Tónlist er eitthvað sem tengir fólk, í gleði jafnt sem sorg og mikið væri lífið fátækara og hljóðlátara ef hennar nyti ekki við. Tónlist tengir unga og aldna saman, reynir á allan tilfinningaskalann og vekur upp minningar, bæði góðar og slæmar. Hún fær hjartað til að gleðjast, augun til að tárast, sálina til að endurfæðast, orkuna til að endurnærast og fæturna til að þreytast. Besta tónlistin nærir bæði huga manns og hjarta.

Tónlist hefur alltaf skipað stóran sess í lífi mínu þrátt fyrir að ég hafi aldrei lært á hljóðfæri og sé falskari en allt og gæti ekki bjargað lífi mínu með að hefja upp rödd mína í söng. Ég er samt þeim góða hæfileika gædd að ég get rifjað upp hvert einasta 80´s lag enda var ég unglingur á þeim frábæra áratug. Í dag fer ég hins vegar í búðina að versla, með miða, en gleymi samt einhverju sem á honum stóð. Svona getur minni verið fallvalt eða valkvætt eftir því hvernig á það er litið.

Mínir bestu vinir og vinkonur eiga öll sitt „þemalag“, lag sem í mínum huga er órjúfanlega tengt hverju og einu þeirra og góðum minningum.  Ákveðið lag kallar því fram minningar um vininn. Til dæmis er ein vinkona mín mikið jólabarn og myndi helst vilja hlusta eingöngu á slík lög og skreyta allan ársins hring. Where Are You Christmas hefur því oft fengið að hljóma á fullu blasti á rúntinum í miðborg Reykjavíkur á sumarnóttu, með niðurskrúfaðar rúður og svo syngjum við með eins og við séum algjörar rokkstjörnur vegfarendum til mikillar ánægju.

Þegar maður kynnist nýjum einstaklingi er upplagt að tala saman um tónlist, hún er bæði fjölbreyttari og skemmtilegri en innantómt hjal um veðrið. Það hafa allir skoðun á tónlist, eiga uppáhaldslag eða -tónlistarmann og skiptast má á að deila uppáhaldslögum um leið og maður kynnist viðkomandi betur. Þegar mig skortir orð, sem gerist ekki oft eins og vinir mínir vita, nota ég oft tónlistina til að tjá mig. Sendi kveðjur með lagi af YouTube, tjái ást, væntumþykju og söknuð með tónlist. Enn hef ég hins vegar ekki notað hana til að tjá hatur eða aðrar neikvæðar tilfinningar.

Tónlistin fylgir mér í gegnum lífið eins og einn af mínum bestu vinum, hún er með mér í blíðu og stríðu, með mér einni eða í margmenni. Tónlistin bregst mér aldrei, en ef hún er leiðinleg þá er minnsta mál að skipta um lag. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er tónlist það sem tilfinningar hljóma.

Ragna Gestsdóttir.

13528461_10154035192019584_2133526485564353170_o

Related Posts