Unnsteinn Manuel (24) og Katrín Ásmundsdóttir (22):

 

Hæpið er nýr þáttur fyrir ungt fólk sem hefur hafið göngu sína á RÚV. Þátturinn er í umsjá Unnsteins og Katrínar. Þátturinn er brakandi ferskur og kemur sér beint að efninu – ekkert kjaftæði.

Ferskt Þetta eru hálftíma langir heimildarþættir fyrir ungt fólk þar sem eitt efni er tekið fyrir hverju sinni og gerð góð skil,“ segir Unnsteinn Manuel, annar stjórnenda þáttanna Hæpið á RÚV.

SH-1440-15-22305 SH-1440-15-22305

Tæknivædd rómantík

Fyrsti þátturinn ber yfirskriftina rómantík þar sem ungt fólk tjáir sig um þetta síbreytilega fyrirbæri. Unnsteinn og Katrín segja það hafa verið ótrúlega auðvelt að fá viðmælendur í þáttinn. „Í fyrsta þættinum fjölluðum við meðal annars um deitmenninguna á Íslandi. Við fórum í heita pottinn í Vesturbæjarlauginni og fengum hresst ungt fólk til að ræða um þessa hluti við okkur. Þetta gekk ótrúlega vel og það var ekkert feimið við það að tjá sig,“ segir Katrín.

Horfa saman

Að sögn Katrínar og Unnsteins eru sjónvarpsvenjur ungs fólks búnar að breytast mikið. „Ungt fólk í dag er ekki eins og áður að setjast fyrir framan sjónvarpið klukkan átta á miðvikudegi og horfa á einhvern ákveðinn þátt. Við erum meira í því að sækja okkur efnið, eins og að „dánlóda“ þáttum og horfa síðan á þá þegar okkur sýnist,“ segir Katrín og Unnsteinn tekur í sama streng. „Það væri langskemmtilegast ef fólk myndi koma saman og horfa á þáttinn þegar hann er á dagskrá í Sjónvarpinu en við gerum okkur grein fyrir því að við verðum að hafa þetta aðgengilegt á Netinu.“

Skemmtileg stefnumótamenning

Katrín og Unnsteinn segja að það sé langt í frá að rómantíkin sé dauð á Íslandi. „Þegar við vorum að tala við krakkana þá sáum við að rómantíkin er að aukast, ef eitthvað er, með tilkomu snjallsímaforrita eins og Tinder. Tinder er stefnumóta-app sem hefur slegið í gegn og fjöldi fólks hefur farið á stefnumót eftir að hafa kynnst á Tinder,“ segir Unnsteinn.

Sagði já

Unnsteinn og Katrín kynntust þegar þau voru í MH og hafði Unnsteinn síðan samband við Katrínu þegar þátturinn var kominn á teikniborðið á RÚV. „Ég hef verið með útvarpsþætti á X-inu, ásamt frænku minni, sem kallast Kynlegir kvistar. Þegar Unnsteinn hafði síðan samband við mig og spurði hvort ég væri ekki til í að vera partur af skemmtilegum þætti fyrir ungt fólk þá var ég ekki lengi að segja já,“ segir Katrín og brosir.

Með allt á hreinu

Sjónvarpskonan Ragnhildur Steinunn ritstýrir þættinum og segja krakkarnir það hafa verið afar skemmtilegt að vinna með svona reynslubolta eins og Ragnhildi. „Hún er með allt á hreinu. Hún veit alveg hvað virkar og hvað virkar ekki og kemur með skotheld rök fyrir öllu,“ segir Unnsteinn.

 

Related Posts