Helgi Bernódusson (66) skristofustjóri Alþingis segir að Katrín Júlíusdóttir (41) megi vera í námi:

Fréttir um fjölmarga þingmenn sem stunda nám samhliða þingmennskunni hafa vakið athygli og jafnvel hneykslan því kjósendum finnst mörgum sem þingmennska ætti að vera fullt starf og jafnvel rúmleg það.

Þegar Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, er spurður hvort þingmenn megi vera í skóla samhliða starfi sínu, svarar hann:

„Það er ekkert sem bannar þeim það.“

En er það æskilegt?

„Ég hef enga skoðun á því. En það er mjög mikil vinna að vera á Alþingi.“

Katrín Júlíusdóttir, fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar, er í MBA-námi og sér ekkert athugavert við það:

„Ég hef ekki fundið fyrir neinum pirringi vegna náms hjá alþingismönnum. Það myndast auðvitað pirringur ef þú gerir ekki það sem þú átt að gera, en það ætti ekki að pirra neinn hvað þú gerir í frítíma þínum. Ég er í námi og hef ekkert verið að fela það, ég er í námi aðra hverja helgi og hef meðal annars verið dugleg að blogga um það. Ég er ekki í neinu öðru eins fréttamennsku eða íþróttum. Svona vel ég bara að eyða mínum frítíma. Ef ég væri ekki að sinna vinnunni minni þá væri þetta eitthvað til að tala um,“ segir Katrín.

„Ég er í Háskólanum í Reykjavík og er að klára núna í vor, er búin að vera þarna í eitt og hálft ár. Þessi umræða er bara svo skrítin því nám í dag er ekki það sama og það var fyrir nokkrum árum, þú getur tekið einn og einn kúrs sem virkar vel með vinnu. Þetta snýst bara um það hvernig þú eyðir frítimanum þínum, sumir fara í golf eða horfa á sjónvarpið, ég vel að læra. Þetta er auðvitað stundum erfitt með alþingisstörfum. Þetta er mjög ögrandi verkefni og það getur tekið á að þurfa að rífa sig upp klukkan fimm um morgun til að skila verkefni en þetta er líka mjög gefandi. Ég reyndi að fara í nám með vinnu 2005 og það gekk ekki, þá var námið á meira hefðbundnum tímum og ekki sérsniðið vinnu þannig að það gekk upp í tvær vikur,“ segir Katrín og hlær.

„Ég fæ einhver smá námslán fyrir skólagjöldunum. Gjöldin eru mjög há og ég hef auðvitað sama rétt og aðrir og því fæ ég námslán með þessu.“

Related Posts