Alex Michael Green (24) heldur úti herratrend.is ásamt vinum sínum:

 

Alex Michael stundar nám á sérsviði í grafískri miðlun í Tækniskólanum í Reykjavík. Einn dag fékk hann það verkefni að koma með hugmynd að vefsíðu og þá byrjaði boltinn að rúlla.

 

trends

Flottir „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tísku og útliti og öllu sem því tengist. Þegar ég fór af stað í þetta verkefni var engin síða í boði sem hentaði strákum með svipuð áhugamál og ég, fyrir utan síðuna hans Helga Ómars,“ segir Alex en hann, ásamt sex vinum sínum, fór nýlega af stað með nýja netsíðu sem fjallar um áhugamál þeirra félaga, tísku.

„Á síðunni fjöllum við að sjálfsögðu um tísku en einnig fleira eins og tónlist, tattó, tölvuleiki og djammið. Við fórum inn í þetta verkefni með eitt sameiginlegt, að okkur fannst vanta slíka síðu fyrir íslenska herramenn og lögðum allir af stað í verkefnið af miklum metnaði,“ segir Alex.

Hugmyndin kom fyrst þegar Alex fékk verkefni í Tækniskólanum að koma með hugmynd að vefsíðu. „Ég hafði lengi velt því fyrir mér að það vantaði heimasíðu sem væri með tísku fyrir karlmenn sem aðaláherslu og þegar ég fékk síðan verkefnið í hendurnar þá hugsaði ég með sjálfum mér: Af hverju geri ég þetta ekki bara sjálfur? Eitt leiddi af öðru og áður en ég vissi af voru sex aðrir strákar komnir inn í þetta með mér. Við erum allir vel að okkur þegar kemur að tísku og allir með reynslu þegar kemur að þessum bransa. Við erum þó allir með mismunandi styrkleika sem kemur vel út fyrir síðuna.“

Alex segir að margt sé búið að breytast  þegar kemur að herratísku á Íslandi. „Það er allt á uppleið. Yngri kynslóðin er ekki hrædd við að taka áhættu og fara sínar eigin leiðir. Þetta er frekar nýtt því það er ekki svo langt síðan að það var horft niður á stráka sem pældu í tísku og þeir um leið dæmdir.“

Það sannaði sig fljótt að þetta verkefni átti upp á pallborðið hjá íslenskum strákum þegar síðan opnaði því viðbrögðin fóru fram úr öllum væntingum hjá strákunum. „Við vissum að fólk væri til í þetta þar sem þetta vantaði en gerðum ekki ráð fyrir að fólk myndi bregðast svona jákvætt við. Við erum búnir að taka eftir miklum umræðum sem eru í gangi um síðuna og fólk er að taka vel í þetta. Við erum alveg í skýjunum með viðtökurnar,“ segir Alex og brosir.

 

Related Posts