Loksins, loksins, eftir langa bið, hef ég gert hús mitt að heimili. Það eru ekki Epal-húsgögnin og sérhönnuðu gardínurnar sem setja punktinn fræga yfir i-ið góða, heldur loðin og ljúf læða sem ber nafnið Blíða.

Kettir höfðu fylgt mér alla mína barnæsku, lengst af átti ég Snældu sem var djúpvitur köttur og hafði einstakt lag á að laga sálarsár ef á þurfti að halda. En eftir að ég komst á fullorðinsár og flutti í húsnæði þar sem einungis var gert ráð fyrir krökkum en ekki köttum þurfti ég að láta gott heita og bíta í það súra að geta ekki haft ferfætling á heimilinu.

Kattarskorturinn varð ekki tilfinnanlegur þegar börnin mín voru ung en nú þegar stóðið er orðið stálpað helltist yfir mig mikil kattarþrá. Við tóku ýmsar tilraunir til að selja eiginmanninum þá hugmynd að nauðsynlegt væri fyrir konur að eiga ketti. Hans skilningur á þeirri nauðsyn var ekki sá sami og minn og við það sat í nokkur ár. En öll él birtir upp um síðir.

Blíða litla kom með vorið til okkar. Litla læðan ljúfa hafði ekki átt sjö dagana sæla sem kettlingur, hún fannst yfirgefin í sumarhúsabyggð þar sem gott fólk kom henni í skjól eftir ærslafullan eltingaleik við hana.

Fósturforeldrar hennar hjúkruðu henni og dekruðu við hana á allan máta en þar sem þeir bjuggu í húsnæði sem hentar krökkum frekar en köttum þurftu þeir að finna henni nýtt heimili.

blíða

HÚSKÖTTUR: Blíða er gleðigjafi.

Kattarþorsti minn var orðinn slíkur að ég var fljót að svara kallinu þegar það kom á Facebook en þar óskuðu fyrri eigendur eftir nýju heimili fyrir Blíðuna góðu.

Það var mikil eftirvænting í loftinu daginn sem kötturinn kom inn á heimilið, mér fannst ég eiga von á fyrsta barnabarninu. Ég ruddist inn í dýraverslun og keypti sand og kassa og flest það sem köttum tilheyrir. Ég fékk svitakast af valkvíða þegar ég stóð frammi fyrir því að velja matarskálar, hvaða lit, hvaða tegund, möguleikarnir voru óendanlegir.

Og svo kom fósturmóðirin með hana skjálfandi í körfu, vart mátti á milli sjá hvor var með meiri aðskilnaðarkvíða. Að erfiðri kveðjustund lokinni tók ég við fósturhlutverkinu með dyggri aðstoð sona minna sem tóku henni sem dóttur sinni. Þegar Blíða lagðist til fóta í sjónvarpssófanum og malaði fann ég að loksins var hjarta komið í húsið.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts