Hjörtur Viðar Sigurðsson (11), Baldvin Alan Thorarsen (13) og Sölvi Viggósson Dýrfjörð (13) eru allir Billy Elliott:

Það er ekki á valdi hvers sem er að leika, dansa og syngja á sviði í stórsýningu og það í aðalhlutverki. Baldvin, Hjörtur og Sölvi gefa stórleikurum þjóðarinnar ekkert eftir og eiga stórleik sem drengurinn Billy Elliott. Þeir Hjörtur, Baldvin og Sölvi hafa lagt heilmikið á sig undanfarna mánuði og uppskera eftir því.

Draumur sem rættist „Ég er fótboltastrákur úr Kópavogi sem kunni ekkert í ballett, hef bara verið eitt ár í samkvæmisdönsum. Ég lagði hart að mér og varð betri og betri. Mér finnst ballett bara alveg rosalega skemmtilegur og líka jazz og stepp,“ segir hinn lífsglaði Hjörtur.

Heilt sumar í leikhúsi

SH1503108836-4

BILLY ELLIOTT, BILLY ELLOTT OG BILLY ELLIOTT: Drengirnir þrír sem leika Billy eru kraftmiklir og lífsglaðir og hver með sinn sjarma en ólíkir.

„Ég ætti að fermast núna en hef bara ekki tíma til þess, kemst aldrei í fermingarfræðsluna,“ segir Sölvi sem er á fermingarárinu og nemandi í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. „Mig hefur alltaf langað að leika í leikriti og hef áður farið í prufur en ekki komist að fyrr en nú. Ég æfði körfubolta og frjálsar og var líka í fimleikum og spila á fiðlu, þannig að ég er vanur að hafa mikið að gera. En ég hef samt ekki gert neitt annað en að vera í leikhúsinu síðan í sumar.“

SH1503108836-13

VINIR: Mikill vinskapur hefur myndast á milli drengjanna.

Sviðsvanur
Baldvin Alan er alls ekki ókunnugur á sviði en hann lék Snúð í Bróður mínum Ljónshjarta sem var í uppsetningu leikfélags Selfoss. „Ég æfði samkvæmisdansa í fimm ár og var því ágætlega undirbúinn undir æfingaferlið, þekkti aðeins til. En ég er samt búinn að læra alveg heilmikið sem ég kunni ekki áður.“

Drengirnir eru sammála því að leikritið sé skemmtilegt og að allir eldri leikararnir hafi tekið þeim vel og séu tilbúnir til að leiðbeina þeim á sviðinu.

„Við Baldvin erum báðir að hugsa um að reyna að komast að í dansskóla í London og læra meira, ekki bara ballett líka jass og stepp. Ef það klikkar þá veit ég ekki hvað ég ætla að gera í framtíðinni, vonandi eitthvað skemmtilegt,“ segir Hjörtur sem geislar af lífsgleði.

Skemmtilegt að frumsýna
Drengirnir skipta með sér hlutverkinu, upphaflega áttu bara að vera tveir en ákveðið var að hafa þá þrjá til öryggis, en það kom á daginn að það var góð hugmynd.

„Ég frumsýni ekki strax, ég tognaði og get því ekki sýnt fyrr en í lok apríl þannig að strákarnir eru að skipta þessu á milli sín. Sölvi frumsýndi og það var alveg meiriháttar að fylgjast með því. Við skemmtum okkur svo í frumsýningarpartíinu fram eftir og svo steinsofnaði ég þegar ég kom heim,“ segir Baldvin vongóður um bata.

Leikararnir ungu hvetja alla til að koma og sjá þessa mögnuðu sýningu því að hún eigi erindi við alla og svo eru þeir auðvitað svo frábærir leikarar að eigin sögn.

Related Posts