eirÞað er annað að leggja kapal við eldhúsborðið með spilastokk en í tölvu – eða síma þess vegna.

Í tölvunni yfirsjást augljósir leikir sem liggja í augum uppi séu spilin á hendi – í orðsins fyllstu merkingu. Þetta er spurning um sjónskynjun.

Á einhvern hátt glepur tölvusýnin, líklega hraðinn og möguleikinn á að leiðrétta eftirá skjótvirkt en það er alveg bannað með spilastokkinn.

Þegar heil kynslóð veit ekki hvað spilastokkur er og varla heldur hvað eldhúsborð er má búast við að kapallinn gangi seint upp.

Arngrímur Jóhannsson flugstjóri sagði að flugfélagið Atlanta hefði verið stofnað við eldhúsborðið hjá þeim Þóru sem þá var eiginkona hans.

Arngrímur og Þóra hefðu aldrei stofnað flugfélag í tölvu.

Né heldur Jóhann Páll Valdimarsson bókaútgefandi sem aldrei segist hafa reiknað út útgáfukostnað né væntanlega sölu í Exel-skjali fyrir fram því þá hefði hann aldrei gefið út neina bók.

Þotur Atlanta fljúga enn og Jóhann Páll malar gull á bókum sem hann hefur aldrei reiknað út.

Þegar svo heil kynslóð, og bráðum tvær, týna sér í tölvulæsi má búast við að þeim muni yfirsjást eitthvað og kannski það sem skiptir máli svo kapallinn gangi upp.

Því væri kannski ráð að fólk tæki upp hjá sér að vera með tölvulausa fimmtudaga líkt og Ríkissjónvarpið var með til að byrja með. Svo fólk gæti hvílt sig á nýjunginni.

Slíkir fimmtudagar við eldhúsborðið gætu gert lífið skemmtilegra fyrir komandi kynslóðir.

Því kapallinn verður að ganga upp hvað sem hver segir – að lokum.

 

Eiríkur Jónsson

 

Related Posts