Hugh Laurie þekkja margir sem fúllynda lækninn House sem hann lék um árabil. Í gegnum leikferil sinn hefur hann komið víða við beggja vegna Atlantshafsins. Hann hefur unnið mikið með einum besta vini sínum Stephen Fry og verið bæði í drama og gamanleikjum.

 

Hugh er yngstur af fjórum systkinum; hann fæddist inn í ágætlega efnaða fjölskyldu og var sendur í Eton College eftir grunnskólann. Þar á eftir fór hann til Camebridge þar sem hann lærði forleifa- og mannfræði með áherslu á samfélagsfornleifafræði.

Þegar hann var í Eton varð hann mjög virkur í róðraliði skólans og vann til margra verðlauna. Hann átti ekki langt að sækja hæfileika sína í róðri þar sem faðir hans vann gullverðlaun í keppnisróðri fyrir Bretlands hönd á Ólympíuleikunum 1948. Hann ætlaði sér alltaf að taka mikinn þátt í róðrinum í Cambridge en á fyrsta ári veiktist hann sem gerði það að verkum að hann varð að draga sig í hlé úr keppnum. Á meðan hann var að jafna sig komst hann í tæri við leiklistina. Hann varð meðlimur í Footlights-klúbbnum sem er þekktur meðal grunnnema í háskólanum sem einn besti grínklúbburinn. Síðasta ár hans í skólanum var hann kosinn klúbbforseti og var vinkona hans og annar meðlimur klúbbsins, Emma Thompson, varaforseti.

Á lokaári námsins er hefð fyrir því að meðlimir klúbbsins fari með verk sitt í ferðalag á milli borga. Var það á þessu ferðalagi sem hann hitti Stephen Fry í gegnum Emmu Thompson. Saman unnu þau örþætti („sketsa“) sem þau sýndu á Edinborgarhátíðinni 1981. Þau unnu til verðlauna þar, sem gerði þeim kleift að ferðast meira um England og fóru þau svo á endanum til Ástralíu.

Árið 1983 byrjuðu Hugh, Stephen Fry, Emma Thompson, Robert Coltraine og Ben Elton með örþáttagrínþátt í bresku sjónvarpi sem gerði hann ágætlega frægan. Út frá því fékk hann svo hlutverk í Rowan Atkinson-þáttunum Blackadder ásamt Stephen Fry. Hann var í þeim milli 1986-1989 með hléum og eru þeir af mörgum taldir einu bestu bresku gamanþættirnir sem gefnir hafa verið út. Eftir það var hann meðal annars í Jeeves and Wooster með Stephen Fry og svo í grínþáttunum A bit of Fry and Laurie í nokkur ár.

Hann lék mikið með vinum sínum Fry og Thompson fyrstu ár sín í bransanum. Ein fyrsta kvikmyndin sem hann lék í var Vinir Peters, með Thompson, Kenneth Branagh og Ritu Rudner. Seinna meir lék hann í mynd Thompson Vonum og væntingum og hann var einnig í 101 Dalmatíuhundum. Árið 1999 lék hann föður Stuarts í Stuart litla og í Stuart litla 2, árið 2002. Árið 2004 tók hann svo við hlutverki sem langflestir þekkja hann fyrir, það er sem læknirinn House í samnefndum þáttum. Fólki hefur þótt bandaríski hreimur hans afbragðsgóður og margir áttuðu sig ekki á því lengi vel að aðalleikarinn var Englendingur en ekki Bandaríkjamaður.

 

Einkalífið

Mirrorpix

Hugh Laurie sem Bertie Wooster og Stephen Fry sem einkaþjónninn Jeeves.

