Hitt og þetta um kvenlega fegurð og yndisþokka:

Líklega eru það gömul sannindi og ný að tiltekið útlit er mismikið í tísku á hverjum tíma. Á hverjum tíma eru uppi einhverjar ljónheppnar konur sem falla akkúrat í það mót sem leitað er að einmitt á þeirri stundu en hinar sitja eftir og berjast líkt og systur Öskubusku að troða of stórum fótum sínum í skóinn eða fylla upp í tána það sem á vantar.

Tíðarandi og tíska segir til um hvað telst vera þokkafullt og þess vegna er þokkagyðjan ýmist þrýstin eða þvengmjó, stundum er hún jarðbundin dugnaðarforkur, stundum dularfull heimsdama sem sötrar kokteil og reykir sígarettu í munnstykki.

Allir kannast við gamlar styttur af holdmiklum frjósemisgyðjum sem fundist hafa við uppgröft búsvæða frummanna. Langt fram eftir öldum má síðan sjá íturvaxnar dömur á málverkum meistaranna og ofurlítið búlduleitt bros Monu Lisu væri líklega ekki jafnheillandi ef hún væri kinnfiskasogin.

En það er ekki bara líkamsvöxturinn og ytra útlit sem sveiflast. Það er upp og ofan hvort persónuleiki þinn hentar hugmyndum samfélagsins eða ekki. Fjörugar daðurdrósir hafa iðulega valdið hneykslun og verið útskúfaðar fyrir léttlyndið og eftirgefanleika við karla sem á þær sækja. Kaldlyndar, grimmar konur í valdastöðum hafa kannski aldrei átt upp á pallborðið en kannski hefur það lítið snert þær þar sem völdin vega upp á móti almenningsálitinu. En lítum á nokkrar þokkagyðjur, hugmyndir manna um þær og sorgir þeirra og sigra.

Hin eilífa þokkagyðja; Marilyn Monroe

Oft er talað um að kvenímynd dagsins í dag sé brengluð. Hollywood-stjörnur séu langt undir kjörþyngd, fái fyrstu botox-sprautuna í þrítugsafmælisgjöf og séu auk þess alltaf

„photo-sjoppaðar“. Margar þessar konur liggja undir ámæli fyrir að hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd kvenna, sér í lagi ungra stúlkna. Í þessu sambandi er því gjarnan haldið fram að til þess að teljast þokkafull á vorum tímum þurfi kona að vera eins og langsoltinn fermingardrengur í vexti. Slíkum staðhæfingum fylgir gjarnan viðauki um að þær konur sem þóttu hvað fegurstar fyrir einhverjum áratugum síðan, myndu vart þykja gjaldgengar í dag vegna íturvaxinna líkama sinna og er Marilyn Monroe oftar en ekki nefnd í því sambandi sem táknmynd hinna gömlu góðu daga þegar konur „máttu“ vera holdugar.

Þokkagyðjan

Marilyn Monroe er í huga margra hin eina sanna þokkagyðja

Reyndar myndi hún seint teljast feitlagin en samkvæmt upplýsingum á opinberri heimasíðu aðdáenda hennar, www.marilynmonroe.com, var hún 165 sentimetrar á hæð og 52 kíló. Það þýðir að BMI-stuðull hennar var 19,1 sem telst vera við neðri mörk kjörþyngdar. En hvað sem því líður þá er Marilyn Monroe ein frægasta þokkagyðja fyrr og síðar. Hún þótti hafa eitthvað einstakt við sig, eitthvað óútskýranlegt sem gerði hana svo heillandi í augum annarra. Marilyn lést árið 1962, einungis þrjátíu og sex ára gömul, eftir stormasamt líf. Minnimáttarkennd þjakaði hana alla tíð og hún þráði heitt virðingu og viðurkenningu samfélagsins. Hún var dæmd heimsk en þeir sem þekktu hana best segja hana hafa verið bæði greinda og fljóta að hugsa. Erfið æska setti mark á hana og því miður var hún leiksoppur ýmissa karlmanna sem lítt eða ekki virtu tilfinningar hennar. Hún tók inn of stóran skammt af verkja- og svefnlyfjum, annaðhvort viljandi eða óviljandi, og varla hægt að telja hlutskipti hennar eftirsóknarvert.

 

þokkagyðja

Sophia Loren hefur til að bera tímalausa fegurð og andlitið er auk þess fullt af persónuleika sem gerir hana sérstaklega aðlaðandi

Kynþokki er miklu meira en fegurð

Önnur, ekki síðri þokkagyðja, er hin ítalska Sophia Loren, fædd árið 1934. Þokkinn drýpur af hinni áttræðu Loren enn í dag. Hugsanlega hafa læknavísindin eitthvað hjálpað til en að sögn Sophiu er ekki hægt að kaupa kynþokka: „Það er ekki hægt að verða kyntákn, það verður að vera meðfætt,“ er haft eftir henni.

