Tom Hardy (37) tekur við hlutverki Mad Max af Mel Gibson (59):

Ástralska dystópían Mad Max sló í gegn 1979, gerði Mel Gibson að alþjóðlegri stjörnu og kom ástralskri kvikmyndagerð á heimskortið. Mad Max gat af sér tvær framhaldsmyndir og nú hefur Max verið sparkað í gang á ný með Mad Max: Fury Road. Gibson er fjarri góðu gamni og töffarinn Tom Hardy hefur tekið við leðurjakkanum og haglaranum hans Max. Nýja myndin hefur gert stormandi lukku og fengið frábæra dóma þannig að þegar er byrjað að leggja drög að næstu mynd, Mad Max: The Wasteland.

George Miller leikstýrir öllum Mad Max-myndunum fjórum. Hann hitti beint í mark með fyrstu myndinni sem gerði stormandi lukku í miðasölunni þannig að óhjákvæmilegt var að halda áfram að mjólka. Mad Max 2: The Road Warrior kom 1982 og gaf fyrri myndinni ekkert eftir og áhorfendur sem og gagnrýnendur tóku henni fagnandi. Max förlaðist síðan nokkuð í Mad Max Beyond Thunderdome 1985, þar sem Miller trommaði með söngkonuna Tinu Turner í stóru hlutverki á móti Gibson.

NÝI MAX: Erkitöffarinn Tom Hardy hefur blásið lífi í Brjálaða Max á nýjan leik.

NÝI MAX: Erkitöffarinn Tom Hardy hefur blásið lífi í Brjálaða Max á nýjan leik.

Mad Max sagði frá lögreglumanninum Max Rockatansky sem reyndi að halda uppi lögum og reglu í auðnum Ástralíu framtíðarinnar þar sem siðmenningin var á hröðu undanhaldi í kjölfar alvarlegrar orkukreppu. Eldsneyti er þarna dýrmætara en mannslíf og ruddaleg mótorhjólagengi þeysa um auðnina, herja á hrjáðan almúgann og ræna öllu lauslegu og að sjálfsögðu fyrst og fremst eldsneyti.

Ástandið er það slæmt að Max og félaga hans, Goose, er uppálagt að beita öllum tiltækum ráðum til þess að hafa hemil á gengjunum svo lengi sem allt lítur vel út á pappírum. Þegar sturlaðir vélhjólatuddar hálfdrepa Goose gengur Max nánast af göflunum og ákveður að hætta í löggunni. Hann reynir að lifa rólegu lífi ásamt eiginkonu og ungum syni en þegar frúin og barnið lenda illilega í fautunum fer hann endanlega yfir um, skellir sér í lögguleðurjakkann á ný, grípur afsöguðu haglabyssuna sína og gengur milli bols og höfuðs á skrílnum … og beitir engum vettlingatökum.

Miller lagði mikið upp úr því að fá óþekkta leikara í Mad Max og Gibson hafði aðeins leikið í einni mynd áður, Summer City frá 1977. Hann fylgdi félaga sínum, Steve Bisley, í áheyrnarprufur fyrir myndina. Bisley hreppti hlutverk Goose en Gibson, sem leit ákaflega illa út eftir drykkjuslagsmál á bar kvöldinu áður, var beðin um að koma aftur eftir tvær vikur þar sem það myndi örugglega vanta einhver „frík“ í myndina. Þarna var hann kjálkabrotinn með bólgið nef, allur marinn og blár. Þegar hann kom aftur var hann nánast óþekkjanlegur og þessi þá fjallmyndarlegi ungi maður fékk aðalhlutverkið.

Við tók glæsilegur ferill Gibsons sem leikara og síðar leikstjóra en hann sturtaði því öllu niður í seinni tíð, sturlaður af drykkju, gyðingahatri og ruddaskap við barnsmóður sína. Tom Hardy er einn allra svalasti gæinn í Hollywood í dag og verðugur arftaki hins unga Gibsons sem Mad Max og fari allt eins og reiknað er með eigum við eftir að sjá meira af óðum Hardy í auðnum Ástralíu.

Related Posts