose á vesturströnd Mexíkó og sigldu heim. Snekkjan er 34 metra löng, tæplega átta metra breið með ellefu herbergjum, þar af risastórri svítu sem toppar hvaða lúxushótel sem er.

„Við eigum hlut í þessu,“ segir Svanur Þór Sveinsson hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Reykjavík Seaadventures.is og á þar við sjálfan sig og meðeiganda, Kjartan Ólafsson. Aðrir hluthafar í Ameliu Rose eru Gunnar Leifur Stefánsson og Garðar Berg Guðjónsson.

Svanur Þór vill ekki gefa upp kaupverðið á Ameliu Rose en snekkjan var smíðuð fyrir tíu árum og kostaði smíð hennar um hálfan milljarð króna.

„Við fengum hana fyrir minna,“ segir Svanur Þór.

Þeir félagarnir sigldu snekkjunni heim frá Mexíkó í gegnum Panamaskurðinn með viðkomu á Flórída þar sem hún var tekin í gegn og svo til St. John og síðan yfir hafið og heim. Ekki var gott í sjóinn en Amelia Rose stóð sig eins og hetja, enda vel byggð og örugg í alla staði.

Gert er ráð fyrir að snekkjan taki 16 farþega í rúm og er stílað upp á upplifunarferðir umhverfis landið og þá ekki síst til Vestfjarða þar sem farþegar geta gengið á land, klifið fjöll og verða svo sóttir í næsta fjörð.

„Möguleikarnir eru óteljandi,“ segir Svanur Þór.

11 HERBERGI: Pláss verður fyrir 16 farþega í uppbúnum rúmum í Ameliu Rose, þar af er lúxussvíta fyrir tvo.

 

FLOTT: Snekkjan vekur athygli þar sem hún liggur í Reykjavíkurhöfn eftir langa siglingu yfir heimshöfin; 34 metra löng og tæplega átta metra breið.

FLOTT: Snekkjan vekur athygli þar sem hún liggur í Reykjavíkurhöfn eftir langa siglingu yfir heimshöfin; 34 metra löng og tæplega átta metra breið.

 

Amelia Rose er reyndar heimsfræg úr kvikmyndinni Blink of an Eye með Eric Roberts en kvikmyndin gerist að mestu þar um borð. Síðan eru liðin mörg ár og núna er Amelia Rose skráð á Akranesi.

HEIMSFRÆG: Amelia Rose er heimsfræg úr kvikmyndinni Blink of an Eye en þar var snekkjan í miðpunkti átaka – nú skráð á Akranesi.

Related Posts