SH1503269472_006

SKEMMTILEGASTA SEM ÉG GERI: „Oft er ég þreytt eftir daginn en þegar ég labba inn í stúdíóið kemur orkan um leið, að kenna jóga er það skemmtilegasta sem ég geri.“

Drífa Atladóttir (33) ræktar andann með stæl:

Drífa er uppeldis- og menntunarfræðingur. Hún er eigandi jógastöðvarinnar Jógastúdíó sem er hlýleg og notaleg stöð. Fyrir utan að vera á fullu að kenna jóga er hún verslunarstjóri hjá GK Reykjavík og Suit.

Fallegir hlutir „Við vorum þrjár saman í jógakennaranámi og vorum allar að stefna á það sama, sem var að okkur langaði til að kenna jóga í húsnæði þar sem væri bara jóga en ekki í líkamsræktarstöðvum. Okkar hugmynd var að byrja með lítið og krúttlegt jógastúdíó þar sem fólk gæti verið eins og heima hjá sér. Við enduðum tvær á að fara alla leið og opna stúdíó,“ segir Drífa.

Hún og Ágústa Kolbrún Jónsdóttir byrjuðu með Jógastúdíóið á Seljaveginum. Í fyrra ákvað síðan Ágústa að venda kvæði sínu í kross og fór á nýjar slóðir. Núna er Drífa ein með stúdíóið og það er staðsett í Ánanaustum.

Tískan og andinn

„Mér líður betur að stunda jóga í jógastúdíóum en í líkamsræktarstöðum þar sem litið er meira á jóga sem líkamsrækt. Hérna beinum við athyglinni að huganum, sálinni og líkamanum. Í stúdíóinu eru færri í hverjum tíma og þar af leiðandi þekki ég fólkið og veit meira hvað það vill. Ég næ að sníða tímann oft að fólkinu sem kemur hverju sinni.“
Fyrir utan að vera jógakennari og reka sína eigin jógastöð er Drífa verslunarstjóri hjá GK Reykjavík. Drífa segir að störfin tvö séu ólík en lík á sama tíma. „Ég er á báðum stöðum að vinna með fólki. Í GK finnst mér gaman að taka á móti fólki og hjálpa því að velja föt sem hentar – það getur fært fólki mikla ánægju og vellíðan. Þegar ég kem síðan í jógatíma til að kenna þá dett ég að sjálfsögðu í allt annan gír en samt með sama markmið – að láta fólki líða vel.“

Bara einn kjóll

Þó Drífa sé að vinna allan daginn þá segir hún aldrei erfitt að kúpla sig út úr tískunni og inn í jógafræðin. „Ég er „jógandi“ allan daginn í hausnum. Um leið og ég labba inn í stúdíóið þá finnst mér ég vera komin heim. Oft er ég þreytt eftir daginn en þegar ég labba inn í stúdíóið þá kemur orkan um leið, að kenna jóga er það skemmtilegasta sem ég geri.“

Í jógafræðunum er mikið um að fólki sé kennd nægjusemi og er því oft haldið fram að fegurðin liggi í hófsemi. „Í einni jógabók stóð að konur þyrftu bara að eiga einn kjól. Ég á aðeins fleiri en einn,“ segir Drífa og hlær. „Þó að tískan sé áhugamál mitt og mér finnist gaman að vera umkringd fallegum fötum þá tel ég mig var nægjusama, ég myndi segja að ég væri fagurkeri þar sem ég elska að vera umkringd fallegum hlutum.

Jóga fyrir alla

Aðspurð hvort jóga henti öllum stendur ekki á svörum hjá Drífu. „Svarið við þessari spurningu er einfalt: Já! Það er bara málið að finna það rétta fyrir sig. Íslendingar eru stressuð þjóð, við vinnum mikið og það er alltaf mikið í gangi hjá okkur. Við höfum gott af því að komu okkur úr dagsins amstri og á jógadýnuna. Það er gott að læra á líkamann og kíkja aðeins inn á við og kynnast sér þannig betur.“

 

SH1503269472_002

ALLIR Í JÓGA: Drífa segir að allir hafi gott af því að skella sér í jógatíma. Þá sérstaklega Íslendingar þar sem við erum stressuð þjóð með allt of mikið á okkar könnu.

SH1503269472_001

NÆGJUSÖM: „Þó að tískan sé áhugamál mitt og mér finnist gaman að vera umkringd fallegum fötum þá tel ég mig var nægjusama, ég myndi segja að ég væri fagurkeri þar sem ég elska að vera umkringd fallegum hlutum.“

SH1503269472_003

FÆRRI Í TÍMA: „Hérna beinum við athyglinni að huganum, sálinni og líkamanum. Í stúdíóinu eru færri í hverjum tíma og þar af leiðandi þekki ég fólkið og veit meira hvað það vill.“

SH1503269472_007

NÓG AÐ GERA: Fyrir utan að kenna jóga og eiga jógastúdíó er Drífa verslunarstjóri hjá GK Reykjavík og Suit.

MYNDIR: HÁKON DAVÍÐ BJÖRNSSON / ÚR SAFNI

Related Posts