_MG_6497Heimasíðurnar sem ég heimsæki á mínum daglega netrúnti innihalda misgáfulegar greinar sem fjalla um allt milli himins og jarðar.

Heiti greinanna innihalda yfirleitt tölu yfir ráð sem fá mann til að ná ákveðnu markmiði. Ég skal nefna nokkur dæmi: Tíu leiðir til að vakna hamingjusamari, fimm ráð til að losna við streituvalda og níu ráð til að fá sem mest út úr lífinu. Ég er búin að átta mig á því að tölurnar í fyrirsögnunum eru ótrúlega sniðugar því þá fæ ég að vita að ég þarf einungs að fylgja þessum fáu og einföldu ráðum, þá næ ég markmiðinu sem felur yfirleitt í sér meiri hamingju og betra líf, sem sagt „klikk-segull“.

Ég veit ekki með ykkur en það eru engar ákveðnar tíu leiðir sem fá mig til að vakna hamingjusamari. Það sem gerir mig hamingjusama á morgnanna eru eggin sem kærastinn minn gerir og kaffið mitt.
Ráð til að losna við streituvalda. Lesturinn við að lesa ráðin gera mig stressaðri heldur en ef ég hefði bara sleppt því að lesa þessa heimskulegu grein.
Þessi níu ráð til að fá sem mest út úr lífinu hjálpuðu mér voða lítið. Ég fæ sem mest út úr lífinu með að umgangast fólkið sem ég elska en ekki með hálftíma göngutúrum með fram ströndinni og sítrónuvatni á morgnanna.

Ég held samt áfram að lesa þessar síður og fer eftir ráðunum en ég veit líka að hvorki hugleiðsla á morgnanna né uppáhaldsilmkertið mitt færir mér morgunhamingjuna heldur einn rótsterkur kaffibolli og fegurð hversdagsleikans sem endurspeglast í eggjum kærastans.

Related Posts