Íslendingar hafa aldrei kunnað að gefa þjórfé, gera það aldrei heima hjá sér og helst ekki í útlöndum, komist þeir hjá því.

Þetta er þó að breytast með fjölgun ferðamanna hér á landi sem gefa tóninn og koma þjónustufólki á bragðið. Algengt er að sjá ferðafólk panta sér kaffi eða drykk á veitingahúsi og þiggja ekki skiptimyntina sem gefin er til baka. Þannig greiða þeir glaðir þúsund krónur fyrir kaffibolla sem kostar kannski ekki nema 650 krónur. Og sama gildir um 800 króna bjórglas á Happy Hour í miðbæ Reykjavíkur. Þar er þúsundkallinn líka látinn fjúka.

Svo færist þessi nýi siður upp á Íslendinga sem versla á sömu stöðum. Oftar en ekki eru þeir hreinlega hættir að fá til baka þessar 200-300 krónur sem út af standa og þá verður allt vitlaust því Íslendingar gefa ekki þjórfé og hafa aldrei gert.

Leigubílstjórar eru líka orðnir kræfir í þessu og eru farnir að haga sér eins og starfsfélagar þeirra í New York. Menn skjótast stutta leið í leigubíl em kostar 1.700 krónur, borga með tvö þúsund krónum og þá situr leigubílstjórinn bara kyrr og bíður eftir að farþeginn fari án þess að fá til baka.

Þjórfé er vandmeðfarið fyrirbæri og er í raun þegjandi samningur á milli þjónustuaðila og viðskiptavinar um hvernig rúnna skuli upphæð af. Yfirleitt er þetta tíu til fimmtán prósent en getur verið meira sé viðskiptavinur í stuði – og munar um minna fyrir þann sem þjónustar.

Erlendis hafa Íslendingar oftar en ekki lent í vandræðum með að rúnna reikninga af með þessum hætti því þeir telja sig ekki þurfa þess með framandi þjóðum frekar en heima hjá sér. Fræg er sagan af íslensku golfleikurunum sem voru að fara út á flugvöll af hóteli sínu og heim og söfnuðu þá saman öllu klinki sem lá á borðum þeirra á hótelherberginu. Settu í plastpoka og ákváðu að leysa þjórfjárvandamálið gagnvart leigubílstjóranum með þessu. Þegar komið var út á flugvöll afhentu þeir leigubílstjóranum gagnsæjan plastpokann með svo gott sem einskisverðu smámyntinni og gengu þar með algjörlega fram af leigubílstjóranum sem leit í forundran á pokann og henti honum síðan í hausinn á þeim.

Þjórfé er vandmeðfarið mál sem tekur langan tíma að þróa hjá þjóð sem aldrei hefur tímt að tippa. En það getur gert lífið skemmtilegra hjá þeim sem í hlut eiga, líkt og Séð og Heyrt í hverri viku og allan sólarhringinn á Netinu.

Eiríkur Jónsson

eir’kur j—nsson

Related Posts