Hugh hefur verið giftur sömu konunni, Jo Green, síðan 1989. Hún er leikhússtjóri og búa þau ásamt börnunum sínum þremur, Charlie, Bill og Rebeccu í Norður-London. Árið 2008 var ætlunin að flytja alla fjölskylduna til Los Angeles vegna þeirrar áreynslu sem það var fyrir sambandið að vera í sitthvorri heimsálfunni. Það fór þó svo að þau hættu við. Stephen Fry er mikill fjölskylduvinur og var hann svaramaður Hughs þegar hann giftist, hann er einnig guðfaðir barna þeirra hjóna og þau eyða jólunum reglulega öll saman. Sama ár og Hughs gifti sig, dó móðir hans úr hreyfitaugasjúkdómi eftir margra mánaða legu. Hugh sagði að hún hefði kvalist mikið en faðir hans sá um hana síðustu mánuðina.

Hann hefur stundum sagt í mismiklu gríni að House sé líkastur honum af þeim karakterum sem hann hefur leikið. Í Inside the Actors Studio árið 2006 ræddi hann opinskátt um alvarlegt þunglyndi sem hann hefur átt við að stríða í gegnum árin. Hann fer reglulega til geðlæknis til að vinna á þunglyndinu og hefur gert í langan tíma. Hann sagði í viðtalinu að hann hefði áttað sig á vandamálinu þegar hann tók þátt í kappaksturskeppni í þágu góðgerðarstarfsemi þar sem bílarnir áttu að klessa hver á annan eins mikið og þeir gátu. Þegar hann horfði á tvo bíla klessa hvor á annan þá varð hann hvorki æstur né hræddur heldur leiddist honum. Hann áttaði sig á því að þessi viðbrögð væru ekki viðeigandi.

Hann er einnig yfirlýstur trúleysingi, líkt og vinur hans Fry. Foreldrar hans voru trúaðir en Guð gegndi ekki miklu hlutverki í uppeldi hans. En ákveðnir þættir í trú foreldra hans höfðu áhrif á uppeldið. Hann hefur sagt að öll gleði hafi verið eitthvað sem ætti að efast um og að maður yrði að vinna fyrir gleðinni þó að það hafi verið erfitt líka.

Stephen Fry er mikill fjölskylduvinur og var hann svaramaður Hughs þegar hann giftist, hann er einnig guðfaðir barna þeirra hjóna og þau eyða jólunum reglulega öll saman.

 

Hann segir það hafa haft mikil áhrif á sig og hann eigi enn þann dag í dag erfitt með að vera hamingjusamur því hann viti ekki hvað hann eigi að gera við þá tilfinningu. Upplifun hans á Guði í æsku var ekki góð og hefur hann sagt að hún hafi verið þannig að Guð væri þarna á himnum til að sjá til þess að enginn fengi neitt nema vinna lengi og vel fyrir því.

 

Annað en leiklist

Laurie er ekki við eina fjölina felldur og er hann fyrirtakstónlistarmaður. Í gegnum ferilinn hefur hann reglulega spilað á hljóðfæri í þáttum og myndum. House var mikill píanóleikari, sem Hugh er sjálfur. Í þáttunum A Bit of Fry and Laurie og Jeeves and Wooster voru gjarnan tónlistaratriði þar sem hann greip í gítarinn eða settist við píanóið og söng. Til skemmtunar var Fry oft fenginn með honum en þar sem hann er arfalaglaus þá gerði það atriðin mjög skrautleg. Fyrir utan það að syngja og spila á gítar og píanó þá spilar hann einnig á trommur, munnhörpu og saxófón.

Árið 2010 lét hann svo verða af áratugagömlum draumi sínum og gaf út blúsplötu. Á plötunni fékk hann aðstoð frá Tom Jones, Irmu Thomas og Dr. John. Fyrr á þessu ári gaf hann svo út sína aðra plötu. Í kringum fyrri plötuna var hann svo í einum þætti heimildaþáttaraðarinnar Perspective þar sem hann sagði frá og útskýrði ást sína á New Orleans og tónlistinni þaðan.

Laurie er þó ekki bara fær á sviði leiklistalistar og tónlistar heldur hefur einnig gefið út bók. Árið 1996 kom bók hans The Gun Seller út og var spennusaga. Önnur bók hans, The Paper Soldier, átti að koma út árið 2009 en hefur ekki enn komið út.

Related Posts