snilligáfa kvenna, uppfinningakonur

EIGA MEIRA SKILIÐ: Kvenréttindasinnar hafa í fjölda ára barist fyrir því að saga kvenna fái stærri sess í sögubókum.

Rúðuþurrkan, Tipp-Ex, elsku uppþvottavélin og fleira ómissandi:
James Brown söng á síðustu öld að heimurinn sem við byggjum í væri karlaheimur. Hann sagði okkur að karlar hefðu búið til bílana, vegina og ljósaperuna en heimurinn væri lítilsverður án kvenna og stúlkna.

Kvenréttindasinnar hafa í fjölda ára barist fyrir því að saga kvenna fái stærri sess í sögubókum. Ekki bara uppfinningakvenna, heldur líka merkiskvenna sem hafa fallið í skugga karla. Heimssagan er full af konum sem börðust gegn okinu og gerðu það sem þær langaði til en lítið er sagt frá. Það ýtir kannski undir nauðsyn þess að auka umfjöllun um konur í sögubókum að ekki finnast góðar myndir af flestum konunum sem hér um ræðir.

Mary Anderson (1866-1953)

Undarleg viðbrögð karla við rúðuþurrkum
Árið 1903 fann Mary upp rúðuþurrkur á framrúður bíla. Á þessum tíma þótti ekki kvenlegt að keyra og voru því fáar konur sem fóru um á bílum. Það útskýrir kannski undarleg viðbrögð karla við þessari uppfinningu en þeim fannst hún ekki upp á marga fiska. Þeim fannst öruggara að keyra um í rigningu og snjókomu og sjá illa, heldur en að toga í stöng til þess að hreinsa rúðuna. Þrátt fyrir efasemdir til að byrja með voru rúðuþurrkur orðnar staðalbúnaður á flestum bílum árið 1916. Ári seinna fékk Charlotte Bridgwood einkaleyfi fyrir mótorknúnar rúðuþurrkur.

snilligáfa kvenna, uppfinningakonur

FLOTTAR: Konur gefa körlum ekkert eftir þegar kemur að uppfinningum.

Josephine Cochrane (1839-1913)

Uppvask tók of langan tíma
Josephine var mjög rík kona og hélt margar veislur og matarboð. Þjónar hennar sáu iðulega um að þvo leirtauið eftir veislurnar en hún tók eftir því að það brotnaði óþarflega mikið upp úr bollum og diskum, eins fannst henni uppvaskið taka of langan tíma. Hún ætlaði að kenna þjónunum lexíu og sýna þeim hvernig ætti að þvo stellið án þess að brjóta upp úr því en hún sá fljótlega að hún komst ekki hjá því heldur. Þar sem ekki var til nein vél sem sá um verkið ákvað hún einfaldlega að búa vélina til og árið 1886 fékk hún einkaleyfi á uppþvottavélinni. Hún vann til verðlauna fyrir uppfinninguna og stofnaði fyrirtækið Garis-Cochran Manufacturing Company sem síðar varð partur af KitchenAid, sem síðar rann inn í Whirlpool.

Margaret E. Knight (1834-1914)
Reynt að stela hugmyndinni
Fram til ársins 1868 voru bréfpokar líkir umslögum og því ekki auðvelt að nota þá til að bera mikið. En þetta ár bjó Margaret til vél sem braut saman og límdi pappír til þess að gera bréfpoka líkt og við þekkjum þá í dag. Fyrsta útgáfan var gerð úr viði en til þess að geta fengið einkaleyfi varð hún að vera úr járni. Þegar verið var að gera járnútgáfuna af vélinni fyrir hana, sá maður að nafni Charles Annan vélina. Hann stal hugmyndinni og flýtti sér að sækja um einkaleyfi fyrir hana. Margaret fór hins vegar í mál við manninn, vann það og fékk einkaleyfið árið 1871.

snilligáfa kvenna, uppfinningakonur

RÁÐAGÓÐ: Bette fór að nota hvítan þekjulit í leyni til að hylja mistök

Bette Nesmith Graham (1924-1980)
Fann upp Tipp-Ex í laumi
Þegar rafmagnsritvélarnar komu á markað um miðja síðustu öld varð öll ritvinnsla mun auðveldari, hins vegar gerði það leiðréttingar mun erfiðari þar sem á gömlu ritvélunum var hægt að stroka út textann með strokleðri og leiðrétta þannig. Bette fór að nota hvítan þekjulit í leyni til að hylja mistök en það tók hana mörg ár að þróa þekjulitinn og úr varð árið 1958 að hún fékk einkaleyfi á leiðréttingarvökva sem við þekkjum betur sem Tipp-Ex. Árið 1979 keypti Gillette fyrirtæki hennar fyrir 47,5 milljónir dollara.

Tabitha Babbitt (1784-1853)
Fékk ekki að sækja um einkaleyfi
Vefarinn Tabitha áttaði sig á því árið 1813 að það væri sennilega auðveldara að saga niður tré með hringsög frekar en að nota venjulega sög sem tveir menn héldu í og toguðu í á víxl. Hún bjó til frumgerð sagarinnar og festi á rokkinn sinn. Tabitha var partur af Shaker-samfélaginu og þar var ekki tekið vel í að hún fengi einkaleyfi á söginni svo aðrir gætu notað hana. Shaker-arnir hins vegar notfærðu sér uppfinninguna óspart. Endanleg útgáfa var vatnsknúin til þess að minnka áreynslu við skógarhögg. Þótt Tabitha fengi ekki einkaleyfi á söginni svo aðrir gætu notað hana, sóttu tveir franskir menn um einkaleyfi þremur árum seinna eftir að þeir sáu hana í tímariti sem Shaker-arnir gáfu út.

 

Related Posts