 

þokkagyðja

Rita Hayworth sló rækilega í gegn í hlutverki Gildu en á síðari árum muna hana flestir vegna hlutverks hennar í Shawshank Redemption

Ekki er hægt að fjalla um þokkagyðjur án þess að nefna þær Ritu Hayworth, Övu Gardner og Grace Kelly. Rita sló í gegn í hlutverki Gildu í samnefndri kvikmynd. Hún samþykkti að lita brúnt hár sitt rautt til að falla að hugmyndum leikstjórans um aðalpersónuna og það margborgaði sig. Hún á met sem enn hefur ekki verið slegið en það er að hafa verið alls fimm sinnum á forsíðu tímaritsins Life. Um Övu sagði mótleikari hennar í myndinni On the Beach, Gregory Peck, að ef hún hallaði sér upp að tré yrði það neistinn sem kveikti skógareld. Víst er að Ava var seingleymd þeim karlmönnum sem hún átti í ástarsambandi við en hún var sjálfstæð og ákveðin kona en jafnvel hún varð að beygja sig undir járnvilja Hollywood. Meðan hún var gift Frank Sinatra varð hún ófrísk tvisvar en var neydd í fóstureyðingu af yfirmönnum sínum sem höfðu sett þá klásúlu í samning hennar að hún mætti ekki skemma vöxt sinn með barneignum.

þokkagyðja

Ava Gardner var seingleymd þeim mönnum sem kynntust henni

 

Ava og Frank voru vinir ævilangt og Howard Hughes leitaði sömuleiðis stöðugt til hennar eftir huggun og ráðum þegar lífsbaráttan reyndist erfið. Hún segir um Frank í ævisögu sinni að hann hafi verið ákaflega ljúfur í lund og svo viðkvæmur að orðið brothættur lýsi honum vel. Um Hughes sagði hún aftur á móti að hún hefði aldrei verið ástfangin af honum en hann hefði verið feiminn, orkumikill og meiri sérvitringur en nokkur annar sem hún hefði kynnst. Ava lést aðeins 67 ára gömul, árið 1990, af völdum reykinga. Hún reykti alla tíð mikið og þegar hún dó hafði hún þjáðst af lungnaþembu árum saman og tvisvar fengið reykingatengt heilablóðfall. Enn í dag er talað um Övu sem eina fegurstu konu sem nokkru sinni hafi skreytt kvikmyndatjaldið og eina stærstu stjörnu Hollywood.

 

þokkagyðjur

Grace Kelly var sögð bera sig af meiri þokka en flestar konur

Nýleg mynd um ævi Grace Kelly, með Nicole Kidman í aðalhlutverki, sýnir að hún lifði ekki því ævintýralífi sem margir ímynduðu sér. Hún varð að gefa leikferilinn upp á bátinn eftir að almenningur í Mónakó setti sig upp á móti því að hún léki stelsjúka konu í Hitchcock-myndinni Marnie. Hún sneri sér þá að góðgerðamálum og margar af þeim stofnunum og félögum sem hún stofnaði og beitti sér fyrir starfa enn í dag. Grace þótti með eindæmum tíguleg og fáguð og enn í dag er hún innblástur hátískuhönnuða líkt og Audrey Hepburn, önnur þokkadís sem beitti sér til góðs fyrir allt mannkyn.

 

Hin óviðjafnanlega Díana prinsessa

þokkagyðja

Díana heitin var svo sannarlega falleg

 

Enn ein þokkagyðja er Díana heitin prinsessa. Eins og Marilyn lést hún þrjátíu og sex ára. Vissulega var Díana afar falleg en hún bjó líka yfir mikilli færni í mannlegum samskiptum; hún var einstaklega næm á tilfinningar fólks, sér í lagi þeirra sem áttu um sárt að binda. Díana notaði þannig stöðu sína og áhrif til að vekja athygli á ýmsum sjúkdómum og málefnum sem legið höfðu í þagnargildi fram að því.

þokkagyðja

Sophia Lauren sannar að þokkinn breytist með aldrinum hverfur ekki

Það er til fjöldinn allur af konum sem búa yfir sambærilegri ef ekki meiri fegurð en þessar konur sem getið er hér að framan. En það sem greinir þokkagyðju frá öðrum konum er eitthvað sérstakt sem erfitt er að skilgreina. Það er kannski ekki úr vegi að vitna aftur í hina orðheppnu Sophiu Loren: „Fegurð hefur aldrei skemmt fyrir neinum en það dugar skammt. Þú verður að gefa af þér, þú verður að vera skemmtilegur og þú verður að vera klár.“ Svo mörg voru þau orð.

 

Grískar gyðjur og undirfatamódel

Hinar upprunalegu þokkagyðjur voru grískar gyðjur eða músur. Þær fylgdu og voru í nánum samskiptum við Afródítu, hina grísku gyðju ástar og fegurðar. Allt sem var fagurt og gott átti uppruna sinn hjá þeim, þær stjórnuðu sköpunargáfu manna, bókmenntum og mælskulist. Í grísku þokkagyðjunum sameinaðist líkamlegt og andlegt atgervi, gáfur og glæsileiki; hin fullkomna blanda. Ekki ósvipað hlutverk og ætlað var hinum japönsku geishum sem aldar voru upp í hlutverki sínu og þeim var ætlað að vera karlmönnum innblástur, hvíld, til ráðgjafar og fullkomnir félagar. Hvort slíkar kröfur séu gerðar til  þeirra þokkagyðja sem hæst ber um þessar mundir er óvíst. Sé orðinu slegið inn í leitarvélina Google koma upp Hollywood-stjörnur eða Victoria Secret-undirfatamódel. Hvort þær hafa þá yfirgripsmiklu þekkingu sem grísku músurnar og japönsku geishurnar bjuggu yfir er vafalaust misjafnt en hugsanlega mættu menn vera ofurlítið varkárari þegar kemur að því að sæma konu titlinum þokkagyðja.

 

 

Texti: Steingerður Steinarsdóttir

 

Related Posts