Mikael Tamar Elíasson (30), vélstjórinn sem skrifar frá hjartanu:

Tamar, eins og vinir hans kalla hann, ólst upp í frelsinu á bóndabæ móðurömmu sinnar fyrir vestan þar sem dýrin ásamt ljóðum afa hans og ömmu voru hans mestu áhrifavaldar. Tamar yrkir sig í gegnum lífið og sækir innblástur sinn til Bubba Morthens. Ljóðin eru komin upp úr skúffunni fyrir aðra að njóta. Tamar, sem hefur aldrei þekkt föður sinn, hefur reynt ýmislegt í lífinu, barist við fíkn og festist ekki í námi. Hann hefur nú fundið sinn frið á sjónum þar sem hann yrkir öll sín bestu ljóð.

Sögumaður Tamar ólst upp í sveit hjá ömmu sinni, Kristjönu Sigríði Vagnsdóttur, á Sveinseyri rétt fyrir utan Þingeyri. Á bænum voru kindur, hestar og hænur. „Það var algjör blessun að fá að alast upp í sveit, við frelsið sem þar er, útivistarreglur eru eitthvað sem þekkist ekki, og nándina við dýrin. Þetta gaf manni heilan helling,“ segir Tamar. Afi Tamars, Elías Mikael Vagn Þórarinsson, lést þegar Tamar var tveggja ára og systir hans, Særún, flutti 15 ára gömul í burtu frá Sveinseyri, eftir það voru hann og amma hans ein á bænum.

Þekkir ekki föður sinn
„Þegar ég var fimm ára fór móðir mín til Reykjavíkur til að leita sér hjálpar við sínum vandamálum. Ég þekki ekki föður minn og veit engin deili á honum og mér var alveg sama þar til ég var svona 25-26 ára gamall,“ segir Tamar. „Eftir að ég fór sjálfur að leita mér hjálpar við minni fíkn fór að kvikna löngun til að finna föður minn og þá aðallega til að vita hvort ég ætti systkini þeim megin. Það er alltaf hluti sem vantar þegar maður veit ekki deili á helmingnum á sér.“

Tamari var aldrei strítt á því að eiga ekki föður, hann sótti skóla á Þingeyri og þegar hann var 11 ára gamall flutti hann ásamt ömmu sinni þangað. Tíminn þar einkenndist af íþróttum, aðallega frjálsum sem Tamar var góður í. „Svo þegar ég varð 15 ára fjaraði íþróttaáhuginn út vegna löngunar í ævintýri, stelpur og brennivín,“ segir hann og hlær. Hann prófaði að fara í menntaskóla og var í eitt ár á Menntaskólanum á Laugavatni á íþróttabraut, tíminn þar einkenndist þó bara af djammi. „Þetta var einn skemmtilegasti vetur lífs míns, að fljúga úr hreiðrinu og upplifa frelsið,“ segir Tamar. Hann ákvað síðan að flytja til Særúnar, systur sinnar, í Grindavík, vann í fiski í sex-sjö mánuði og fór síðan á sjó og þar hefur hann unnið síðan, í 13 ár. Í dag er hann vélstjóri á Gísla Súrssyni.

Ljósmynd: Jón Steinar Sæmundsson.

Sjómennskan gerir mann ekki ríkan peningalega

„Það fyrsta sem heillaði við sjóinn var sagan af peningunum, en maður var fljótur að komast að því að maður verður ekkert stjarnfræðilega ríkur á þessu. Í dag held ég samt að ég vilji enga aðra vinnu,“ segir Tamar. „Það er þessi tilfinning þegar maður siglir úr höfn og sér ljósin fjarlægjast, hraðann hverfa, það er rosaleg hugarró sem fylgir því að vera á sjó.“ Í dag fæðast öll ljóðin hans á sjónum. „Ég hef engan tíma fyrir þetta þegar ég er í landi. Maður hefur meiri tíma fyrir hugann í sjálfum sér úti á sjó.“

Þrátt fyrir að sjómenn í dag séu í betra sambandi við þá sem í landi eru en áður með tilkomu Netsins, Facebook og svo framvegis þá segir Tamar að það sé auðveldara að kúpla sig frá því öllu á sjó en í landi. „Þegar við siglum 50-60 mílur frá landi þá siglum við út úr netsambandi, út fyrir endimörk alheimsins, eins og ég segi oft, og þá hefur maður allan tíma heimsins.“

Strákarnir á Gísla Súrssyni gera út frá Stöðvarfirði mest allt árið og rútínan er löndun á hverjum degi, borðað og út á sjó aftur. „Nema á veturna þegar eru brælur, á sumrin hins vegar er rosaleg keyrsla,“ segir hann. Þeir eiga enga fjölskyldu á Stöðvarfirði og segir Tamar að fjölskyldan þar sé í rauninni bara elskurnar í sjoppunni sem sjá um að elda handa þeim. „Við erum að sækja fisk, það er númer 1, 2 og 3, við erum þarna til að eiga líf okkar hérna heima.“

VÉLSTJÓRINN Á GÍSLA SÚRSSYNI Tamar kann öll verkin sín á sjó og hefur alla tíð verið á minni bátum með tveimur, þremur öðrum körlum. Hann hefur aldrei prófað langar útiverur og þó að honum finnist gott að vera á sjó, finnst honum líka fínt að stíga á fast land. Ljósmynd: Jón Steinar Sæmundsson.

Besti tíminn sem maður á er tíminn með börnunum sínum
Tamar á sjálfur þrjú börn, stjúpsoninn Sölva Snæ sem er átta ára, Adrían Elí sem er sex ára og Indíu Lind sem er fjögurra ára. Þau eru öll í íþróttum, Sölvi Snær í fótbolta og körfu, Adrían Elí í taekwondo og fótbolta og Indía Lind er aðeins byrjuð að sparka í bolta. „Þetta er svo mikil forvörn, það skiptir máli að krakkar séu í einhverju og læri að vera í hóp,“ segir Tamar. „Taekwondo og fótbolti er kennsla í svo miklu meira en bara því, þau hafa svo gott af þessu. Maður vill alls ekki sjá þessi litlu kríli fara sömu leið og maður sjálfur og maður reynir allt sem maður getur þegar þau eru lítil að byggja góðan grunn.“

„Mér finnst rosalega gott að ala upp börn í Grindavík, það eru einhvern veginn allir tilbúnir að hjálpast að, hvort sem það eru afi og amma eða foreldrar vina. Ég held ég myndi ekki láta barnið mitt labba sentimetra eitt í Reykjavík.“

REYNIR AÐ VERJA TÍMA MEÐ EINU BARNI Í EINU Það getur verið strembið að vera pabbinn sem er alltaf á sjó og sjaldan heima en börnin þekkja ekkert annað, enda Tamar löngu byrjaður á sjó áður en þau fæddust. Þegar hann er í landi reynir Tamar að gera eitthvað með einu þeirra í einu. Hann segir það auðveldara en að reyna að gera eitthvað með öllum í einu, það geti valdið togstreitu og rifrildi hjá þeim

Sögur úr lífi stráks – gaf mömmu sinni ljóðabók

Tamar var frekar lokaður sem unglingur og átti mjög erfitt með að tala um tilfinningar og það sem var að hrjá hann. Hann lokaði neikvæðar tilfinningar inni og bara hafði þær þar. Þegar hann byrjaði að skrifa ljóð fann hann að þar var kominn leið til að losa um tilfinningarnar sem hann byrgði inni. „Þó að það væri ekki nema að skrifa niður á blað og stinga því ofan í skúffu þá fann ég ákveðinn létti,“ segir Tamar. Í mörg ár vissi enginn af því að hann skrifaði ljóð. „Svo fór ég að lauma einu og einu ljóði fyrir augu annarra og það hreyfði iðulega við fólki. Í dag er þetta klárlega enn þá tæki til að losa um tilfinningar en þetta hjálpar öðrum líka og það er alltaf gott að geta hjálpað öðrum.“

Hann gaf móður sinni einu sinni ljóðin sín í afmælisgjöf. „Ég setti þau upp í bók sem hét einfaldlega Sögur úr lífi stráks,“ segir Tamar. „Henni fannst magnað að lesa þau, hún vissi á hvaða tímabili hvert ljóð var samið og sagði: „Ég vissi að þér leið svona, núna veit ég af hverju,“ segir Tamar. „Fyrir hana var þetta eins og fletta minningabók.“

Tamar á meira af ljóðum en textum og segir að áður hafi hann reynt að gera textaform, ljóð með viðlagi, þannig að það myndi fitta við lag. Í dag gerir hann frekar ljóð sem koma einlæg frá honum. „Ég er úti á sjó, stundum kemur allt í einu lína og ég tengi við eitthvað. Stundum stend ég á línunni og kalla á einhvern til að leysa mig af. Ég verð að skrifa þetta niður svo ég tapi því ekki.“

Tamar hefur engan áhuga á að keppa í tónlist eða ljóðagerð og segir það ekkert sem eigi við hann. Hann hefur þó reynt það en hann gerði texta við lag Ellerts H. Jóhannssonar, Ég kem með, sem keppti í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2012. Ellert keppti síðar í The Voice og varð þar í öðru sæti. Þeir gerðu einnig stuðningsmannalag fyrir Stinningskalda í Grindavík og notuðu þar lag Tinu Turner, Simply The Best, sem þeir gerðu íslenskan texta við.

