Otti Rafn Sigmarsson (31) helgar björgunarsveit krafta sína:

Fjöldi einstaklinga á öllum aldri og af báðum kynjum helgar starfskrafta sína og frítíma sjálfboðaliðastörfum hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Einn þeirra er Otti Rafn Sigmarsson sem er varaformaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík en hann byrjaði í unglingadeildinni þegar hann var 14 ára. Árið 2013 var hann valinn  Grindvíkingur ársins fyrir frábært og óeigingjarnt starf fyrir unglingadeildina Hafbjörgu. Hann kynntist unnustunni, Önnu Karen Sigurjónsdóttur, í starfinu og sonur þeirra sjö ára er farinn að mæta með föður sínum í ferðir unglingadeildarinnar.

Ævistarf „Mér fannst erfitt að fara í unglingadeildina Hafbjörgu á sínum tíma af því að vinir mínir fóru ekki þangað,“ segir Otti. „En ég hafði svo mikinn áhuga á þessu að ég ákvað að láta slag standa.“ Otti, sem byrjaði í deildinni 14 ára, kynntist hins vegar öðrum þar og hefur starfað óslitið fyrir hana síðan. Faðir Otta, Sigmar Edvardsson, var í björgunarsveitinni Þorbirni og ólst Otti því upp við starfið, líkt og börn hans, Markús Daði, sjö ára, og Harpa Marín, þriggja ára, gera í dag.

mynd 4(af fb)

FJÖLSKYLDAN: Otti og unnustan, Anna Karen Sigurjónsdóttir, ásamt börnunum, Markúsi Daða og Hörpu Marín, við Nýjafoss síðastliðið sumar.

„Unglingadeildir eru að hluta til uppvaxtarstöðvar fyrir ungt björgunarsveitafólk og getur fólk kynnst starfinu þar. Það eru ekki allir sem hafa áhuga á að starfa í björgunarsveit, þó að þeir vilji starfa í unglingadeild,“ segir Otti. Sautján ára var hann farinn að sjá um unglingadeildina, um leið og hann gekk í Björgunarsveitina Þorbjörn, og tvítugur gekk hann fyrst inn í stjórn hennar þar sem hann hefur gegnt hinum ýmsu störfum síðan. Í dag er hann varaformaður en hann var ritari stjórnar í mörg ár, formaður landflokks sem og formaður bílaflokks. „Við Bogi Adolfsson formaður eigum mjög gott samstarf og við skiptum með okkur verkum. Við störfum í raun sem einn maður,“ segir Otti. „Tölum okkur vel saman og höldum þessu gangandi.“

mynd 5

FLOTTIR FEÐGAR Á FIMMVÖRÐUHÁLSI: Otti og Markús Daði gengu Fimmvörðuhálsinn fyrir tveimur árum síðan, þá var Markús Daði fimm ára.

Allur aukatími fer í unglingastarfið
Otti hefur alltaf viðhaldið þekkingu sinni, einfaldlega svo hann staðni ekki, og hefur jafnframt haft löngun til að mennta sig meira. Hann hefur hins vegar enn ekki látið verða af því, heldur hefur gefið Hafbjörgu allan sinn frítíma. „Allur aukatími sem maður hefði getað eytt í námskeið og slíkt tengt björgunarsveitunum fer í unglingastarfið,“ segir Otti. „Það fer mikil orka í að hugsa um unglingastarfið, sem er kannski ástæðan fyrir því að það gengur vel.“

mynd 2

HUGMYND VERÐUR AÐ VERULEIKA: Otti gekk með það í höfðinu í nokkur ár að halda landsmót unglingadeilda. Það varð að veruleika sumarið 2015 þegar 500 manns mættu til Grindavíkur. Otti var mótsstjóri og er hér með stórum hluta þátttakenda.

mynd 3(af fb)

GRINDVÍKINGUR ÁRSINS: Bryndís Gunnlaugsdóttir, formaður bæjarstjórnar Grindavíkur, sæmir Otta nafnbótinni Grindvíkingur ársins fyrir gríðarlega mikið og óeigingjarnt sjálboðastarf á sviði unglingamála undangengin tíu ár.

Starfið er margþætt
Það er margt sem fylgir því að vera í og reka björgunarsveit, bæði stórir og smærri þættir.Það þarf að mennta sig, safna peningum, hugsa um peningana, kaupa búnað, hugsa um búnaðinn,“ segir Otti. „Síðan eigum við húsnæði, bíla og báta og þurfum að reka það.

Mikilvægast af öllu er samt félagsstarfið, því ef þú ert ekki með félaga í sveitinni þá er ekkert starf þar,“ segir Otti. „Það skiptir engu máli hversu góð tæki þú átt eða hversu marga styrki þú færð, ef þú ert ekki með fólk til að nota tækin, þá er engin björgunarsveit, þá virkar þetta ekki. Þetta er ekki flókin uppskrift.“

Í Björgunarsveitinni Þorbirni eru í dag tæplega 60 manns á útkallsskrá. Á síðasta ári mættu 45 þeirra í útköll. „Kjarninn er 25-30 manns en það er misjafnt eftir gerð og eðli útkalla hversu margir mæta,“ segir Otti.

mynd 6

FÉLAGARNIR: Otti og félagar hans í Björgunarsveitinni Þorbirni á landsæfingu í Eyjafirði síðastliðið haust.

Af hverju að starfa í björgunarsveit?
Hvað er það sem gerir sjálfboðastarf í björgunarsveit áhugavert? Af hverju ætti fólk að helga tíma sinn slíku starfi? Samkvæmt Otta er ekki til einfalt svar við því. „Þetta er fyrst og fremst gott félagsstarf. Fyrir þá sem eru hrifnir af ævintýramennsku, þá býður starfið upp á hana að hluta. En þú þarft samt ekki endilega að vera í framlínunni eða fara í útkall þegar þú ert í björgunarsveit,“ segir Otti.

Otti segir starf í björgunarsveit fyrst og fremst frábært félagsstarf, það er góður félagsskapur sem býður upp á mikla reynslu. „Það er síðan þessi tilfinning þegar þú ert í útkalli eða búinn að fara í útkall og sérð árangur af því sem þú ert að gera,“ segir hann. „Lítil útköll, bara eins og að fara og losa fastan bíl og fá þakkir fyrir, eru ótrúlega gefandi. Stærri útköll þar sem að fólk kemur og þakkar manni fyrir og faðmar mann. Þessi tilfinning sem maður fær gerir þetta allt þess virði, réttlætir allan þennan tíma. Tilfinningin þegar mannslífi er bjargað gefur síðan helling. Vissulega getur þetta verið þveröfugt og að fólk þoli ekki álagið en þá er það þessi keðja sem virkar.“

Mynd 7

VÍGALEGUR Í VETRARFERÐ: Otti í snjóbíl Björgunarsveitarinnar Dalvík í sameiginlegri vetrarferð unglingadeilda í Skíðadal vorið 2014.

Hvaða útköll eru eftirminnilegust?
„Útkallið í Sveinsgil nú í júlí er efst í minninu, það er það svakalegasta sem ég hef lent í,“ segir Otti. „Einnig þegar flutningaskipið Wilson Mugga strandaði í Sandgerði 2006 en þá voru menn ekki búnir að átta sig á hvað skipið var nálægt fjörunni.“ Björgunarsveitin Þorbjörn var send niður í fjöru til að hægt væri að átta sig á hvar skipið væri staðsett. „Og ég stóð nánast alveg upp við skipið og kallaði í talstöðina: „Ég er að horfa á það fyrir framan mig.“ Aðgerðin breyttist úr strandi í að vera leit þegar skipverjar af danska varðskipinu Triton, sem kom til aðstoðar, lentu í sjónum. „Það situr alltaf í mér að við fundum manninn sem við vorum að leita að, gátum staðsett hann en náðum ekki til hans. Hann rak síðan frá okkur, en það þurfti þyrlu á svæðið sem fann hann svo. Á þessum tíma vissum við ekki hvort hann væri lífs eða liðinn.“

Þessi útköll og öll útköll á heimasvæði Otta eru honum ofarlega í minni. Hann nefnir sem dæmi að 2008 snjóaði gríðarlega í Grindavík og voru björgunarsveitarmenn að keyra í sömu línu og þakkantar á húsunum. Þeir byrjuðu snemma að ferja fólk til og frá vinnu og síðar um daginn hófu þeir að athuga með eldra fólk sem snjóað hafði inni.

Rifjar Otti upp skemmtilega sögu um eldri hjón sem sögðu nú að lítið amaði að hjá þeim, þau gætu opnað glugga, en eftir fyrirspurn um hvort þau vanhagaði um eitthvað voru Otta réttar þúsund krónur út um eldhúsgluggann, hvort hann gæti keypt einn sígarettupakka og kannski eina mjólk líka. Þá væru eldri hjónin góð. Stuttu síðar kom símtal frá ungum krökkum sem höfðu fest bílinn fyrir utan Grindavík og gengu í slæmu skyggni til að komast í símasamband og láta vita af sér. Síðan náðist ekki í þau aftur og því ekki vitað hvort þau væru heil á húfi eða ekki. Hins vegar höfðu þau ratað í bílinn aftur og varð ekki meint af þessu. „Við þessar aðstæður kom upp spurningin hjá okkur, af hverju eigum við ekki snjóbíl?“ segir Otti.

„Það er borin mikil virðing fyrir því sem við gerum. Hvort sem það eru vinnuveitendur, lögreglan, landhelgisgæslan eða fólk sem við hittum á leiðinni þangað sem við erum að fara,“ segir Otti. „Það er mikill stuðningur að njóta virðingar í starfi, það skilar sér í betra starfi til okkar sem skilar sér betur til allra hinna sem koma svo kannski að kaupa flugelda, að kaupa neyðarkallinn og svo framvegis.“
Þeir sem byrja í starfinu endast yfirleitt í því. En stundum gerist það að fólk flytur, eignast maka eða byrjar í námi og hefur ekki jafnmikinn tíma og áður. Þetta er sjálfboðastarf og fólk stýrir því hvað það leggur af mörkum og er það vel þegið.

„Það skipta allir máli í þessu starfi, hvort sem það er að hella upp á könnuna, sjá um bókhaldið eða annað. Allar hendur eru vel þegnar, það er bara þannig,“ segir Otti.

mynd 1

LOKIÐ VIÐ LAUGAVEGINN: Feðgarnir koma gangandi yfir Þröngá eftir að hafa gengið Laugaveginn síðastliðið sumar, Markús Daði er sex ára.

Lestu Séð og Heyrt alla daga.

 

 

 

 

 

 

 

 

Related Posts