Kvikmyndir – heimildarmyndir um tísku:

Tíska er dularfullur og oft stórskrýtinn bransi svo það kemur ekki að óvart að hann sé reglulega viðfangsefniheimildarmyndagerðarfólks. Heimildamyndir um tísku, hvort sem þær fjalla um fræga hönnuði, tiltekin tímarit eða um fyrirsætubransann, gefa okkur venjulega fólkinu tækifæri til að gægjast bak við tískutjöldin og sjá að hlutirnir eru ekki alltaf eins glamúrlegir og við höldum.

kvikmyndir, tískuheimildarmyndir

METNAÐUR: Diana Vreeland var  ritstýra bandaríska Vogue um margra ára bil þar sem hún setti saman stefnur og strauma sem standa enn.

Diana Vreeland: The Eye has to Travel

Diana Vreeland átti að margra mati stóran þátt í að móta tískuheiminn eins og við þekkjum hann í dag. Hún var fædd og uppalin í Frakklandi en flutti ásamt foreldrum sínum til New York þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út í Evrópu. Það var þó ekki fyrr en hún flutti til London að ferill hennar í tískublaðamennsku hófst þegar að hún byrjaði að vinna fyrir Harper’s Bazaar. Hún var einnig ritstýra bandaríska Vogue um margra ára bil þar sem hún setti saman stefnur og strauma sem standa enn. Þessi heimildamynd er leikstýrð af Lisu Immordino Vreeland sem er gift barnabarni Vreeland en öðlaðist samt aldrei þann heiður að hitta Diönu. Hana langaði að vekja athygli á þessari stórkostlegu konu og setja saman mynd um hennar persónulega líf og mörg hennar virtu verkefni. Myndin hlaut viðurkenninguna, Tískuhönnun ársins, frá hinu virta Design Museum í London.

kvikmyndir, tískuheimildarmyndir

STÓRT: September tölublað Vogue er alltaf það stærsta og safaríkasta á árinu.

The September Issue

Á hverju ára bíða milljónir manna um allan heim spenntir eftir því að komast yfir september tölublað Vogue sem er alltaf það stærsta og safaríkasta á árinu. Heimildamyndin The September Issue fjallar um tímabilið sem fór í að vinna 2007 útgáfuna en hún vó tíu kíló og var stærsta tímarit allra tíma; það náði til þrettán milljóna manna og hafði afgerandi áhrif á tískuiðnaðinn. Hér er á ferðinni skemmtileg heimildamynd um hina goðsagnakenndu Önnu Wintour, ritstjóra Vogue, sem hefur drottnað yfir tískuheiminum síðastliðin tuttugu ár. Myndin veitir áhorfendum óheftan aðgang að Wintour og litríku starfsliði hennar og skyggnist bak við tjöldin inn í heim sem á sér engan líka.

kvikmyndir, tískuheimildarmyndir

LENGI AÐ: Bill Cunningham hefur tekið tískumyndir fyrir The New York Times í um hálfa öld

Bill Cunningham

Í dag eru óteljandi tískublogg og síður tímarita helguð svokallaðri götutísku; því sem almenningur klæðist dagsdaglega. Götutískuljósmyndun á sér langa sögu en einn af frumkvöðlum hennar er Bill Cunningham sem hefur tekið tískumyndir fyrir The New York Times í um hálfa öld. Í dag er Cunningham kominn á áttræðisaldur en ferðast enn þá um New York á reiðhjóli og myndar fólk í flottum flíkum. Heimildamyndin Bill Cunningham New York frá árinu 2011 leyfir okkur að skyggnast inn í fábrotið líf manns sem virðist lifa fyrir listina. Hann myndar jafnt ríkar tískudrósir sem furðufugla borgarinnar, frægð og fjár hefur ekkert með stíl að gera að hans mati. Inn í myndina blandast síðan frásagnir ýmissa vina og samstarfsmanna hans sem allir bera mikla virðingu fyrir honum, en Anna Wintour sjálf segir á einum tímapunkti: „Við klæðum okkur öll fyrir Bill.“

kvikmyndir, tískuheimildarmyndir

VEL GERÐ: Heimildamyndin Chasing Beauty veitir óviðjafnanlega innsýn í hinn flókna heim fyrirsætubransans.

Chasing Beauty

Heimildamyndin Chasing Beauty veitir óviðjafnanlega innsýn í hinn flókna heim fyrirsætubransans. Við fáum að sjá hvað liggur að baki forsíðum glanstímarita á borð við Vogue og Glamour og heyrum átakanlegar sögur um þær fórnir sem fyrirsætur færa til að komast á forsíðurnar eða tískupallana; hvernig þær eltast við nær ómöguleg stærðarviðmið, þann fjárhags- og tilfinningalega toll sem fylgir þessum heimi og hvernig þær takast á við stöðuga gagnrýni og höfnun. Í myndinni er leitast við að svara spurningunni: Hvað er fegurð og er hún raunverulega þess virði? Jafnframt skoðar myndin hvernig þessi fegurðarbransi hefur áhrif á á sjálfsímynd ungs fólks. Meðal annars er rætt við ofurfyrirsætur, ljósmyndara, umboðsmenn, hönnuði, förðunarfræðinga og sálfræðinga.

 

Umsjón: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts