Síðustu vikur hjá mér hafa einkennst af óhreinum þvotti. Það skiptir í raun engu máli hversu margar vélar ég set í, alltaf safnast óhreini þvotturinn upp og næsta vél fer í gang.

Er ég sá duglegasti á heimilinu að setja í þvottavél? Nei.

Er ég sá næstduglegasti? Já.

Erum við bara tvö? Já, en það er enginn að fara að segja að ég sé ekki duglegur að þvo þvott.

Vandamálin með þessa blessuðu þvottavél, og allar aðrar heimilisþvottavélar, eru hins vegar nokkur. Í fyrsta lagi er hún allt of lítil. Í öðru lagi á hún það til að stoppa og einstaka sinnum leka, í þriðja lagi tekur þetta allt of langan tíma og svo er enginn að fara að segja mér að þessi síðasta mínúta sé í raun og veru ein mínúta. Þetta er lygi sem að allir þvottavélaframleiðendur hafa búið til til þess eins að fá okkur til að sitja fyrir framan vélina og horfa á tromluna snúast hring eftir hring á meðan líf þitt þýtur fram hjá.

Ég komst að því af biturri reynslu að það er ekki sniðugt að setja í þvottavél áður en þú ferð í vinnuna og koma síðan heim á kvöldin og taka úr henni. Nú gætir þú, kæri lesandi, verið að hugsa um það hversu ósjálfbjarga ég er, og það er bara kannski rétt hjá þér. Ég er samt óslípaður demantur í heimi þvottavéladjöfulsins og mun sigrast á honum, því get ég lofað.

pareidolia-16__605

Ég var samt ekki alltaf svona duglegur að setja í vél, ó nei! Áður en ég kynntist draumadísinni minni var ég hundlatur við öll heimilisverk. Það að vaska upp var eitthvað sem ég gerði kannski einu sinni í mánuði, setja í þvottavél reyndi ég helst að sleppa alfarið og að þrífa íbúðina … þið getið gleymt því!

Dísin mín mætti hins vegar á svæðið og gerði mig að betri manni, það má meira að segja færa rök fyrir því að hún hafi gert mig að manni. Ég fullorðnaðist fljótt og fattaði að ég gat ekki bara hugsað um sjálfan mig og slugsast áfram í lífinu.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir afa, ömmu og móður að kenna mér á þvottavélina gekk það ekki, eða þá að innst inni langaði mig ekki að læra það. Nú hins vegar kann ég á vélina og þarf bara að hringja til að spyrja hvað má fara í þurrkara og hvað ekki.

Þessar raunir mínar virðast kannski ekki vera miklar og ég geri mér fyllilega grein fyrir því að í augum margra gæti þetta flokkast sem hið mesta væl. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru litlu sigrarnir í lífinu sem geta gert gæfumuninn. Ég býð þó enn eftir stóra vinningnum, þegar ég kem heim eftir langan dag, næ í óhreina þvottinn og set hann í vélina án þess að taka eftir því.

Ég býð spenntur eftir því að hafa sigrast á þvottavélinni.

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts