Frábæra fólkið sem fylgist með veðrinu:

 

Veðurvitar Ekkert er Íslendingum jafnhugleikið og veðrið, þessi óþrjótandi uppspretta samræðna sem gleður okkur af og til en er meira í því að valda vonbrigðum og gera okkur lífið leitt. Þótt allir fylgist með veðrinu á einhvern hátt, hvort sem þeim líkar betur eða verr, þá eru veðurfréttir í sjónvarpi síður en svo mest spennandi efnið á dagskránni. Í þessum stuttu innslögum getur veðurfræðingurinn sem fer yfir málin og rýnir fram í tíman riðið baggamuninn. Þegar lýsandinn er góður, fróður og sjarmerandi verða veðurfréttirnar að frábæru sjónvarpi. Hér er varpað ljósi á fimm bestu sjónvarpsveðurfræðinga landsins sem sinna ekki aðeins starfi sínu með sóma heldur gera þeir það léttleikandi og skemmtilega þannig að veðurfréttirnar verða bráðskemmtilegar óháð því hversu leiðinlegt veðrið er.

 

Veður VeðurBIRTA LÍF (30)

Birta Líf Kristinsdóttir vakti strax mikla athygli í sínum fyrsta veðurfréttatíma í Sjónvarpinu mánudagskvöld eitt í nóvember í fyrra. Fáguð og heillandi framkoma Birtu Lífar hefur gert hana að einum allra vinsælasta sjónvarpsveðurfræðingi landsins.

Birta Líf lauk atvinnuflugmannsprófi 2006 og hefur flogið Boeing 757-þotu hjá Icelandair. Áhuginn á veðurfræðinni kviknaði í flugnáminu og eftir að hún sveif inn á skjáinn hefur athyglin meira verið á Birtu Líf en veðrinu sjálfu, enda hefur verið sagt um Birtu Líf að hún fangi athygli allra hvar sem hún kemur og sé hrókur alls fagnaðar.

Birta Líf lagði nýlega fram á YouTube veðurspá fyrir 16. júlí 2050 sem hún gerði í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Og þótt hún sé brosmild er hún ekki alltaf boðberi góðra tíðinda og spáir rigningu, hlýu og blautu sumri rétt eins og því sem er nýliðið.

 

Veður VeðurELÍSABET MARGEIRSDÓTTIR (29)

Elísabet Margeirsdóttir er kjarnorkukona sem er margt til lista lagt. Hún er löggiltur næringarfræðingur með BS-gráðu í lífefnafræði og MS-gráðu í næringarfræði, afrekskona í hlaupi og svo segir hún veðurfréttir á Stöð 2. Elísabet hefur verið á hlaupum í drjúgan áratug og lokið fjölmörgum maraþonhlaupum. Í fyrra sendi hún frá sér handbókina Út að hlaupa, ásamt Karen Kjartansdóttur.

Örugg framkoma Elísabetar og greinargóðar veðurlýsingar fá fólk til að hlusta og sjálfsagt eru margir meðvitaðri um hvaða vindar blása hverju sinni eftir að næringarfræðingurinn hlaupandi brunaði í veðurfréttirnar.

 

GUÐRÚN NÍNA PETERSEN (41)

Veður VeðurGuðrún Nína er sérfræðingur í veðurfræðirannsóknum hjá Veðurstofu Íslands og segir veðurfréttirnar af yfirgripsmikilli þekkingu og öryggi sem hefur þau áhrif að fólk treystir spám hennar, en annars eru Íslendingar gjarnir á að vantreysta veðurfræðingum. Þeir sækja jafnvel í norska veðurspá, eins og allt sé betra og öruggara sem þaðan kemur en þegar Guðrún Nína lýsir veðrinu í Sjónvarpinu er alger óþarfi að líta til Noregs úr tölvunni.

Guðrún Nína er líka fjölfróð um vind og hefur fjallað um vindinn frá ýmsum sjónarhornum í fyrirlestrinum Ég elska þig stormur. Ekki ónýtt að vita allt um vindinn sem er allsráðandi í íslensku veðri.

 

 

Veður VeðurHARALDUR ÓLAFSSON (49)

Haraldur er hokinn af reynslu þegar kemur að veðurfréttamennsku og veit hvaða vindar blása og gerir þeim greinargóð skil. Þá spillir ekki fyrir að Haraldur er flugmælskur, mikill húmoristi og með ákveðnar skoðanir. Hann hefur lætt meiningum sínum í veðurfréttirnar eftirminnilega og enn er mögrum í fersku minni þegar hann sagði viðra vel til loftárása á Balkanskaga fyrir margt löngu þegar NATO var að sprengja allt í tætlur þar.

Þá skaut hann fast á Ögmund Jónasson eftir að hann amaðist á Alþingi við því að ekki hefði verið varað við ofsaveðri. Haraldur dró þá fram veðurkort frá því í aðdraganda óveðursins með þessum orðum: „Gott kvöld. Það er bæði fróðlegt og skemmtilegt að skoða gömul veðurkort og ekki síst gamlar óveðursspár,“ og útskýrði svo í framhaldinu, fyrir Ögmundi og öðrum, hvernig lesa mætti snjókomu út úr kortinu.

 

Veður VeðurEINAR MAGNÚS EINARSSON (35)

Einar er léttleikandi og hress veðurmaður sem hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem einn skemmtilegasti veðurfréttamaðurinn á RÚV. Öruggur í fasi og með mátulegan húmor fyrir sjálfum sér fangar hann athygli áhorfenda. Hann vakti mikla athygli fyrir tveimur árum þegar upptaka af veðurfréttum fór í loftið án þess að fyrri upptaka þar sem Einar fipaðist í lestrinum væri klippt burt. Á milli upptaka sveiflaði Einar hendi að hermannasið og hóf lesturinn að nýju. Þótti einhverjum sem þar hefði hann heilsað að sið nasista og varð af þessu nokkuð fjaðrafok sem Einar sneri sig auðveldlega úr, enda vænsti drengur.

Related Posts