Lauren Bacall var 89 ára þegar hún lést:

Leikkonan Lauren Bacall lést fyrr í þessum mánuði, 89 ára að aldri. Segja má að með henni hverfi síðasta Hollywood-gyðja gullaldaráranna af sjónarsviðinu. Bacall var aðeins 19 ára gömul þegar hún lék í sinni fyrstu kvikmynd, To Have and Have Not. Mótleikari hennar var erkitöffarinn Humprey Bogart og þau gengu skömmu síðar í hjónaband sem entist þar til krabbamein dró Bogart til dauða.

 

Goðsögn Nafn Lauren Bacall var eitt af þeim stærstu á gullaldarárum Hollywood enda Bacall ákveðin og aðsópsmikil kona. Djúp og seiðandi rödd hennar ásamt stingandi augnaráðinu urðu helstu einkenni hennar og hún þótti bera af stöllum sínum þegar kom að leikhæfileikum og gáfum. Hún var mjög pólitísk, var ásamt Bogart, eiginmanni sínum, í fylkingarbrjósti í göngu gegn kommúnistaofsóknum McCarthy í Hollywood og studdi Harry S. Truman í forsetakosningunum 1948.

Bacall fæddist í New York þann 16. september 1924. Hún var eina barn gyðinganna og innflytjendanna Williams Perske, skyldmennis Símonar Peres, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, og Natalie Weinstein-Bacal. Hún fékk nafnið Betty Joan Perske en hún breytti því síðar í Lauren og tók ættarnafn móður sinnar en bætti við einu l-i aftan við það. Þrátt fyrir nafnabreytinguna kölluðu margir vina hennar hana alla tíð Betty. Hún bjó fyrstu fimm æviárin í Brooklyn ásamt foreldrum sínum, þar til faðir hennar yfirgaf þær mæðgur.

Bacall var 19 ára þegar leikstjórinn Howard Hawks bauð henni hlutverk í myndinni To Have and Have Not árið 1944. Eiginkona Hawks hafði séð Bacall á forsíðu Harper´s Bazaar og hvatti hann til þess að fá fyrirsætuna í prufu. Þar heillaði hún alla viðstadda og þar með hófst kvikmyndaferill hennar. Ekki leið á löngu þar til Bacall var komin á stall með dívum eins og Vivian Leigh, Olivia de Havilland, Joan Fountain, Ingrid Bergman, Judy Garland, Barbara Stanwyck, Katharine Hepburn og Joan Crawford.

BLÍSTRAÐU: Bogart og Bacall saman í kvikmynd í fyrsta sinn. Hann var 45 ára og hún 19 en ástin blossaði upp á milli þeirra. Ein þekktasta lína Bacall í bíómynd gekk út á að hún kenndi Steve (Bogart) að blístra. „Þú setur bara varirnar saman og blæst.“ Þegar Bacall kvaddi Bogart í hinsta sinn lét hún flautu fylgja honum í gröfina með vísan til orðanna sem kveiktu ástarbál þeirra.

Fann ástina með einu blístri

To Have and Have Not markaði ekki aðeins upphafið á glæsilegum leikferli Bacall þar sem með myndinni hófst eitt rómaðasta ástarævintýri Hollywood. Töffarinn Huphrey Bogart lék á móti Bacall í myndinni og þau felldu fljótt hugi saman. Hann var þá 45 ára og aldursmunurinn því 25 ár. Þetta breytti því ekki að þau eru í hópi nánustu hjóna í sögu Hollywood og voru saman þar til krabbamein í hálsi dró Bogart til dauða 1957.

Bacall og Bogart eignuðust tvö börn Steven Humphrey sem var nefndur eftir persónu Bogarts í fyrstu mynd þeirra saman og dótturina Leslie sem var skírð í höfuðið á leikaranum Leslie Howard. Bacall dáði hann í æsku auk þess sem Howard studdi dyggilega við bakið á Bogart þegar hann var að hasla sér völl í kvikmyndum. Hjónin léku síðar í nokkrum klassískum Bogart-Bacall myndum: The Big Sleep, The Dark Passage og Key Largo. Bacall tók hjónabandið fram yfir leikferilinn og lék aðeins í einni mynd á ári á þeim árum. Myndum sem alltaf verið beðið eftir og vel tekið af áhorfendum.

Þegar Hawks sagði Bacall að hún mætti velja hvort hún fengi Cary Grant eða Bogart sem mótleikara í To Have and Have Not leist henni vel á Grant en í ævisögu sinni, By Myself, segir hún að fyrsta hugsun sín um Bogart hafi verið: „Ojbarasta.“ Þetta viðhorf snarbreyttist þegar þau kynntust.

Dauði Bogarts var Bacall mikið áfall en hún giftist aftur, leikaranum Jason Robards Jr., 1961 en þau skildu 1969. Samkvæmt ævisögu Bacall réð alkóhólismi Robards mestu þar um. Sjálfur var Bogart annálaður drykkjumaður en þótti engu að síður fara vel með alkóhólisma sinn og var sjaldan til vandræða.

Síðasta gyðjan

Í Madonnu-laginu Vouge frá 1990 telur söngkonan upp helstu gullaldardívur Hollywood. Þær voru ásamt Bacall, Marilyn Monroe, Grace Kelly, Jean Harlow, Rita Hayworth, Bette Davis, Greta Garbo, Marlene Dietrich, Ginger Rogers, Katharine Hepburn og Lana Turner. Bacall er sú síðasta úr þessum hópi til þess að kveðja þennan heim og því er óhætt að segja að með henni sé síðasta Hollywood-gyðjan horfin af sviðinu.

Bacall lék í fjölda mynda, undir stjórn virtra leikstjóra og á móti stjörnum á borð við Charles Boyer, Gary Cooper, Doris Day, Kirk Douglas, John Wayne, Betty Grable, Marilyn Monroe, Rock Hudson, Dorothy Malone og Gregory Peck. Hún vann nánast fram á síðasta dag en í seinni tíð lék hún til að mynda í Misery, The Mirror Has Two Faces og Dogville eftir Lars Von Trier.

Árið 2006 var Bacall fyrsta leikkonan til þess að hljóta Katharine Hepburn medalíuna sem heiðrar konur sem í lífi og starfi standa fyrir gáfur, dug og sjálfstæði. Við þetta má bæta að Hepburn og Bacall voru nánar vinkonur. Bacall var aðeins tilnefnd til Óskarsverðlauna einu sinni, fyrir The Mirror Has Two Faces 1996 en hlaut þau ekki. Það var svo ekki fyrr en 2009 sem hún fékk heiðursóskarinn fyrir framlag sitt til kvikmyndanna.

Related Posts