Það þótti nýlunda og varð vinsælt þegar Rás 2 byrjaði að senda út Þjóðarsálina, útvarpsþátt þar sem hlustendur fengu að hringja inn og tjá sig um allt milli himins og jarðar. Formið lifir enn góðu lífi á Útvarpi Sögu og er með því besta á öldum ljósvakans og þá ekki síst vegna skemmtanagildisins því fólk getur orðið fyndið þegar því liggur mikið á hjarta.

Reyndar þarf ekki nema að fara á bílaverkstæði, í bakarí eða sund til að heyra bergmál af þjóðarsálinni þar sem almenningur lætur móðan mása. Það er einhver samtónn í þessu öllu, skoðanir sem ekki eiga upp á pallborðið hjá ríkjandi stéttum, en er þó hreinni en sá sem þar er fram borinn.

Þjóðarsálin er þannig innréttuð að hún vill sem minnstar breytingar nema þá á eigin kjörum sem gengur erfiðlega. Hún er sannfærð um eignarhald sitt á fiskinum í sjónum þótt hann sé tæknilega séð í höndum örfárra manna, Hún vill halda í sína íslensku krónu þó að fullsannað sé að hún sé ónýt. Hún vill alls ekki nánara samstarf við aðrar Evrópuþjóðir því sjálfstæðið er henni allt. Og hún vill helst að Ólafur Ragnar Grímsson haldi áfram að vera forseti því hann er búinn að vera það svo lengi.

Svona er þjóðarsálin og hún ræður þessu því almenningur er með kosningarétt og aðrir sem vilja annað verða að sætta sig við svo lengi sem ekki fjölgar í þeim hóp – sem ekki er fyrirsjáanlegt.

Þess vegna geta sægreifarnir haldið áfram að mala gull með kvóta sínum, íslenska krónan sett allt á hausinn á nokkurra ára fresti, sjálfstæði þjóðarinnar lifað eigin lífi án innihalds og Ólafur Ragnar Grímsson verið forseti eins lengi og honum sýnist.

Það þarf eina kynslóð eða tvær til að breyta þessu og eftir því geta ekki allir beðið.

eir’kur j—nsson

Þangað til heldur Séð og Heyrt áfram að gera lífið skemmtilegra. Annað er ekki í boði.

Eiríkur Jónsson

 

Related Posts