„Eins og staðan er í dag finnst mér bara rosalega gott að semja ljóð, ef það er eitthvað í því, það er einlægt og ef mér finnst það geta hjálpað einhverjum þá finnst mér bara gott að sleppa því frjálsu,“ segir Tamar, en hann birtir ljóðin á Facebook-síðu sinni. „Þegar löngunin kemur að gefa út ljóðabók þá veit ég hvar öll ljóðin mín eru og ég á líka lög sem mig langar að fara með í stúdíó og klára. En ég bíð bara þar til löngunin er orðin það sterk, þá mun ég ráðast í það verkefni. Ég vil ekki þvinga mig og gera þetta með hálfum huga.“

Tamar hefur einstaka sinnum spilað sem trúbador og þar spilar hann bæði eigin lög og tökulög. „Það hefur verið mjög gaman og ég held að fólk hafi skemmt sér vel.“

Undir áhrifum frá Bubba, afa og ömmu
Bæði amma og afi Tamars sömdu ljóð og fyrir nokkrum árum voru gefnar út ljóðabækur eftir afa hans, stórt og mikið safn. „Hjá afa og ömmu heyrði ég hvernig ljóðin eru, hvað þau gera, það er svo mikill kraftur í þeim. Amma er enn að reyna að leiðbeina mér að semja rétt, stuðla og höfuðstafi, en ég er svo mikill þrjóskupúki,“ segir Tamar og hlær. „Ég vil ekki láta mína ljóðagerð líða fyrir stuðla og höfuðstafi.

Ég hef alltaf sagt að ég sé Bubba-fan númer eitt og ég er rosalega mikill aðdáandi hans og hef verið það frá því ég var lítill fyrir vestan,“ segir Tamar. Á Sveinseyri var gamalt útvarpstæki hangandi uppi í lofti og segir Tamar að þegar hann heyrði Móðir með Bubba í fyrsta sinn þá hafi það gripið hann um leið. „Svo áttum við kasettu með Bubbalögum og ég setti hana í og hlustaði á þetta lag aftur og aftur.

Textarnir hans Bubba taka mann í ferðalag, ef maður lokar augunum þá sér maður myndina, það er alveg magnað,“ segir Tamar. „Ég hef reynt að gera það sama, vera einlægur og leyfa þessu bara að flæða út,“ segir Tamar sem veiðir fisk úr sjó og ljóð úr skúffu.

LÍTILL GUTTI Á SVEINSEYRI Tamar á svipuðum aldri og synir hans eru í dag. „Sonur minn, Adrían Elí, sækir mikið í móður mína, honum finnst gott að komast í ömmufang og hún er komin með litla útgáfu af mér, enda talar hún um að hún sé að lifa það sem hún missti af með mér,“ segir Tamar.

 

Þú sérð ekkert út því þokan er þykk,
þú sprautar úr dælunni í einum rykk.
Eitrið sem nýtt blóð um æðar þér rennur
þú horfir á dofinn er Babylon brennur.

Það er allt fullt af fólki það sér þig samt enginn,
öllum er sama um blessaðan drenginn.
Eins og vofa í myrkri þú líður um salinn.
Fólk hvíslar á laun hann var illa upp alinn.

Bikasvört nóttin bíður þér hlýju,
í hennar faðmi finnur frelsið að nýju.
Þú þráir að lifa nótt alla daga
það er svo auðvelt um nætur að þaga.

Glitrandi perlur af enni þér drjúpa,
með skjálfandi höndum þú reynir að krjúpa.
Á marmaraflísar með andlitið skellur
í logandi ljósi stjarna þín fellur.

Með postulínsandlit og hrímkalda húð,
í huga þér sérð börn þín sof’undir súð.
Í þessa glansmynd þú reynir að ná
í sömu andrá hætti hjartað að slá.

Í lífinu gekk hann þær grýttustu slóðir,
á kirkjubekk ættingjar syrgja hann hljóðir.
Djúpt í sitt hjarta móðir hans kafar
er hún barninu sínu fylgdi til grafar.

Ljósmynd: Jón Steinar Sæmundsson

Sumir deyja einir
Á rúmstokknum sat hann og drakk beint af stút
á náttborði örlítil týra
með hlekkjaða hugsun hann komst ekki út
hann teigaði vodka í spýra

Í flöskunni fann hann sinn eina vin
forherta vímuna vakna
lífsförunautar gambri og gin
þessi maður einskis mun sakna

Að þurfa að lifa allsgáðan dag
var stríð sem hann vildi ekki heyja
gæfan var honum ekki í hag
því drakk hann sitt vín til að deyja

Af þvagbletti sínum hann bylti sér af
því hinn helsjúki vímunnar galdur
lífsvilja hans hafði komið í kaf
ætt’ann að stytta sér aldur

Skjálfandi grét hann í einmana sorg
grátbólgin augun hans lúin
hvernig er lífið í englana borg
nú þegar síðasti sopinn er búinn.

Lestu Séð og Heyrt alla daga.

Related Posts