Jón Ársæll (64) og Steingrímur Jón (48) kveðja Sjálfstætt fólk:

Sjálfstætt fólk

ALLTAF Í LA: Jón Ársæll fór að hitta leikkonuna Anitu Briem í borg englanna.

Eftir fjórtán ár og tæplega 500 þætti af Sjálfstæðu fólki hafa félagarnir Jón Ársæll Þórðarson og Steingrímur Jón Þórðarson ákveðið að láta staðar numið. Steingrímur segir erfitt að gera upp á milli þáttanna og Jón Ársæll segir léttinn sem fylgir ákvörðuninni tregafullan en stríðið sé búið að vera indælt.

Sáttir Steingrímur Jón Þórðarson kvikmyndatökumaður framleiddi þættina ásamt Jóni Ársæli. Hann segir hvern einasta þátt í raun vera heimildarmynd og það hafi gengið furðulega vel að fá að elta fólk á röndum með tökuvélina á lofti. „Jón hefur þessa einstöku nærveru sem verður til þess að fólk er eins og í rólegheitum heima hjá sér.“

En standa einhverjir sérstakir þættir upp úr í minningunni? „Þetta er spurning sem við heyrum oft en það er eiginlega ekki hægt að gera upp á milli þeirra. Það má segja að það hafi verið ákveðinn bautasteinn þegar við fórum með forsetanum til Rússlands. Sá þáttur var ein af fyrstu rakettunum og svo komu margar eftir það.“

Mökkur af frábæru fólki

Sjálfstætt fólk

LJÚFA LÍF: Það var glatt á hjalla hjá söngkonunni Önnu Mjöll og Jóni Ársæli í Ameríku.

Þegar Jón Ársæll er spurður hvernig tilfinning fylgi þessum tímamótum; söknuður, tómleiki eða jafnvel léttir segir hann: „Jú, jú, allt í senn, tómleikinn og bláminn fylgir manni frá vöggu til grafar. Hver er ég og hvert er ég að fara? Stöðvið heiminn, hér vil ég út.“ Og bætir við að söknuðurinn sé partur af prógramminu. „Mökkur af frábæru fólki sem ég sakna, þó svo að ég hafi verið skrifaður fyrir útgerðinni. Síðastur en ekki sístur,  Steini, Steingrímur Jón Þórðarson, samstarfsmaður minn og vinur, en ég hef elskað hann frá okkar fyrstu kynnum og við höfum unnið þáttinn saman í gegnum tíðina.“

Indælt stríð

Léttirinn segir Jón Ársæll svo vera „tregafull blanda af því að vera búinn í ræktinni og koma út á tröppur og láta svalann úr vestanáttinni kæla sig niður og svo það að hugsa: Ég hefði getað verið betri og vakað örlítið lengur en þetta er búið að vera indælt stríð.“

Sjálfstætt fólk

Í KABÚL: Sjálfstætt fólk fylgdist með Halldóri heitnum Ásgrímssyni í stríðshrjáðri Afganistan.

Þegar Jón Ársæll er spurður hvort einhverjir sérstakir þættir standi upp úr í minningunni lendir hann í sömu klemmu og Steingrímur, félagi hans. „Flókin spurning eftir tæplega fimm hundruð heimildarmyndir af Sjálfstæðu fólki sem spanna fjórtán ár í sögu okkar. „Veðrið, þyngdarlögmálið og tíminn.“  Þetta eru seigir karlar, eins og nafni minn Prímus sagði.“

En var aldrei erfitt að finna „sjálfstætt fólk“ í okkar litla samfélagi?

„Það er auðvitað ekki einfalt mál að ákveða hver á erindi hér og nú heim í stofu til heillar þjóðar á sunnudagskvöldi en um leið höfum við öll sögu að segja. Ævi hvers og eins okkar er full af ævintýrum, gleði og sorgum og öllum hinum hversdagslegu litlu hlutum sem ekki ber að gleyma. Ég lít á mig sem ritara. Blöðunum má ekki týna.“

Er á milli skipa

Sjálfsagt eiga margir eftir að sakna Jóns Ársæls og sjálfstæða fólksins af skjánum, en má fólk eiga von á því að sjá hann aftur í sjónvarpinu í náinni framtíð?

„Sæll … ég er búinn að vera þriðjung úr öld í fjölmiðlum og mér finnst ég vera rétt að byrja en öllu er afmörkuð stund. Ég er með mökk af hugmyndum ef þú ert að spyrja um það og auðvitað held ég áfram þangað til klukkan glymur. Aldrei að segja aldrei. Vinnan er systir hamingjunnar og verkefnin eru út um allt. Ég er á milli skipa eins og gömlu sjóararnir sögðu. Sjáum til.“

jon arsæll

MEÐ EIGINKONUNNI: Jón Ársæll og Steinunn Þórarinsdóttir myndlistarkona.

 

Related Posts