Svavar Garri Kristjánsson (27) smíðar listaverk fyrir listamenn

Íslenska fiðlusmiði er hægt að telja á fingrum annarrar handar en það stoppaði Svavar Garra Kristjánsson ekki en hann er kominn langt á leið í slíku námi. Svavar býr í Bretlandi þar sem hann stundar nám í fiðlusmíði og segir skilning á þörfum hljóðfæraleikara lykilatriði í að gera góða fiðlu.

Svavar Fiðla

HEIL BRÚ: Svavar smíðaði þessa fallegu harðangursfiðlu.

Ekki mikið fyrir bóknám

Sem barn bjó ég á Sauðárkróki, Siglufirði og Blöndósi. Þegar ég var þrettán ára flutti fjölskyldan í Árbæinn þar sem ég var meira eða minna þangað til ég flutti út til Englands,“ segir Svavar um bernsku sína. Hann hafði þó ekki mikinn áhuga á handverki fyrr en eftir að hann komst á menntaskólaaldur. „Ég byrjaði að bauka við trésmíðar þegar ég var að byrja í framhaldsskóla. Það gekk illa hjá mér að stunda bóknám og áhuginn var lítill. Mér datt í hug að taka handverksnám samhliða stúdentsprófinu og skráði mig í húsgagnasmíði í Tækniskólanum. Þetta hentaði mér mjög vel og ég lærði að smíða bæði með handverkfærum og vélum. Í framhaldinu ákvað ég að reyna að smíða mér mandólín. Áhuginn óx og ég fór að lesa mér meira til um hljóðfærasmíði og hvar væri hægt að læra það,“ en Svavar segir að hann hafi fengið hjálp á leið sinni til útlanda. „Mér var bent á að tala við Hans Jóhannsson fiðlusmið og sjá hvað hann gæti sagt mér. Mér hálfbrá þegar ég sá að aðferðirnar sem fiðlusmiðir nota hafa breyst lítið sem ekkert í mörg hundruð ár en þá var ekki aftur snúið. Hans sagði mér frá fiðlusmíðaskóla í Newark í Nottinghamshire þar sem margir af þeim bestu hafa lært. Þá hafði ég samband við skólann og mér var sagt að koma í heimsókn og viðtal þar sem þeir samþykktu umsókn mína samdægurs.“

Svavar Fiðla

MARAÞON: Svavar tók þátt í þriggja daga fiðlusmíðamaraþoni.

Skilningur á þörfum annarra

Þolinmæði, reynsla og beittir hnífar,“ segir Svavar spurður um mikilvægustu hlutina til að gera góða fiðlu. „Smiður þarf að hafa skilning á því hvað hljóðfæraleikari vill. Oft láta hljóðfæraleikarar smíða hljóðfæri sérstaklega fyrir sig og þá þarf smiður að skilja nákvæmlega hvað hann þarf að setja í hljóðfærið. Svo eru smiðir sem sérhæfa sig í ákveðnum stíl og þá þarf smiðurinn að liggja yfir bókum og rannsaka mikið. Sem betur fer er auðveldara að nálgast upplýsingar núna en fyrir örfáum árum og samskipti á milli smiða eru jafnan góð.“

Svavar Fiðla

GÓÐ HUGMYND: Þær kom oft á vinnustofunni.

Spilar á gítar á knæpu

Ég spila svolítið á kassagítar og hef gert í einhver ár, raulað með og spilað á munnhörpur,“ segir Svavar þegar hann var spurður hvort hann spili á hljóðfærin sem hann smíðar. „Svo lærði ég á rafgítar í nokkur ár, aðallega djass. En um leið og ég ákvað að sækja um í fiðlusmíðina byrjaði ég að æfa mig á fiðlu. Ég hef aldrei fengið mér kennara í fiðluleik, hef bara fundið einhverja leið til að spila. Nokkrir byrjendur úr skólanum tóku sig saman og æfðu saman kvintett: tvær fiðlur, víóla, selló og kontrabassi, og þar spilaði ég á víólu. Ég spila í hverri viku á gítar á knæpu. Þá tek ég fiðluna með og spila þau fáu lög sem ég kann. Það hjálpar auðvitað mikið að kunna að spila á þessi hljóðfæri en margir fiðlusmiðir sem ég hef hitt segjast spila mjög lítið.“

Svavar Fiðla

VAFNINGUR: Einstök fiðla smíðuð af ástúð.

Brýr og sálir

Ég er kominn með vinnu í litlu þorpi hér í Englandi sem heitir Stone,“ segir Svavar um framtíðina. „Þetta er þokkalega stór fiðlubúð með mikla veltu. Ég verð aðallega í því að skera út brýr og sálir og í minni háttar viðgerðum. Þarna fæ ég líka tækifæri til að læra af kontrabassasérfræðingi,“ en Svavar viðurkennir að hann langi á endanum að vinna við fiðlusmíði á Íslandi, nálægt fjölskyldu og vinum. „Fjölskyldan hefur alltaf verið opin fyrir því að ég geri það sem ég vil. Auðvitað er það ekkert nýtt að fólk fari út í heim til að læra en það er vont að fara frá vinum og fjölskyldu vitandi að maður gæti þurft að vera í burtu mjög lengi. Ísland er lítið land og fámennt og það eru nokkrir starfandi fiðlusmiðir heima við. Einhvern tíma, þegar ég er búinn að læra nóg, flyt ég kannski aftur til Íslands og set upp vinnustofu. Þangað til verða heimsóknir að nægja.“

Svavar Fiðla

NÁKVÆMNI: Margir mismunandi beittir hnífar eru notaðir við fiðlusmíði

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts