Ég fór og keypti mér buxur um daginn. Ég er einn af þessum sem er alltaf í sömu buxunum, þægilegum víðum gallabuxum sem ég keypti mér fyrir um ári síðan og þær hafa reynst mér vel. Auðvitað á ég fleiri en einar buxur, þessar eru bara þægilegastar og ég hef séð lítinn tilgang í því að breyta til.

Það kom þó að því um daginn að ég hugsaði með sjálfum mér að nú þyrfti ég nýjar buxur. Ferðinni var heitið í Herra Hafnarfjörður og ég geng beint að búðarmanninum og bið hann um buxur. „Þessar eru alveg frábærar, mjúkar buxur með teygjanlegu efni og flestir sem máta þær hjá mér ganga í þeim út. Þær eru þó pínu þröngar en það er víst í tísku núna.“ Ég ákvað að trúa hverju orði sem kom frá verslunareigandanum og ákvað að máta buxurnar. Viti menn, ég gekk í þeim út og keypti aðrar öðruvísi á litinn.

„Þær eru þó pínu þröngar…“ Þetta voru orð að sönnu! Það tekur mig eflaust um tvær til þrjár mínútur að klæða mig í buxurnar á morgnana og áður en ég veit af er ég mættur í einhverjar jógastellingar á gólfinu sem ég vissi ekki einu sinni að ég gæti gert. Allt til þess að komast í þessar buxur.

Ég verð að viðurkenna hræsni af minni hálfu. Fyrir tveimur vikum hefði mér ekki dottið í hug að kaupa gammosíur í gervi gallabuxna. „Þröngar gallabuxur? Fyrir stelpur þá?“ var hugsun mín og í hvert skipti sem einhver af strákunum var mættur í þröngum buxum hristi ég hausinn og spurði hvort hann væri á leið á fimleikaæfingu.

Þessar buxur eru einfaldlega frábærar. Þægilegar og töff og ekki skemmir fyrir að stæltir kálfarnir njóta sín vel svo eftir er tekið. Meðatal upphífinga á buxum hefur þó hækkað um einn til tvo en það er fórnarkostnaður sem er þess virði að borga. „Beauty is pain,“ sagði einhver og hló að þeim ljóta, án þess að ég ætli að fara að dæma um mína eigin fegurð þá fer ekkert á milli mála að strákurinn er að lúkka.

Rappunnandinn sem hefði fyrr látið grípa sig nakinn í fjöru en að ganga um í „gammosíugallabuxum“ er mættur í einhverjar þær þrengstu en jafnframt þægilegustu buxur sem nokkurn tíma hafa umlukið lappir hans og líkar vel. Þetta er öðruvísi en það sem ég er vanur en ég er að fíla þetta.

Garðar Benedikt Sigurjónsson

Related Posts